Hér langar mig þó að draga fram eitt tiltekið atriði sem ég tel að valdi miklu um bagalega stöðu nemenda okkar: það er að í íslenskum framhaldsskólum er skortur á raunverulegum námshvata, því að útskriftareinkunn hefur engin áhrif á möguleika til frekari menntunar, a.m.k. ekki hér á landi. Á Íslandi getur hver sem nær einkunninni 5.0 í framhaldsskóla hafið háskólanám í hvaða háskóla sem er á landinu. Stúdentspróf er hreinn aðgöngumiði að háskólanámi og engu skiptir hversu vel eða illa nemandinn stendur sig í framhaldsskóla, svo framarlega sem hann nær því prófi – þá hefur hann sama aðgang að háskólanámi og dúxinn. Afleiðingin er sú að stór hluti nemenda sér litla ástæðu til að leggja hart að sér í framhaldsskólanámi. Sá sem tekur nám sitt í framhaldsskóla alvarlega og leggur sig þar fram verður augljóslega mun betur undirbúinn fyrir háskólanám. En slík hugsun er því miður of óræð til að ýta við nemendum. Afleiðingin er sú að of margir öðlast rétt til að stunda háskólanám og af þeim eru jafnframt of fáir sem ekki eru með tilskilinn undirbúning að baki. Til að bæta megi úr þessu og framhaldsskólaárin verði nemendum að raunverulegu gagni þarf frumkvæðið væntanlega að koma frá íslenskum háskólum – sem þar með þurfa að gera meiri kröfur, t.d. í formi aðgangstakmarkana á grundvelli meðaleinkunnar á stúdentsprófi.
Það er þó borin von að ríkisháskólarnir geti bætt úr þessu við ríkjandi kerfi þreyttra eininga sem ræður fjárveitingu ríkisins til háskólanna, enda er raunveruleg virkni þess þau að háskólarnir eru fremur hvattir til að huga að fjölda nemenda en gæðum – ekki síst í því umhverfi fjársveltis sem ríkt hefur um allt of langt skeið. Kerfi þetta er meingallað og grefur undan einu mikilvægasta markmiði háskólanna: að skila vel menntuðu fólki út til samfélagsins (ekki einungis atvinnulífsins). Á þetta hafa margir bent í gengum tíðina. Þorvaldur Gylfason skrifar t.d. í grein sinni „Reiknilíkanið og framtíð Háskólans“ sem birtist í Fréttabréfi Háskóla Íslands í október 2001 (pdf) að deildir „hafi hag af því við núverandi skipan að laða til sín lélega nemendur til að fjölga þreyttum einingum sem allra mest, því að eftir þeim fara fjárveitingarnar … Þessa sér nú þegar stað sums staðar í Háskólanum, svo sem við mátti búast, enda virðist það nú algengara en áður, að nemendur vinni með námi. Það er að líkindum vottur um minni námskröfur en áður. Þannig leggur deililíkanið þá freistingu fyrir háskólamenn, að þeir dragi úr þeim kröfum, sem Háskólinn gerir til nemenda.“ Tíu árum síðar er þessi staða óbreytt og heldur verri ef eitthvað er. Fjölmörg dæmi eru til um nemendur sem vinna fulla vinnu með fullu námi án þess að það virðist hafa teljandi áhrif á námsárangur í einkunnum talið. Það verður seint rakið til þess að nemendur þessir séu svo framúrskarandi, enda væri þetta hreint ekki mögulegt ef námskröfur væru eðlilegar. Fullt nám ætti að samsvara fullri vinnu og gott betur. Ástandið er orðið verulega alvarlegt þegar viðhorf nemenda til náms er tekið að einkennast af þeirri hugsun að þau stundi fullt nám sem einhvers konar „hobbý“ með vinnu.
Engum blöðum er um það að fletta að verulegur fjárhagsvandi steðjar að ríkisháskólunum á Íslandi. En það á ekki að gefa okkur átyllu til að slaka á kröfum. Hugsum nú heildrænt og vinnum að því með stjórnvöldum að breyta afkáralegu deililíkaninu, auka kröfurnar sem við gerum til nemenda og hvetja framhaldsskólanema til að nýta tíma sinn betur. Það skilar sér að endingu til allra: framhaldsskólanna, háskólanna og samfélagsins sem heildar.
[/container]
Leave a Reply