Á nýafstaðinni ráðstefnu um menningarhagfræði voru tveir helstu fyrirlesararnir, Ágúst Einarsson og David Throsby, sammála um að íslensk tónlist væri eitt af því besta sem við Íslendingar hefðum fram að færa og því ættum við að leggja rækt við það svið menningarinnar. Tónlistaratriðin sem boðið var upp á milli erinda samræmdust ekki þessum boðskap. Flutningurinn var tónlistarmönnunum til sóma en lagavalið vanhugsað. Fyrst voru flutt tvö íslensk lög, Draumalandið eftir Sigfús Einarsson sem út kom 1903, og Dagný eftir Sigfús Halldórsson frá árinu 1939. Þetta eru að vísu áheyrileg lög sem allir Íslendingar þekkja og þau voru vitaskuld aðgengileg fyrir þá erlendu gesti sem sátu ráðstefnuna. En það er ekki hægt að segja að þau endurspegli þá grósku sem sögð er einkenna íslenskt tónlistarlíf. Þetta var því „öruggur“ valkostur fyrir skipuleggjendurna. Alltof algengt er að tónlist sé einungis ætlað að skemmta og veita hvíld frá mikilvægum málefnum. Er ekki kominn tími til að fólk takist á við tónlistina og leyfi henni að verða raunverulegt afl í samfélaginu?
Ekki varð lagavalið rismeira í seinni hluta dagskrárinnar. Þá fengu gestir að heyra Somewhere over the rainbow og aríu úr La Bohème eftir Puccini. Í kjölfarið velti ég því fyrir mér hvort sú gamalgróna hugsun væri enn viðloðandi að við Íslendingar ættum ekki almennilega tónlist og að íslensk tónlist væri ennþá álitin heimóttarleg. Fyrir hundrað árum áttum við varla menntuð tónskáld og var Sigfús Einarsson fyrsti Íslendingurinn sem varð atvinnutónlistarmaður. Síðan þá hefur tónlistarlíf í landinu tekið stakkaskiptum. En hvers vegna þurfum við þá að leita í smiðju „evrópsku meistaranna“ eins og Puccini þegar við viljum heyra fallega og áhugaverða tónlist?
Getur verið að lagavalið hjá skipuleggjendum ráðstefnunnar beri vott um minnimáttarkennd? Kannski er okkur í mun að sanna það fyrir okkur sjálfum ekki síður en öðrum að við séum heimsborgarar til jafns við aðra Evrópubúa. Það er viss upphafning í því að hægt sé að sýna erlendum gestum að við Íslendingar eigum tónlistarfólk sem þekkir og getur flutt óperuaríur Puccini með glæsibrag. En var þetta sá boðskapur sem þurfti að koma á framfæri við þetta tilefni? Voru ekki aðrir þættir sem var mikilvægara að draga fram? Hefði ekki verið nær að flytja nýleg íslensk verk sem væru órækur vitnisburður um íslenskt tónlistarlíf á okkar dögum.
Ráðstefnan var haldin af Háskólanum á Bifröst, í Salnum í Kópavogi, undir yfirskriftinni „Culture and Business“. Með henni átti að heiðra Ágúst Einarsson sem lét af störfum sem rektor skólans s.l. sumar. Kannski var tónlistin valin með það í huga að höfða sérstaklega til heiðursgestsins. Hafa ber í huga að þetta var opinber ráðstefna sem fjallaði um menningarstefnu en ekki eitthvert einkasamkvæmi úti í bæ. Því hefðu skipuleggjendur átt að velta því fyrir sér hvaða tónlist hæfði best tilefninu.
Getur verið að í lok ráðstefnunnar hafi gestir setið uppi með þá tilfinningu að íslenskir tónlistarmenn hafi engu áorkað síðustu hundrað árin, sem sé þess virði að hlýða á, fyrst þörf var á að leita í draumaheim Hollywood og Parísar á nítjándu öld? Í kjölfarið velti ég því fyrir mér hvort þeir, sem móta menningarstefnu hér á landi, hafi nægilega þekkingu og yfirleitt áhuga á menningu líðandi stundar. Eftir sat ég með kjánahroll yfir gamaldags og íhaldssömum viðhorfum til tónlistar.
Þorbjörg Daphne Hall,
Fagstjóri tónlistarfræða við Listháskóla Íslands
Leave a Reply