lín-fyrirtækjamerki

Fórnarkostnaður námsmanna

Námsmenn við fartölvuNámsmenn tilheyra sama hópi og atvinnulausir og öryrkjar, þegar litið er til kjarastöðu, þ.e. hópi fólks sem lifir á lágmarksframfærslu og hefur ekki umboð til að semja um eigin afkomu heldur verður að sætta sig við það sem að þeim er rétt. Þessi hópur býr nefnilega ekki yfir því kjaraviðræðna-vopni sem verkfallsboðun er. Í tilfelli námsmanna skiptir það LÍN (Lánasjóð íslenskra námsmanna) nákvæmlega engu máli þó stór hópur þeirra fari í námsverkfall, fyrir þeim þýddi það bara færri einstaklinga sem þyrftu framfærslu. En námsmenn eiga það til að gleymast í umræðunni um kaup og kjör landsmanna.

Af þessum sökum eru nýju neysluviðmiðin sem velferðarráðherra kynnti nýlega til sögunnar, í skýrslunni Íslensk neysluviðmið, löngu tímabær viðbót sem brýnt er að nota sem lóð á vogarskálarnar í baráttu námsmanna fyrir bættum kjörum. Samkvæmt skýrslunni eru neysluviðmiðin ætluð til hliðsjónar þegar teknar eru ákvarðanir um fjárhæðir sem tengjast framfærslu og því hlýtur að vera skilyrðislaus krafa um að forsvarsmenn LÍN taki nýju neysluviðmiðin til greina og endurskoði framfærslulánin til námsmanna.

Rök LÍN fyrir lágri framfærslu hafa verið þau að námsmenn eigi ekki að hafa færi á að lifa lúxuslífi á framfærslulánunum og því sé aðeins lánað til lágmarksframfærslu. Í dag eru framfærslulán LÍN til einstaklings í fullu námi 120.720 krónur á mánuði. Samkvæmt nýju neysluviðmiðunum er grunnviðmið einstaklings til framfærslu á mánuði 86.530 krónur að lágmarki, án húsnæðis- og samgönguútgjalda. Miðað við þá tölu og núverandi framfærslulán þá hefði einstaklingur 34.190 krónur aflögu til að leigja sér íbúð og borga í strætó (því ekki er gert ráð fyrir að námsmenn reki bíl). Hver heilvita maður getur séð hversu óraunhæf þessi upphæð er, en samt sem áður er þetta sá veruleiki sem námsmenn lifa við í dag.

Mótmæli við HÍFórnarkostnaður okkar námsmanna er skýr: Við erum neydd til að lifa langt undir lágmarksframfærsluviðmiðum vegna þess að við viljum búa okkur (og þjóðinni allri) betri framtíð. Segja má að okkur sé í raun refsað fyrir þennan metnað; við þurfum að ganga hálfgerða píslarvættisgöngu áður en við hljótum (mögulega) uppreisn æru einhvern tíma síðar á lífsleiðinni. Og svo virðist sem þetta þyki alveg sjálfsagt. En þetta fyrirkomulag er hreint út sagt fráhrindandi fyrir marga upprennandi háskólanemendur og veldur því jafnframt að margir hrökklast frá námi. Við viljum lifa í samfélagi þar sem rétturinn til náms þykir sjálfsagður, en í því felst ekki síst að tryggja námsmönnum hæfilega framfærslu á meðan á námstíma stendur.

Ef LÍN hefði raunverulegan áhuga á að gæta sanngirni þá þyrfti að gera ráð fyrir a.m.k. tvöföldun þeirrar grunnupphæðar sem neysluviðmiðin gera ráð fyrir til að tryggja námsmönnum leiguhúsnæði, en þá væri upphæðin 173.060 krónur í framfærslu fyrir einstakling á mánuði fyrir lágmarks afkomu. Þetta finnst mér alls ekki há upphæð, og borin saman við dæmigert neysluviðmið einstaklings, sem samkvæmt skýrslunni eru 291.932 krónur á mánuði, þá eru þetta bara smámunir. Fyrir okkur námsmennina munar aftur á móti um hverja krónu – og auk þess getur almennileg framfærsla leitt til þess að námsmenn hafi meiri möguleika á að einbeita sér að fullu að náminu í stað þess að neyðast til að stunda hlutastörf meðfram námi.

Að lokum vil ég benda á eitt atriði sem oft vill gleymast en er mikilvægt þegar rætt er um þá upphæð sem veita beri námsmönnum til framfærslu: Framfærsla okkar er lán og við munum borga það allt aftur, með vöxtum!

Eva Hafsteinsdóttir,
meistaranemi í menningarfræði


Comments

41 responses to “Fórnarkostnaður námsmanna”

 1. Anna Arnar Avatar
  Anna Arnar

  Sammála þessu en við þetta má bæta að við námsmenn erum líka nánast réttindalaus. T.d. þegar kemur að fæðingarorlofi þá höfum við ákaflega takmarkaðan rétt á því og sá réttur er allur tengdur námsframvindu. Ef verðandi móðir veikist á meðgöngunni og missir niður einhverjar einingar á hún ekki lengur rétt á nema fæðingastyrk sem nemur um 40 þús. krónum á mánuði. (þar miðar Fæðingarorlofssjóður við 22 einingar þó að LÍN sætti sig við að viðkomandi nái ekki nema 18).
  Ef móðurinni tekst að sinna sínu námi til fulls á meðgöngunni á hún rétt á fæðingarorlofi en þá kemur á daginn að framfærslan þar er talsvert lægri en framfærslan sem LÍN veitir og flest erum við sammála um sú framfærsla dugar skammt.

  Í þessu samfélagi okkar sem vill stæra sig af því að meta menntun mikils er ekki verið að reyna að styðja við bakið á námsmönnum og sýna það í verki. Við erum annars flokks fólk með lítil sem engin réttindi.

 2. Bjarni Þór Pálsson Avatar
  Bjarni Þór Pálsson

  Sæl Eva,

  Erfitt gæti verið að koma þessum orðum betur frá sér, en, einu má bæta við.

  Ef við erum ekki svo lánsöm að hafa náð að safna okkur upp byrjunarsjóð þegar önnin hefst, neyðumst við til að taka yfirdráttarlán, á ekkert svo æðislegum vöxtum, til að fá þessar mánaðarlegu “tekjur” sem svo rýra þessa smámuni enn frekar.

  Hækkun námslána sem og útgreiðsla mánaðarlega, þá fyrst erum við farin að nálgast eitthvað sem hægt væri að sætta sig við.

  Nú er auðvitað auðvelt að koma með mótrök fyrir mánaðarlegri geriðslu, “þeir sem fara í skóla bara til að gera það, fá lánin sín, og gera svo ekkert”. Það er ekki eins og það væri erfitt að framfylgja reglu varðandi það. Þeir sem klára fyrsta árið með ákveðið góða námsframvindu, segjum 7 meðaleinkunn, eiga kost á þessu.

  En þetta er þónokkuð útfyrir málefnið, vildi bara koma þessu að.
  Kv. Bjarni

 3. Davíð Avatar
  Davíð

  Góður pistill og er alveg sammála.

