Ritstuldur ráðherra

Um höfundinn
Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson er prófessor í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hans eru almenn þýðingafræði, enskar og þýskar bókmenntir, upplýsingin í Evrópu, þýðingasaga, málstefna á Íslandi og annars staðar og íslenskar samtímabókmenntir. Sjá nánar

Karls-Theodors zu Guttenberg
Karls-Theodors zu Guttenberg

[container]Eitt meginefni frétta í Þýskalandi undanfarna daga hefur verið ritstuldarmál varnarmálaráðherrans og aðalsmannsins Karls-Theodors zu Guttenberg. Þetta er afar neyðarlegt mál, ekki aðeins vegna þess hve háttsettur hann er í Þýskalandi heldur einnig vegna þess að hann er vonarstjarna hægri flokkanna CSU og CDU og hefur hann einmitt reynt að byggja upp ímynd hins unga, ferska og óspillta stjórnmálamanns sem tekur af skarið þegar þurfa þykir. Hann er vinsælasti stjórnmálamaður landsins, vinsælli en bæði Angela Merkel kanslari og Sigmar Gabriel leiðtogi jafnaðarmanna.

Fyrstu ásakanir um ritstuld ráðherrans í doktorsritgerð hans við háskólann í Bayreuth fram um miðjan febrúar í þýskum blöðum og vísaði ráðherrann þeim á bug sem „óskiljanlegum“ í fyrstu. Sannanir tóku hins vegar að hrannast upp, eins og alltaf gerist í slíkum málum, og þá reyndi hann leið hálfsannleikans (sem í munni íslensks skálds kallast „óhrekjandi lygi“) og viðurkenndi „mistök“ en að hann hefði alls ekki „blekkt af ásettu ráði“. Um leið kvaðst hann ætla að hætta að bera titilinn tímabundið og lagði áherslu á tímabundið.

Þar sem fjölmiðlaflóran er stór í Þýskalandi og netverjar margir í svo fjölmennu ríki kom í fljótt í ljós að hin „ómeðvituðu mistök“ voru af þeirri stærðargráðu að erfitt var að leggja trúnað á skýringar ráðherrans. Margir töldu að hann hefði jafnvel keypt sér þjónustu við skrifin og hreinlega ekki vitað hversu miklu var stolið frá fjölmörgum öðrum höfundum í texta hans. Það eru hins vegar engar málsbætur nema síður sé og slæmt fyrir ráðherra ríkis og ekki síður virðulegan háskólann í Bayreuth að hann hafi verið blekktur svo hrikalega að hann veitti ráðherranum doktorstitil með hæstu einkunn, summa cum laude.

Háskólanum í Bayreuth varð líka bilt við og um leið og ásakanirnar komu fram hóf hann rannsókn á þeim. Hann er að vísu ekki einn af 100 bestu í heiminum, kemst ekki einu sinni á suma lista yfir 500 bestu, en vandur að virðingu sinni samt. Viðurlög við brotinu hjá honum eru svipting doktorsnafnbótarinnar.

Þegar sannanirnar voru orðnar svo miklar og ótvíræðar að enginn vegur var að afneita þeim greip ráðherrann til þess að viðurkenna mistök sín og biðjast opinberlega afsökunar  en tók þó fram að þetta hefði verið ómeðvitað. Um leið gaf hann frá sér doktorstitilinn. Háskólinn í Bayreuth benti kurteislega á að það væri aðeins á hans valdi að svipta menn doktorsgráðum sem hann hefði veitt.

Angela Merkel og Karl-Theodor zu Guttenberg
Angela Merkel kanslari og Karl-Theodor zu Guttenberg

Málið tók nú á sig hinar sérkennilegustu myndir. Bild Zeitung ákvað að „halda með“ ráðherranum og nú tóku að spretta upp Facebook síður honum til stuðnings (tengill á Facebook síðu)vegna þessara „nornaveiða“ vinstri manna og gilti einu þótt þjófnaður ráðherrans var nú bæði augljós og viðurkenndur. Málið var til umræðu í öllum spjallþáttum landsins og komu til bæði sækjendur og verjendur; ráðherrann þurfti einnig að standa fyrir máli sínu í sambandsþinginu og var það áreiðanlega ekki besta stundin í hans stutta pólitíska lífi. Hann áréttaði hins vegar að hann myndi ekki segja af sér og flokkur hans fylkti sér á bak við hann, þótt einn og einn hafi hnyklað brýrnar, enda voru nú komnar fram ásakanir um að hann hefði nýtt sér þjónustu rannsóknadeildar þingsins til að fylla upp í eyðurnar á verki sínu, án þess að geta heimilda, vitaskuld.

Nú neru sumir prinsippmenn augun í vantrú, því hingað til hefur einkaeignarétturinn verið borgaraflokkum heilagur og gekk einn blaðamaður hjá Spiegel, Franz Walter, svo langt að telja að borgarastéttin væri að vega að eigin arfleifð með því að samþykkja verknað ráðherrans. Leið borgarastéttarinnar til velmegunar og virðingar byggðist á dugnaði og elju, ekki svikum og stuldi.

En þótt málið væri farið að snúast um allt annað en ritstuld ráðherrans í opinberri umræðu brást einn aðili þó mynduglega við. Háskólinn í Bayreuth svipti Guttenberg formlega doktorsnafnbót sinni 23. febrúar. Einhver varð að halda ærunni.

Viðbót, 1. mars 2011.

Og nú hefur ráðherrann blessaður sagt af sér. Þýskir fræði- og háskólamenn risu upp á afturlappirnar og létu þetta ekki á sér hvíla uns þrýstingurinn á ráðherra varð óbærilegur. Þetta sýnir áhrif opinberrar orðræðu á valdamenn þar sem fjölmiðlar virka og eru ekki meðvirkir með valdinu eins og stundum verður hér.

 [/container]


Comments

One response to “Ritstuldur ráðherra”

  1. Gauti Kristmannsson Avatar
    Gauti Kristmannsson

    Og nú hefur ráðherrann blessaður sagt af sér. Þýskir fræði- og háskólamenn risu upp á afturlappirnar og létu þetta ekki á sér hvíla uns þrýstingurinn á ráðherra varð óbærilegur. Þetta sýnir áhrif opinberrar orðræðu á valdamenn þar sem fjölmiðlar virka og eru ekki meðvirkir með valdinu eins og stundum verður hér.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *