Námsmenn tilheyra sama hópi og atvinnulausir og öryrkjar, þegar litið er til kjarastöðu, þ.e. hópi fólks sem lifir á lágmarksframfærslu og hefur ekki umboð til að semja um eigin afkomu heldur verður að sætta sig við það sem að þeim er rétt. Þessi hópur býr nefnilega ekki yfir því kjaraviðræðna-vopni sem verkfallsboðun er. Í tilfelli námsmanna skiptir það LÍN (Lánasjóð íslenskra námsmanna) nákvæmlega engu máli þó stór hópur þeirra fari í námsverkfall, fyrir þeim þýddi það bara færri einstaklinga sem þyrftu framfærslu. En námsmenn eiga það til að gleymast í umræðunni um kaup og kjör landsmanna.
Af þessum sökum eru nýju neysluviðmiðin sem velferðarráðherra kynnti nýlega til sögunnar, í skýrslunni Íslensk neysluviðmið, löngu tímabær viðbót sem brýnt er að nota sem lóð á vogarskálarnar í baráttu námsmanna fyrir bættum kjörum. Samkvæmt skýrslunni eru neysluviðmiðin ætluð til hliðsjónar þegar teknar eru ákvarðanir um fjárhæðir sem tengjast framfærslu og því hlýtur að vera skilyrðislaus krafa um að forsvarsmenn LÍN taki nýju neysluviðmiðin til greina og endurskoði framfærslulánin til námsmanna.
Rök LÍN fyrir lágri framfærslu hafa verið þau að námsmenn eigi ekki að hafa færi á að lifa lúxuslífi á framfærslulánunum og því sé aðeins lánað til lágmarksframfærslu. Í dag eru framfærslulán LÍN til einstaklings í fullu námi 120.720 krónur á mánuði. Samkvæmt nýju neysluviðmiðunum er grunnviðmið einstaklings til framfærslu á mánuði 86.530 krónur að lágmarki, án húsnæðis- og samgönguútgjalda. Miðað við þá tölu og núverandi framfærslulán þá hefði einstaklingur 34.190 krónur aflögu til að leigja sér íbúð og borga í strætó (því ekki er gert ráð fyrir að námsmenn reki bíl). Hver heilvita maður getur séð hversu óraunhæf þessi upphæð er, en samt sem áður er þetta sá veruleiki sem námsmenn lifa við í dag.
Fórnarkostnaður okkar námsmanna er skýr: Við erum neydd til að lifa langt undir lágmarksframfærsluviðmiðum vegna þess að við viljum búa okkur (og þjóðinni allri) betri framtíð. Segja má að okkur sé í raun refsað fyrir þennan metnað; við þurfum að ganga hálfgerða píslarvættisgöngu áður en við hljótum (mögulega) uppreisn æru einhvern tíma síðar á lífsleiðinni. Og svo virðist sem þetta þyki alveg sjálfsagt. En þetta fyrirkomulag er hreint út sagt fráhrindandi fyrir marga upprennandi háskólanemendur og veldur því jafnframt að margir hrökklast frá námi. Við viljum lifa í samfélagi þar sem rétturinn til náms þykir sjálfsagður, en í því felst ekki síst að tryggja námsmönnum hæfilega framfærslu á meðan á námstíma stendur.
Ef LÍN hefði raunverulegan áhuga á að gæta sanngirni þá þyrfti að gera ráð fyrir a.m.k. tvöföldun þeirrar grunnupphæðar sem neysluviðmiðin gera ráð fyrir til að tryggja námsmönnum leiguhúsnæði, en þá væri upphæðin 173.060 krónur í framfærslu fyrir einstakling á mánuði fyrir lágmarks afkomu. Þetta finnst mér alls ekki há upphæð, og borin saman við dæmigert neysluviðmið einstaklings, sem samkvæmt skýrslunni eru 291.932 krónur á mánuði, þá eru þetta bara smámunir. Fyrir okkur námsmennina munar aftur á móti um hverja krónu – og auk þess getur almennileg framfærsla leitt til þess að námsmenn hafi meiri möguleika á að einbeita sér að fullu að náminu í stað þess að neyðast til að stunda hlutastörf meðfram námi.
Að lokum vil ég benda á eitt atriði sem oft vill gleymast en er mikilvægt þegar rætt er um þá upphæð sem veita beri námsmönnum til framfærslu: Framfærsla okkar er lán og við munum borga það allt aftur, með vöxtum!
Eva Hafsteinsdóttir,
meistaranemi í menningarfræði
Leave a Reply