 4. Virkilega þörf umræða.
  Mætti líka nefna alla háskólanemana sem eiga börn, eiga erfiðara með að fá vinnu yfir sumarið vegna þess að þau eiga börn og þurfa þar að auki yfirleitt að taka frí vegna leikskóla og skóla, allavega í 2-3 vikur og sumarvinnur í dag í kreppu bjóða ekki upp á það að fólk taki sér frí, þá er auðveldara að ráða barnlausa einstaklinga.
  Þetta fólk hefur engin úræði nema auka yfirdráttinn enn frekar til að geta þraukað yfir sumartímann. 🙁

 5. Sædís Avatar
  Sædís

  Virkileg þörf á svona umræðu – það einmitt virðist vera sem svo, að það sé ekki skilið að þetta sé LÁN sem við greiðum til baka. Tala nú ekki einnig um allt þetta vesen í kringum lín og ég held að enginn geti sagt að hann hafi alltaf verið sáttur með þau!!!

  En eins og ein nefndi hér í byrjun, er ekkert komið á móts við háskólanema sem eignast börn í miðri skólagöngu – fyrir mitt leyti upplifði ég eintóm leiðindi af hálfu lín þegar ég átti mitt annað barn. Þeir vilja meina að yfir skólaárið verðuru að ná 75 einingum, minnir mig, til þess að eiga rétt á að fá lán fyrir skólagjöldum fyrir sumarönn – ég var með 62 þar sem ég sleppti tveimur fögum vegna barnsfæðingar – Má þess einnig geta að það var ekki fræðilegur möguleiki að ná að 75 og geta þá sleppt einu fagi – ég hefði þurft að taka öll þar sem þetta er greinilega ekki miðað af einingarkerfinu í skólanum sem ég er í

  Legg til að það verði talað miklu meira um þetta málefni – ég veit bara að við eigum aðeins betra skilið en þetta

  Takk fyrir flottan pistil 🙂

 6. Eva Hafsteinsdóttir Avatar
  Eva Hafsteinsdóttir

  Takk fyrir viðbrögðin. Það er nokkuð ljóst að brýn nauðsyn er á að bæta framfærslukerfi námsmanna, og hefði verið hægt að skrifa MIKLU lengri pistil um þetta efni. Kerfið virðist ekki vera miðað að því að á Íslandi eru námsmenn í háskólanámi oft eldri en í öðrum löndum; fólk sem er með fjölskyldur eða að stofna fjölskyldu, sem þeim er augljóslega gert afskaplega erfitt, miðað við athugasemdirnar hér. Eins með fyrirframgreiðsluna, en ég hef stuðst við fyrirframgreiðslur frá bankanum mínum allan minn námsferil, því eins og Bjarni bendir á þá eiga fáir nægilega mikið lausafé til að framfleyta þeim fyrstu önnina fram að útborgun námslánanna. Þá finnst mér líka vanta einhvers konar “verðlaunakerfi” (skilst að svoleiðis sé í hinum norðurlöndunum, þar sem afburða námsárangur er verðlaunaður með niðurfellingu námslána eða hluta þeirra. Og svo væri að sjálfsögðu hægt að skrifa aðskilinn pistil um vinnubrögð starfsmanna LÍN, en oft er eins og maður sé að sníkja pening frá þeim persónulega miðað við það viðmót sem mætir manni á þeim bæ.
  Neysluviðmiðin frá velferðaráðherra eru hins vegar góður upphafspunktur fyrir þessa umræðu, þar sem þau sýna svart á hvítu hve rosalega langt undir viðmiðunarmörkum námsmenn lifa. Þegar neysluviðmiðsskýrslan kom út var einmitt ein frétt á Pressunni þann 7.febrúar síðastliðinn þar sem fyrirsögnin hljómar svona: “Ný neysluviðmið: Hópar undir hungurmörkum uppgötvuðust í dag – Höfum búið við rangar tölur”. Þarna er rétt eins og einhver hafi verið að taka til, og “uppgötvað” hóp hungurmorða fólks bak við sófa, eða eitthvað – “Úps… þið hér!”.
  Námsmenn eru hins vegar sjáldnast með í umræðunni um þá sem minnst hafa á milli handanna í samfélaginu. Við höfum verið hinn gleymdi þjóðfélagshópur, en ég held að nú sé kominn tími til að minna á okkur.

 7. Og sum stéttarfélög “reka” mann þaðan sé maður ekki starfandi við fagið á meðan maður fer í háskólanám, sem þýðir að öll þau réttindi sem fólk hefur greitt fyrir-fari það í háskólanám eftir X ákveðin langan starfsferil, falla niður. Þetta eru mikilvæg réttindi á borð við launagreiðslur vegna sjúkdóma eða slyss, tannlæknastyrkir, aðgangur að sumarhúsum, styrkur til sjúkraþjálfunar og fleira. Þau stéttarfélög sem “leyfa” fólki að fara í nám og reka mann ekki fyrir það, rukka um 10.000 kr á mánuði til að halda rétti. Segir sig sjálft LÍN gerir ekki ráð fyrir slíku. Og ekki er almannatryggingakerfið á Íslandi þannig að námsmenn geti leyft sér að veikjast alvarlega né fara til tannlæknis. Svo eitthvað fátt sé nefnt. Svo ekki sé talað um lífeyrisgreiðslur sem fæstir námsmenn hafa tök á að greiða á meðan námi stendur. Og dirfist námsfólk að vinna á sumrin, lækka lánin og maður gæti neyðst til að greiða af lánunum á meðan maður er í námi, ef maður þénar yfir X ákveðin mörk, sem samt er svo lítið að maður getur tæplega séð fyrir sér og sínum. Einnig væri gaman að vita hvað bankarnir eru að græða á þessu fáránlega fyrirgreiðslukerfi, sem ekki neins staðar þekkist á hinum Norðurlöndunum. Þeir bara hlæja að okkur. Þar eru öll lán að hluta til gerð að styrk við námslok. En einnig krefja þeir mikilvægar stéttir á borð við lækna um að þjóna allri landsbyggðinni og vera starfandi í landinu í X ákveðinn tíma í stað fyrir styrkinn. Þetta væri nú ekki vitlaus pæling á Íslandi sem berst í bökkum vegna lækna sem flýja land og sífellt meiri einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu, sem sagan hefur sýnt margoft að leiði ekki til þess að fólk hafi val, heldur til almennrar mismununnar. Aðeins þeir fjársterku hafa þá aðgang að mannsæmandi heilbrigðisþjónustu, skýrasta dæmið eru Bandaríkin. Og er það virkilega það sem Ísland vill. Maður spyr sig.

 8. Elísabet Rún Avatar
  Elísabet Rún

  Ég ætla ekki að taka þátt í þessari umræðu þar sem að mitt álit er ekki velkomið, en ég undra viðhorf námsmanna til starfsmanna LÍN, og í rauninni hneiksluð hvað fólk getur látið frá sér. Persónulega þá hef aldrei lent í neinu nema yndislegu viðmóti frá starfsmönnum á skrifstofunni og það hefur nú verið ýmislegt vesenið á mér. Ég neita að trúa því að ég sé alltaf það heppin að ég lendi á eina hressa starfsfólkinu á skrifstofu LÍN.
  Fólk verður að átta sig á að þetta er fólk sem er að vinna sína vinnu og það ber að bera virðingu fyrir því og alger óþarfi að úthúða því á opinberum vefjum þó þú hafir einhverntíman lent á einhverjum sem átti slæmann dag. Hugsaðu útí það hvenær þitt eigið skap bitnaði á starfsmanni í þjónustu starfi.

 9. Eva Hafsteinsdóttir Avatar
  Eva Hafsteinsdóttir

  Sæl Elísabet Rún.
  Ég vil endilega hvetja þig til að taka þátt í þessari umræðu áfram þar sem öll viðhorf eru fyllilega velkomin, sérstaklega í ljósi þess að því fjölbreyttari viðhorf sem koma fram því heildstæðari yfirsýn fáum við yfir vandamálið (sem hérna er framfærsla og réttindi námsmanna). Ég fagna því að samskipti þín við LÍN hafi farið fram á vinsamlegum nótum, og vona innilega að fjölmargir aðrir nemendur hafi svipaða sögu að segja.
  Erfiðleikar sem fólk lendir í, í samskiptum sínum við LÍN eru að sjálfsögðu að mestu tilkomnir vegna þess regluverks sem starfsfólkinu þar er gert að hlíta og ekki við þau persónulega að sakast. Það er regluverkið sem grundvallar framfærslukerfi og réttindi námsmanna á Íslandi sem þarf að endurskoða, og vona ég að flestir séu sammála um það.
  Annars er gagnkvæm kurteisi í samskiptum við fólk eitthvað sem allir ættu að hafa í hávegum, hvar sem er, og ég bið þig innilega afsökunar á að hafa móðgað þig með athugasemd um mína reynslu af samskiptum við starfsmenn LÍN.

 10. Ómar Berg Rúnarsson Avatar
  Ómar Berg Rúnarsson

  Greinin er góð lesning og verður vonandi til þess fallinn að hafa áhrif á þau kjör sem íslenskum námsmönnum bjóðast.

 11. Sunna Dís Avatar
  Sunna Dís

  Frábær grein og mig langaði til þess að segja ykkur líka frá einu sem ég lenti í.

  Ég er einstæð móðir í námi og hef ekki unnið síðan í september í fyrra. Það er ómögulegt fyrir mig að lifa á námslánum þar sem ég er leiga og leigan er 110.000. Nú myndu margir hugsa, afhverju er hún að leiga svona dýrt? málið er að ég bý í 105 þar sem skólinn minn er í göngufæri og leikskólinn hjá stráknum mínum einnig. Ég hef leitað að ódýrari íbúð á þessu svæði sem er íbúðarhæf og það virðist bara ekki vera option. Ég hef aðgang að byggingarfélagi námsmanna og íbúð þar í 105 kostar 100.000 og er 2 herbergja 58 fm, ég leigi 70 fm íbúð sem er 2 herbergja. Það munar aðeins 10 þúsund krónum, ég flyt ekki í leiguíbúð sem er minni fyrir aðeins 10.000. Ég talaði við félagsþjónustuna í mínum hverfi og fékk viðtal hjá félagsráðgjafa. Ég get ekki unnið með skóla bæði vegna þess hve krefjandi nám mitt er og einnig vegna þess að ég á við heilsufarsvandamál að stríða eftir meðgöngu mína. Ég fór til ráðgjafa hjá þjónustumiðstöð minni um að ég þyrfti einhvers konar aðstoð þar sem það væri bara alveg ómögulegt fyrir mig að lifa á námslánunum einungis. Ég leitaðist eftir að fá svokallaðar sérstakar húsaleigubætur sem munar miklu. Ég sótti um þetta í október og fékk tvisvar sinnum neitun, sökum þess að “ég ætti ekki nógu erfitt” og því að ég væri í lánhæfu námi. Þau voru ekki alveg að fatta að þetta væri LÁN EN EKKI TEKJUR. Eftir mikla baráttu við að fá einhvers konar aðstoð og marga tölvupósta og viðtöl við félagsráðgjafa þá fékk ég loksins samþykki þessara sérstöku húsaleigubóta og var mér tilkynnt það í síðustu viku. Þannig að frá október þangað til í mars var ég að standa í því að fá 30-40 þúsund króna aðstoð með námi vegna aðstæðna minna þar sem ég hef ekki rétt á hærri námslánum en raunin var.

  Vildi bara koma þessu á framfæri í ljósi þessara vel skrifuðu greinar 🙂

 12. Guðný Avatar
  Guðný

  Verð að taka undir með þeim sem á undan mér hafa ritað, alveg snilldarvel skrifuð grein.

  Við hjónin erum bæði í námi í Danmörku, og hérna fá námsmenn styrk til að vera í skóla, styrkur sem er þó háður ákveðnum skilyrðum. Þurfi námsmenn meiri innkomu, þá hafa þeir möguleika á að taka námslán.

  VIð höfum ekki möguleika á að vinna með námi, enga vinnu að fá. Sumarvinna er eitthvað sem við höfum ekki einu sinni möguleika á að láta okkur dreyma um, þar sem enga vinnu er að hafa á svæðinu sem við búum á og ekki er arðbært að vinna á Íslandi í ljósi gengisþróunar. Ja, og svona fyrir utan það, þá þykir mér hæpið að fá sumarvinnu í þær tæplega 6 vikur sem sumarfríið okkar er (og innan þessarra 6 vikna þarf dóttir okkar að taka frí á leikskóla í 2-3 vikur).
  Sl. 2 ár, höfum við átt þess kost að fá styrk yfir sumartímann, frá norrænu ráðherranefndinni, en það verður víst ekki möguleiki í ár. Gleði, gleði… 3 börn á framfæri og engin innkoma. Þetta verður fróðlegt.

  Að lokum vildi ég benda á, í ljósi þess sem Elísabet Rún skrifaði, að starfsfólk LÍN er eins misjafnt og það er margt. Ég hef talað við fólk sem sýndi virkilega þjónustulund og líka þá sem hafa verið verulega dónalegir, því miður virðast hinir síðasttöldu vera í meirihluta.
  Þegar bankahrunið var heima á Íslandi, lofaði LÍN öllu fögru, neyðarlán fyrir námsmenn í útlöndum og ýmislegt fleira. Við sóttum um þessi neyðarlán (eins og nokkur hundruð aðrir íslenskir námsmenn í útlöndum) og fengum aldrei svar við því hvort við gætum fengið lánið eða ekki, frá LÍN… heyrðum bara í útvarpsfréttum (vel falið innan í hádegisfréttum á aðfangadag) að af þeim sem sendu inn umsóknir hafi 3 fengið þetta lán!!! Þá höfðum við ítrekað haft samband við LÍN, til að spyrja út í það hvort eitthvað væri að frétta af umsókninni okkar og alltaf fengið þau svör að ekkert væri að frétta. Ein kona svaraði okkur með því, að íslenskir námsmenn í útlöndum hefðu ekkert við þessa peninga að gera, þeir hefðu það bara fínt, og hún hefði sko frétt af námsmönnum sem sáust í Legolandi!!
  Þannig að mínar sögur af LÍN eru bæði góðar og slæmar.

  Vildi bara koma með þetta innlegg í umræðuna.

 13. Það eru forréttindi að fá ókeypis peninga eða lágvaxta lán. Það að námsmenn lifi af bendir til þess að peningarnir sem þeir hafa milli handanna séu meira en lágmarksframfærsla, að minnsta kosti yfir nauðþurftamörkum. Ég kvarta ekki yfir að íbúar þessa lands, sem þar til fyrir skömmu áttu rétt efni á bót fyrir boruna á sér og sitja nú undir gífurlegu skattheimtuhlassi, séu ekki krafðir um enn frekari fjárframlög til þess fólks sem í framtíðinni mun enda í tekjuhæsta hópi þeirra. Ég efa líka að háskólanemar upp til hópa vilji bæta landið með menntun sinni – þeir hafa bara gaman af að læra og vilja áhugaverð störf.

 14. Anna Bára Avatar
  Anna Bára

  Er þetta semsagt bara spurning um að eiga fyrir salti í grautinn?
  Ég er einstæð í fullu námi, þegar allt er tekið til með framfærslu þá hef ég í kringum 50 þús til að lifa af eftir mánuðinn, sem eru rúmlega 10 þús krónur á viku með bensíni.
  Skv framfærslunni sem þarf að deila í 6 mánuði eftir áramót eru það 169 þús á mánuði, bankinn tekur prósentu af því þar sem ég borga 6% vexti af yfirdráttinum af láninu þangað til ég fæ það greitt. Fæ 40 þús í meðlög á mánuði, borga 30 þús á mánuði í leikskólagjöld, og nánast hægt að segja að restin af meðlaginu fari í bleyjur, það eru allavega stór útgjöld á mánuði.
  Borga ekki af bíl en borga tryggingar og borga leigu af leiguhúsnæði, rúmlega 100 þús á mánuði þegar er búið að taka frá húsaleigubætur. Svo er sími og net sem er ekki há upphæð.
  Bensínið cirka 3000 vikan og mat fyrir rest, það dugir en ég er heldur aldrei með kjúklingabringur í matinn, tími ekki að kaupa salat haus og svo framvegis….þetta er heil vika og börnin eru tvö, þetta er mjög tæpt!
  Já það dugir ef það kemur ekki neitt annað upp á, það er kvíði á heimilinu yfir veikindum barnanna því einn pensilín skammtur er rúmlega 3000 krónur, afmælisboð hjá frænkum/frændum, ömmurnar og afarnir skilja það að þau fá engar gjafir en börnin skilja það ekki, ekki komist hjá því, svo þar sem námið er frá ágúst fram í maí þá þurfa börnin yfirleitt föt á þessu tímabili, það er ekki fræðilegur að geta fatað börnin sín upp þegar þú hefur þennan pening á mánuði. Jú ég kaupi stígvél í rúmfó og reyni að redda mér ódýrt ef einhver fer út en ég hef varla keypt flík á sjálfa mig í ár, ekki einu sinni skópar, vil þá frekar geta keypt vettlinga á börnin mín ef svo ber undir.
  Ég er búin að vera í 2 ár í námi og það gefur augaleið að þetta gengur engan veginn svona upp, enda er ég komin með yfirdrátt, skulda foreldrum mínum lán og ég sé ekki fram á að fá vinnu í sumar þar sem ég þarf að taka frí útaf leiskólafríinu, það er meir en að segja það að vera í fullu námi og vera með magasár alla daga yfir því hvort mánuðirinn gangi upp og velta vísa korti á undan sér líka.
  Þetta er svo langt frá því að vera munaður, þetta er virkilega erfitt, við borgum þessa peninga til baka og langflestir hverja einustu krónu með vöxtum. Ég er í alvöru ekkért smábarn, er orðin þrítug og hef oft grátið yfir því hversu erfitt þetta er fjárhagslega og reynt eins og ég get að ná endum saman, og ég er ekki með bílalán á bakinu eins og margir aðrir sem hafa það þá væntanlega enn verr.

  Það gefur augaleið að ég á ekki líkamsræktarkort, börnin stunda engar tómstundir, ekki íþróttaskóla né neitt annað, ég fer aldrei í bíó né útað borða og ég fer aldrei útað skemmta mér, myndi ekki tíma að taka mér leigubíl heim né kaupa mér bjór á barnum.
  Ég hef leyft mér kaffibolla í skólanum en ég hef aldrei keypt mér heitan mat í hádeginu, ég tek alltaf með mér nesti.

  Með starfsmenn Lín þá hef ég alveg lent í góðu viðmóti en það verður að segjast eins og er að oftar hef ég lent í leiðinlegu viðmóti starfsmanna þar. Þurfti eitt sinn að láta senda mér staðfestingu á láni frá lín, hringdi niðureftir og konan sem ég man nafnið á en ætla ekki að segja það hér, hún sagði að svona beiðnir þyrftu að berast með nokkra daga fyrirvara, þær hefðu engan tíma í þetta og ég fékk góða ræðu um hvað það var mikið að gera hjá þeim, ég þakkaði fyrir og skellti á. Hringdi strax aftur bað um þjónustufulltrúa en tók það fram að ég vildi ekki tala við x (tók það ekki fram að ég hefði verið nýbúin að tala við hana) fékk þá samband við Guðrúnu, hún sagði bara strax hvert á ég að senda þetta og sendi þetta meðan ég talaði við hana í símann!! Ofan á allt þá talaði ég lengur við konuna sem hélt fyrirlesturinn um það að það væri ekki hægt að hringja og fá þetta samdægurs, þannig að viðmótið er svo sannarlega misjafnt hjá starfsfólkinu þarna, ég veit að þessi kona er að vinna þarna enn.

 15. Takk fyrir vel skrifaða grein nafna og mjög svo þarft umræðuefni í dag!

  Það er löngu kominn tími á að breyta því viðhorfi sem námsmenn hafa í dag. Danir líta t.d á sína mánsmenn sem einskonar “fjárfestingu” framtíðarinnar á meðan íslenskir námsmenn berjast fyrir sinni menntun. Smá munur þarna á milli og nauðsynlegt að laga.

 16. Eva Hafsteinsdóttir Avatar
  Eva Hafsteinsdóttir

  Takk fyrir allar athugasemdirnar, reynslusögurnar og að deila skoðunum ykkar. Pressan.is er búin að fjalla um þetta mál, og vonandi að aðrir miðlar fylgi í kjölfarið. Við ættum endilega að reyna að vekja athygli á þessu og láta í okkur heyra. Ég tel að þessi neysluviðmið ættu ekki að vera upp á punt, heldur þurfum við að krefjast þess að þau séu tekin til greina og að framfærsla okkar, ekki síður en lægstu tekjurnar og atvinnu- og örorkubætur, séu hækkaðar í samræmi við það sem kemur fram í skýrslunni. Einnig er ljóst að úrbóta er þörf á réttindamálum námsmanna og mikilvægt að vekja athygli á því líka.

 17. Ég er í fullu námi, í sambúð og á þrjú börn. Ég er að klára BA í vor og stefni á MA nám í framhaldi af því.
  Það er búið að vera fróðlegt að lesa öll innleggin.
  Ég hef persónulega bæði lent í mjög almennilegu fólki hjá Lín sem og mjög ókurteisu fólki þar sem ég upplifði að ég væri að trufla þau og þau töluðu niður til mín, mér leið einsog ég væri krakki. Mér finnst mjög misjafnt álitið sem fólk hefur á námsmönnum, sumir eru á þeirri skoðun að námsmenn séu mjög duglegir og fólk dáist að fólki sérstaklega eldri námsmönnum með börn fyrir dugnaðinn en svo eru aðrir sem finnast námsmenn vera blóðsugur sem lifa frítt,skemmta sér og njóta lífisins. Ég dáist að öllum sem mennta sig, sama á hvaða aldri þeir eru fyrir að vilja mennta sig og öðlast betra líf. Mitt markmið er að klára að mennta mig og fá vinnu sem mér líkar við, þar sem mig hlakkar til að vakna á morgnana og fara í vinnuna mína. Ég valdi nám þar sem launin eru ekki í samræmi við vinnuna að mínu mati en þar liggur áhuginn minn og þar við situr. Ég vil líka að börnin mín sjái að foreldrar þeirra menntuðu sig svo þau geti ekki sagt eftir tíundabekkinn, ég nenni ekki í skóla,afhverju á ég að fara í skóla, ekki gerðir þú það…Ég er heppin að eiga mann sem er búinn með sitt nám og fékk sem betur fer vinnu. Við eigum tvo gamla bíla skuldalausa og erum á leigumarkaðnum og við rétt tórum á hans launum og mínum námslánum, við gætum aldrei lifað af ef við ættum fasteign. Það sem ég myndi vilja sjá breytast er að námsmen gætu fengið fjárhagsaðstoð eða atvinnuleysisbætur yfir sumartímann ef þeir fá ekki vinnu og þá sérstaklega barnafólk þar sem leikskólar og skólar eru lokaðir í nokkrar vikur á hverju sumri og það er ekki hlaupið að því að fá pössun fyrir þau og mér finnst að þau megi líka njóta foreldra sinna yfir sumartímann þar sem þeir eru iðulega lærandi og hafa lítinn og takmarkaðan tíma fyrir þau annars því miður. Einnig að framfærsla námsmanna myndi hækka og þá er ég ekki að tala um þannig hækkanir að lifa e-u lúxuslífi, fara út að borða og í bíó í hverri viku og kaupa sér föt einu sinni í mánuði heldur þannig að fólk nái að borga leiguna sína, reikiningana sína og kaupa mat og leyfa börnunum sínum að stunda íþróttir. Endurtek aftur það sem hefur komið fram að þetta eru NÁMSLÁN ekki NÁMSSTYRKUR, heldur LÁN sem eru borgað til baka og það að þetta séu lágvaxtalán finnst mér vera meira en sjálfsagður hlutur.
  Svona þá er ég búin að pústa 😉

 18. Lán hafa ákveðið verð, þar sem peningar missa verðgildi sitt með tíma og sumir geta ekki borgað þau til baka í heild sinni. Að ríkissjóður gefi lán undir markaðsverði þýðir einmitt að námsmenn fái peninga úr vösum skattgreiðenda, umfram þá sem þegar fara í að halda háskólunum gangandi. Ég á ekki við að það sé þægilegt eða óskandi að námsmenn lifi illa eða nálægt nauðþurftamörkum. En menntun er ekki sjálfgefin af náttúrunnar hendi heldur kostar hún peninga og vinnu. Það að við fáum svo gott sem ókeypis menntun eru forréttindi og að kvarta yfir að við getum ekki farið í verkfall til að hækka fjárframlögin til okkar er fáránlegt. Barn sem finnst það ekki fá nóg sælgæti getur ekki farið í verkfall til að fá meira af sömu ástæðu. Þótt því finnist það eiga meira nammi skilið þá þarf það að sannfæra þann sem hefur nammið um það líka. Ég er ekkert voða hrifinn af þeirri hugmynd að hækka skattheimtu og lántökur ríkisins enn frekar þessa dagana. Ríkið á ekki efni á því kerfi sem verið er að reka hér á landi og mér finnst þetta óheppilegur tími fyrir fólk að fara fram á meiri fjárframlög. Sérstaklega þegar það tilheyrir þeim hópi sem stefnir í að verða sá launahæsti í framtíðinni.

 19. Andri Númason Avatar
  Andri Númason

  Ágæti Benjamín

  Námslán eru verðtrygð og tapa þar með ekki gildi sínu, vextirnir eru jú í lágmarki en við þurfum að borga bankanum fyrir yfirdrátt fram að útborgun námslána.

  Að líkja menntun við nammi er já hvað skal segja…..

  Launahæstu? Veistu hvað leikskólakennari er með útborgað?

 20. Andri, ég er ekki að líkja námi við nammi. Það að við séum ekki að sækja í lánin á markaði heldur hjá nokkurs konar góðgerðastofnun er til marks um að við séum ekki að greiða markaðsverð fyrir þau. Ég er að líkja peningunum sem við fáum á þann veg frá ríkinu við nammi. Við fáum ódýrt fjármagn og að fara fram á enn meira er fyrir mér frekja, því einhver þarf að borga fyrir það – skattgreiðendur sem mér sýnast mega vel við að fá lægri skattbyrði þessa dagana.

  Það getur vel verið að ekki allir háskólamenntaðir einstaklingar fái góð laun. Engu að síður er enginn að þvinga þá til þessa náms, og ég held nú að þeir fái almennt betri laun og störf en þeir sem ekki eru háskólamenntaðir. Nema einhverjir starfsútilokandi eiginleikar sem hafa farið framhjá mér felist í háskólamenntun.

 21. Eva Hafsteinsdóttir Avatar
  Eva Hafsteinsdóttir

  Það er ágætt að Benjamin sé sáttur við framfærslu námsmanna. Ég tengi þó ekki við samlíkingu hans á námsmannaframfærslu og nammi, sérstaklega í ljósi þess að nammi er ekki nauðsynlegt barninu til að komast af, en námsmenn þurfa að treysta á námslánin til að lifa.
  Benjamin talar líka um að nú sé ekki rétti tíminn til að “heimta” ásættanlega framfærslu, en þar er ég algjörlega ósammála honum – það er einmitt nú þegar langflest í samfélaginu hefur hækkað (matur, lánin, strætó, bensín, o.fl., o.fl.), í rauninni allt nema framfærsla þeirra sem minnst hafa, sem nauðsynlegt er að varpa ljósi á stöðu okkar.
  Ég vil sjá bætt kjör og réttindi námsmanna hér á landi, og tel það ekki vera frekju að kalla eftir úrbótum á gölluðu kerfi.

 22. Eva, það eru ekki réttindi að fá niðurgreidda menntun nema einhver sé tilbúinn að verja þau réttindi. Þess vegna heldur líkingin, því við þurfum að sannfæra þau sem eiga að niðurgreiða menntun okkar til þess, sannfæra þau að við þurfum í raun meiri peninga en við fáum nú þegar. Þessir peningar koma ekki úr lausu lofti eða af trjánum, heldur úr vösum vinnandi fólks, hvort sem það er á Íslandi eða frá lánveitendum ríkisins, lán sem við þurfum að endurgreiða með vinnu framtíðarinnar. Vissulega endurgreiða námsmenn lánin, en þau ríkissjóður bíður engu að síður tap af þeim.

  Ef við viljum hærri framfærslu þurfum við að sannfæra skattgreiðendur að hærri skattbyrði til að standa undir menntun þeirra sem verða í framtíðinni launahæsti hópur samfélagsins sé réttlætanleg og eðlileg, og fá þá til að taka þátt í að borga fyrir hana. Mér finnst það ekki eðlilegt, þess vegna fer ég ekki fram á það.

 23. Ég vil þakka Evu fyrir frábæran pistil og löngu tímabært inlegg í þjóðfélgsumræðuna.
  Mér virðist sem Eva fari hér með blákaldar staðreyndir um stöðu íslenskra námsmanna sem ráðamenn þjóðarinnar þurfi að athuga og vona ég innilega að einhverjir þeirra hafi komist á snoðir um þennan ágæta pistil.
  Ég veit ekki betur en að það kosti ríkið meira ef námsmenn hrökklist úr námi vegna bágrar fjárhagsstöðu heldur en ef þeir nái að klára námið, sérstaklega ef þeir ná að klára nám sitt og fara svo að starfa á íslenskum vinnumarkaði (borgandi skatta). Það sér það hver heilvita maður að mun verra er fyrir íslenska ríkið að standa straum af þeim námsmönnum sem hrökklast úr námi, finna ekki starf og enda á atvinnuleysisbótum sem gefa þeim þó örlitlu skárri framfærslu heldur en námslánin eru.
  Ég tel þessa umræðu því mjög þarfa og gott að koma með þetta innskot eftir að þessi nýju neysluviðmið voru birt. Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig námsmenn fari að því að ná endum saman og mér virðist það reikningsdæmi bara alls ekki ganga upp.
  Ég vona því innilega að þessi umræða nái að vekja athygli og að kjör námsmanna verði bætt, á hvern þann hátt sem hægt er. Mér finnst til dæmis að mörg þeirra “fríðinda” sem atvinnulausir fá væri hægt að veita námsmönnum líka.

  Benjamín, þetta er nefnilega það sem gerist þegar námsmenn sjá fram á það að hafa það ekki af… þeir hrökklast úr námi.

 24. Jóhanna Tryggvad. Avatar
  Jóhanna Tryggvad.

  Svo sannarlega sammála Evu í upphafs pistlinum – lánin eru svo langt undir þessum neysluviðmiðum að það er ekki einu sinni fyndið – þetta er mjög brýnt málefni og ef ekki á að ræða það núna þá hvenær?

  Einnig sammála því að “fríðindi” ativnnulausra ættu að eiga við nema einnig – og að fá sumarvinnu er að verða forréttindi meðal nema. Það þyrfti því að skoða það mál vandlega.

  Eva mín- í kastljós eða íslandi í dag með þig…. !

 25. Við höfum engan veginn efni á þeim atvinnuleysisbótum, menntafríðindum og því heilbrigðiskerfi sem við rekum hér á landi. Þetta sést gleggst á að halli er á rekstri hins opinbera sem nam 120 milljörðum króna í fyrra. Útgjöld ríkisins námu meira en helmingi af landsframleiðslu, svo ekki er mikið eftir úr að moða fyrir almenning, sem er sjálfur haugskuldugur. Við höfum einfaldlega ekki efni á þessum hlutum sem margir vilja kalla sjálfsagða, og að háskólanemar sem nú þegar fá ókeypis skólagöngu og niðurgreidd skólalán fari við svo búið fram á frekari ölmusu finnst mér skrítið.

  Það er vissulega rétt að fólk sem hrökklast úr námi getur aftur endað sem byrði á ríkissjóð. Það er hins vegar ekki því að kenna að námsmenn fái ekki næg fríðindi, heldur að ríkissjóður virðist sjá sig knúinn til að ausa peningum til fólks hægri vinstri án tillits til þess hvort nokkur innistæða sé fyrir því svo allir standist neysluviðmið sem eru engan veginn í takt við auðlegð okkar. Það hvað við höfum efni á að kaupa kemur í ljós, sama þótt einhverjar matsstofnanir segi að ein eða önnur launatala sé eðlileg eða réttlát.

 26. Eva Hafsteinsdóttir Avatar
  Eva Hafsteinsdóttir

  Það er ekki hægt að setja þjóðina í einhvers konar biðstöðu þar sem beðið er eftir því að hlutirnir batni vonandi, mögulega, bráðlega. Tíminn heldur áfram og á meðan nauðsynjar halda áfram að hækka tel ég mikilvægt að að vekja athygli á stöðu námsmanna og kalla eftir úrbótum. Námsmenn eru margir búnir að herða sultarólina það mikið síðustu misseri að hún er komin í aftasta gat; þeir geta hreinlega ekki meira (eins og reynslusögurnar sem fólk hefur deilt hér sýna).
  Neysluviðmiðsskýrslan er kannski ekki í takt við auðlegð okkar, en hún er nokkurn veginn í takt við verðlagið í landinu (reyndar virðist vanta svolítið uppá að húsnæðisútgjöld séu rétt), og það er verðlagið sem er að sliga námsmenn þessa dagana. Ég tel réttlátt að nemum, eins og öðrum, sé að lágmarki gert kleift að hafa ofan í sig og á, og þá einnig fyrir börnin sín, því það getur varla talist eðlilegt né ásættanlegt að nemar hafi ekki efni á að fæða og klæða sig og börnin sín. Ég er ekki tilbúin að sætta mig við það, og það minnsta sem ég get gert er að segja mína skoðun og vonandi að vekja athygli á þessari stöðu námsmanna sem leiði mögulega til þess að mál þeirra verði endurskoðuð.

 27. Ég skil vel að þú viljir að allir hafi í sig og á, en það gagnast lítið að segja að það séu réttindi eða að það sé réttlátt. Auður vex ekki á réttindatrénu heldur er unninn inn af fólki sem þarf sjálft að hafa í sig og á, og það er ekkert sjálfsagt að afgangur sé af því til að borga fyrir fólk sem ekki vinnur, hvort sem það er vegna náms eða annarra ástæðna. Hvað þá að vilji sé fyrir því hjá hinum vinnandi að borga niður námslán. Það er vissulega allt í lagi að biðja fólk úti í samfélaginu um að láta af hendi rakna peninga til námsmanna ef það vill. En það að fá auknar fjárframlögur frá ríkinu þýðir auknar skuldir þess og aukna skattbyrði almennings. Þessir skattar verða heimtir af skattgreiðendum með vilja þeirra eða gegn honum. Þetta er það sem beðið er um með því að fara fram á peninga frá ríkinu. ÞAÐ finnst mér óréttlátt 🙂

 28. E.s. Það er kannski hægt að setja þjóðina í biðstöðu, kannski ekki. En það er hlægilegt að ætla að halda rándýru velferðarkerfi fram í rauðan dauðann, bara því við teljum það réttindi okkar að hafa það. Ríkið þarf að minnka útgjöld sín um sjötta hluta til að koma út á sléttu og á þá eftir að borga niður skuldir, og ef við ætlum að borga fyrir aukna styrki til námsmanna án þess að ríkið bæti skuldum á skuldir ofan þurfum við að herða sultarólina það mikið fyrst. Það á ekki eftir að gerast án þess að skorið verði niður í menntakerfinu, nema fyrir einhver kraftaverk.

  Það geta vel verið mannréttindi að hafa rennandi vatn, en merkingarleysi orðsins verður ljóst þegar fólk deyr úr þorsta í þurrkatíð.

 29. Emma Björg Eyjólfsdóttir Avatar
  Emma Björg Eyjólfsdóttir

  Sko, burtséð frá því sem manni kann að finnast persónulega um velferðarkerfið eða réttmæti skattheimtu er fullkomlega eðlilegt að spyrja hvers vegna þessi neysluviðmið voru sett fram ef þau eiga ekki að hafa nein áhrif á framfærslu þeirra sem þurfa að nota velferðarkerfið. Að setja fram tölur um hvað einstaklingur/fjölskylda þarf til að framfleyta sér en neita svo stórum hópi fólks um þá framfærslu er ekki alveg eðlilegt.
  Það að stjórnvöld hafi látið útbúa svona skýrslu sýnir fram á vilja til að gera eitthvað í málinu svo það virðist alveg ljóst að áhyggjum af óréttlæti skattkerfisins er ekki deilt á þeim bænum. Þó viljinn sé ljós er ekki alveg eins skýrt hvers vegna slíkt plagg ætti að koma út ef ekki á að nota það.

 30. Eva Hafsteinsdóttir Avatar
  Eva Hafsteinsdóttir

  Það síðasta sem ætti að gerast í kreppuástandi er að skera niður í velferðarkerfi sem einmitt er hannað til þess að allir hafi jafnan aðgang að hlutum eins og heilbrigðisþjónustu og menntun. Um leið og niðurgreiddu verlferðarkerfi er varpað fyrir róða þá fyrst verður samfélagið “óréttlátt”, þar sem aðgangur fólks af mismunandi efnahagsstöðu að hlutum eins og menntun og heilbrigðisþjónustu verður ójafn. Hinir efnameiru verða þá þeir einu sem hafa ráð á því að sækja í menntun (eða borga háskólamenntun fyrir börnin sín) en hinir síast óhjákvæmilega út, þ.e.a.s. að hinir fátæku hafa bara einfaldlega ekki tækifæri til að sækja sér þá menntun sem þeir myndu vilja. Sama á við um heilbrigðisþjónustu. Við það yrði til einhvers konar elítusamfélag þar sem hinir ríku hafa einir tækifæri til að styrkja sína stöðu og staðfesta hana og menntasamfélagið yrði ansi einsleitt fyrir vikið. Þetta er raunverulegur möguleiki sem ber að varast í lengstu lög.

 31. Emma, vegir ríkisins eru órannsakanlegir 🙂 Loforð þingmanna og annarra um bætt ástand eða tilraun til breytingar þess er hvorki nóg til að koma breytingunum í kring, né til að galdra fram auð til að borga fyrir þær.

  Eva, skuldastöðu landsins er sama um réttlæti. Ef við viljum endilega draga orðið inn í umræðuna er alveg hægt að tala um réttlæti þess að allir í landinu þurfa að borga fyrir menntun hinna vel launuðu gráðuhafa. Ef við ætlum að halda okkur frá því svaði, enda réttlæti allsendis huglægt, getum við hreint og beint talað um hvað gerist ef ríkið sker ekki niður. Það þarf ekki langan lestur sögu skuldugra landa til að sjá hvernig velferðarkerfi þeirra, eða velferð almennt, koma út úr því. Maður þarf ekki einu sinni að lesa sögu, fréttir frá Suður-Evrópu eru alveg jafn grípandi.

 32. Eva Hafsteinsdóttir Avatar
  Eva Hafsteinsdóttir

  En þá að líta sér nær og skoða Finnland, þar sem staðið var markvisst vörð um menntakerfið til þess einmitt að koma betur út út kreppunni til langframa, og hafa sterkara þjóðfélag þegar uppi er staðið. Ef spurningin er um verðmæti þá tel ég að meiru sé tapað til langframa með því að kasta menningunni fyrir róða en sem nemur þeim skammtímaávinningi sem mögulega gæti hlotist af niðurskurði á þessum sviðum í kreppu.

 33. Emma Björg Eyjólfsdóttir Avatar
  Emma Björg Eyjólfsdóttir

  Ég er alls ekki að halda því fram heldur benda á að það er ekkert óeðlilegt við þeir hópar í samfélaginu sem nota velferðarkerfið styðjist við neysluviðmiðin í umræðu um kjör sín. Þau hafa verið gefin út, væntanlega í einhverjum tilgangi, og það er skýtur skökku við að stjórnvöld viðurkenni að ákveðna upphæð þarf til framfærslu en úthluti svo annarri og miklu lægri.

 34. Ég veit ekki hvort Finnar hafi bjargast vel því þeir stóðu vörð um menntakerfið, eða hvort þeir hafi bjargast vel yfirleitt. Þeir hafa haft tvö- til þrefalt atvinnuleysi á við Ísland síðustu tvo áratugi og það náði fimmtungi vinnuaflans um tíma. Ég veit ekki hvernig þú mælir styrkleika þjóðfélaga og þótt ég sé sammála að menntastofnanir séu góðar fyrir framtíð samfélaga þá er ég engu minna viss að skuldsetning landa upp yfir 100% af landsframleiðslu er efnahagslegur dauðadómur. Ef ríkið lendi í greiðsluþroti stöndum við öllu verr en svo að þessar kröfur verði svo mikið sem áheyrilegar. Ísland var samkvæmt mati CIA World Factbook í fyrra sjötta skuldsettasta land heims, og höfðum þá færst upp um fjögur sæti frá árinu áður. Hlutfall skulda af landsframleiðslu er þar talið um 123%. Eftir því sem ég kemst næst er það nokkru meira en hlutfall Finna var þegar verst lét, um 70%.

 35. Emma, við getum stuðst við þau viðmið sem við viljum, en þau bíta lítið ef enginn getur borgað fyrir þau. Það sem ég er að reyna að koma í gegn hér er að það er engan veginn til peningur fyrir auknum fjárframlögum til námsmanna hjá ríkinu. Bankar geta vissulega veitt fólki lán, en þau eru auðvitað á hærri vöxtum – enda námslán LÍN niðurgreidd.

  Hlutfallsleg útgjöld íslenska ríkisins til menntamála voru á fyrri helmingi síðasta áratugar þau næsthæstu meðal OECD landa, en þó töldu fjár- og menntamálaráðuneytin að þau útgjöld íslenska ríkisins væru vanmetin. Finnland er þar í þrettánda sæti, svo hvernig sem þeir vörðu menntakerfið þá gera þeir það fyrir minni pening en Íslendingar. Svona samanburðir eru kannski vafasamir, en munurinn á Íslendingum og Finnum er talsverður.

  http://www.statice.is/lisalib/getfile.aspx?ItemID=8846
  http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Frettatilkynningar/nr/2973

 36. Eva Hafsteinsdóttir Avatar
  Eva Hafsteinsdóttir

  Um 20 þúsund manns eru við háskólanám á Íslandi. Framfærsla þessa stóra hóps er LÁN (ekki styrkur eða ölmusa), sem borgað er til baka með vöxtum. Í dag lifir þessi gríðarlega stóri hópur á framfærslu sem er hneykslanlega langt undir lágmarks neysluviðmiðum sem ríkisstjórnin sjálf reiknaði og gaf út. Það hlýtur að vera metnaður hjá ríkinu að halda þessum stóra hópi í námi og innan lánaframfærslukerfis, þar sem upphæðin rennur til baka með vöxtum, frekar en að missa hann á atvinnuleysisbætur eins og viðbúið er hrökklist nemar úr námi vegna ónægrar framfærslu. Fjöldi fólks hefur áhyggjur af skattbyrði landsmanna, en hún verður enn þyngri byrði við fjöldabrottfall nema úr námi. Þetta er einfalt reikningsdæmi: Í dag eru 20.000 manns á lánaframfærslu þar sem kannski örlítið brotabrot af sköttum landsmanna fer í námslánasjóð, en stærsti hluti hans samanstendur af endurgreiðslum lána frá fólki sem hefur lokið námi. Sé þessi framfærsluupphæð hækkuð, þá hækka líka endurgreiðslurnar að námi loknu. Punkturinn er að lánsféð skilar sér til baka. Atvinnuleysisbætur eru greiddar að fullu úr ríkissjóði (svo best sem ég veit), og eru ekki lán sem skila sér til baka. Það er afskaplega leiðinlegt að vera á atvinnuleysisbótum og ég efast um að nokkur vilji það; fólk vill heldur vera með atvinnu eða í námi. Þar sem þeir kostir eru að auki hagkvæmari fyrir þjóðfélagið (og þá á ég ekki aðeins við um léttari skattbyrði en ella), þá tel ég mikilvægt að gera allt sem hægt er til að stuðla að því að sem flestir nýti sér þau færi, en í ljósi þess að litla atvinnu er að fá þá er námsmöguleikinn eitthvað sem ber að styðja við og efla.

  Hvað velferðakerfið snertir þá tel ég víst að fæstir vilji fórna því, og þá allra síst sá mikli fjöldi landsmanna sem býr við tæpan efnahag. Velferðakerfið gerir fólki af ólíkri efnahagsstöðu kleift að sækja í menntun og heilbrigðisþjónustu, en stæði það ekki til boða þá sæjum við fram á samfélag þar sem aðeins hinir efnameiri hefðu ráð á að mennta sig og börnin sín og nýta sér heilbrigðisþjónustu. Yrði þessu máli skotið til atkvæðagreiðslu innan þingsins þá er ég viss um að flestir væru sammála um mikilvægi þess að standa vörð um velferðakerfið, og ef svo vildi til að einhver væri því ósammála, nú þá segir það meira um þá persónu og hennar persónulegu aðstæður (þ.e. “ég er ríkur og mér er sama um hina fátæku”) en það segir um mikilvægi velferðakerfisins og þær fórnir (skattur sem ALLIR launþegar greiða í ríkissjóð) sem færa þarf til að styðja undir það.

 37. Eins og kemur fram í fyrri svörum mínum, þar á meðal einu sem bíður samþykkis vegna tengla sem ég setti í það, er LÍN niðurgreitt af ríkissjóði. Ef við fengjum lán á markaðsverði (sem við getum hjá bönkunum) mætti tala um að við greiddum þau til baka að fullu. Vissulega er ódýrara að veita námslánin ein en atvinnuleysisbæturnar, en við höfum engu frekar efni á þeim. Annars held ég að ef við teljum námskostnaðinn sjálfan saman við niðurgreiðslukostnað lánanna séu námsmenn öllu dýrari en atvinnulausir.

  Auðvitað vill fólk ekki fórna velferðarkerfinu. En ef við höfum ekki efni á því er fárra kosta völ. Við þurfum að skera niður, ekki bæta við. Ef þú sérð færi á að skera niður í ríkisrekstri um 120 milljarða árlega til að komast úr hallarekstri og eitthvað meira til að borga af fyrri lántökum mætti vissulega tala um að spandéra smá á námsmenn, ef við gefum okkur að skattheimta til þess sé réttlætanleg.

  Það er ekki gefið að aðeins efnamiklir gætu menntast án þess að menntun væri keypt fyrir alla af ríkinu. Háskólar í Bandaríkjunum lifa á ávöxtun stofnsjóða sem ríkisbubbar sem úr þeim koma ljá stuðning, og greiða niður menntun afburðanemenda til að laða þá til sín.

  Mér finnst frekar óheppilegt að þú segir alla þá sem ekki telja velferðarkerfið góðan kost vera samúðarlausa peningaplebba. Ég er sjálfur fátækur á þá mælikvarða sem mér sýnast hér settir fram og ekki af ríkra ættum. En ég krefst þess ekki að samborgarar mínir greiði fyrir mig menntun mína nauðugir viljugir fyrir því. Og ég vil fyrir enga muni að ríkið taki fleiri lán til að standa undir frekari stuðning við mína líka. Ríkissjóður greiddi í fyrra 94 milljarða í vexti. Ef sú tala hækkar mikið er hætta á að fleira en LÍN fái að fjúka.

 38. Ágústa Avatar
  Ágústa

  Afhverju er enginn að ræða stærstu breytinguna hjá lín…. það að þeir séu að reyna að fá það í gegn að námsmenn erlendis beri ábyrgð á 30% af skólagjaldaláninu hverja önn!! Að fara í skóla fer að verða eins og að kaupa íbúð, þú þarft að eiga fyrir útborgun.

 39. Ásta Avatar
  Ásta

  Benjamín. Ríkinu ber skylda, bæði þjóðréttarleg og gagnvart þjóðinni sjálfri og sérhverjum einstakling samkvæmt stjórnarskrá bæði að veita aðgang að menntun og til þess að tryggja það að hver einstaklingur hafi tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi og njóta félagslegrar aðstoðar. Lagalega skylda. Réttur manna. Hugsaðu þetta aðeins betur. Þegar þú talar um “ölmusu” þá ert þú að fara 50 ár aftur í tímann. Það er 2011. Þínu sjónarmiði var hafnað á miðri 20. öld.

  Segjum sem svo að við námsmenn hrökklumst öll úr námi sökum þess að við getum ekki lifað á lánunum sem okkur bjóðast. Ekki vilja bankarnir lána okkur aukalega. Okkur er flestum allar bjargir bannaðar. Hver verður þá læknirinn þinn þegar þú ferð að eldast og hrörna? Hver mun hafa menntun til að reka og sinna heimahjálpinni þinni eða að reka öldrunarheimilið sem þú býrð á? Þú hlýtur að sjá að það eru hagsmunir allrar þjóðarinnar að mennta íbúa sína. Ómenntuð þjóð mun fljótt stranda.

  Og sammála Ágústu – ég stefndi á nám erlendis, sem ég neyddist til að hætta við þar sem ég á ekki 2 milljónir í sjóði. Sorrý Ísland – þú missir af starfskröftum hámenntaðrar manneskju sem hefði getað gert margt fyrir þig – hefði hún aðeins komist utan til frekari menntunar.

 40. Ásta Avatar
  Ásta

  ps. Benjamín neitar að taka þátt í að greiða fyrir menntun mína. Get ég þá neitað honum um þjónustu mína í framtíðinni – þó hún sé á vegum hins opinbera og lögákveðin í þokkabót? Sorrý – þú vildir ekki taka þátt í þjóðfélaginu – þá vil ég ekki taka þátt í þér. Finnst þér virkilega að þetta eigi að virka svona?

 41. Ásta, ég er að reyna að benda á að þú kaupir ekki mat með réttindum. Peningarnir eru ekki í ríkiskassanum, sama hvaða loforð umsjármenn hans hafa gefið.

  Ég vil vissulega taka þátt í samfélagi manna, en ég væri meira en til í að segja mig úr ríkinu ef það byðist. Ég vil ekki að þú sért þvinguð til að borga fyrir mína menntun neitt frekar en þú vilt, og þótt ég gæti sjálfviljugur tekið þátt í (og vil taka þátt í) stuðningi við menntakerfi þykir mér óboðlegt að ég sé þvingaður til þess, sérstaklega þá gerð sem boðið er upp á á Íslandi í dag.

  Sjálfviljugt samstarf um menntun og samhjálp er af hinu góða, og ég vil umfram allt taka þátt í slíku. En ekki þann óhroða sem við búum við núna. Síst af öllu þegar er deginum ljósara að ríkið hefur lofað í ermina á sér með velferðarkerfið, og er nærri því farið á hausinn.

  Kannski var því sjónarmiði að eiga fyrir velferðarkerfinu sem maður býður upp á hafnað fyrir fimmtíu árum. En ég stend engu að síður við það.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *