Ritið 3/2010

Tvöföld útgáfa af Ritinu

[container] Tvö tölublöð af Ritinu, tímariti Hugvísindastofnunar, komu úr prentun rétt fyrir jól. Þema fyrra tölublaðsins, nr. 2/2010, er heimsbíó eða þjóðarkvikmyndir. Heftið hefur að geyma átta frumsamdar greinar og einn þýddan texta. Björn Ægir Norðfjörð, Guðni Elísson, Hólmfríður Garðarsdóttir og Gunnþórunn Guðmundsdóttir eiga meðal annarra greinar í heftinu.

Þema síðara heftisins, nr. 3/2010, er heimspeki og bókmenntir og hefur að geyma níu frumsamdar greinar og tvo þýdda texta. Meðal greinarhöfunda eru Gottskálk Jensson, Gunnar Harðarson, Irma Erlingsdóttir, Pétur Knútsson, Jón Karl Helgason, Geir Sigurðsson og doktorsneminn Róbert Jack.

Hefti 2/2010: Heimsbíó eða þjóðarkvikmyndir
Heftið hefur að geyma átta frumsamdar greinar og einn þýddan texta. Björn Ægir Norðfjörð tekur sjálft hugtakið heimsbíó fyrir í sinni grein og ræðir í samhengi við skyld hugtök á borð við þjóðarbíó og heimsbókmenntir. Tvær greinanna fjalla um hrollvekjur, Úlfhildur Dagsdóttir ræðir hrollvekjur framleiddar utan Bandaríkjanna og Guðni Elísson tekur fyrir hina rammíslensku hryllingsmynd Reykjavik Whale Watching Massacre (2009) og ræðir þar sérstaklega almennt neikvæðar viðtökur myndarinnar í fjölmiðlum hérlendis. Höfundarverk spænska leikstjórans Pedró Almodóvar er viðfangsefni Hjördísar Stefánsdóttur, en Hólmfríður Garðarsdóttir tekur fyrir tvær kvikmyndir mexíkósku leikstjóranna Alejandros González Iñárritu og Alfonsos Cuarón, Amores perros (2000) og Y tu mamá también (2001). Allt annar heimur blasir við í grein Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur sem fjallar um breskar arfleifðarmyndir gerðar eftir sígildum enskum skáldverkum. Gunnþórunn Guðmundsdóttir fer svo með lesendur í annars konar ferðalag í grein sinni um hina vinsælu teiknimyndasögu Marjane Satrapi Persepolis, sem fjallar um uppvaxtarár höfundar í Íran og Austurríki, og franska kvikmynd (2007) gerða eftir sögunni. Að lokum fjalla Björn Þór Vilhjálmsson og Heiða Jóhannsdóttir um kvikmyndaverk byggð á hryðjuverkaárásunum þann 11. september árið 2001 á tvíburaturnana í New York.

Einnig geymir heftið þýðingu á grein Dudleys Andrew um „Kvikmyndaatlasinn“ þar sem reynt er að kortleggja heimsbíóið eftir ýmsum leiðum.

Gestaritstjórar þessa heftis eru Björn Ægir Norðfjörð og Úlfhildur Dagsdóttir.

Hefti 3/2010: Heimspeki og bókmenntir
Heftið hefur að geyma níu frumsamdar greinar og tvo þýdda texta. Gottskálk Jensson veltir fyrir sér þeim breytingum sem hafi orðið á landamerkjum heimspeki og bókmennta frá því að þessi tvö nýyrði komu fram í íslensku máli fyrir hartnær þrjú hundruð árum. Jón Karl Helgason leiðir lesandann um ranghala merkingarfræðinnar með Thor Vilhjálmsson sér til fulltingis, og veltir því fyrir sér hvar sannleikann, eða jafnvel sjálfan veruleikann, sé að finna. Pétur Knútsson leggur út af orðum Ara fróða um „að hafa það sem sannara reynist“ og spyr hvernig skilja beri þessi fyrirmæli nú á dögum. Irma Erlingsdóttir bregður upp mynd af togstreitunni milli bókmennta og heimspeki með tilvísun til frönsku höfundanna Jacques Derrida og Hélène Cixous. Gunnar Harðarson beinir sjónum að Málsvörn Sókratesar og ber hana saman við gamanleikinn Skýin eftir Aristófanes með einkar áhugaverðum afleiðingum. Róbert Jack er einnig á slóðum forngrískra hugsuða. Í grein sinni spyr hann ögrandi spurninga um hugsanlegar hliðstæður milli framvindu mála á Íslandi síðustu áratugi og þróunarinnar frá fámennisstjórn til lýðræðis, og síðan til harðstjórnar, sem Platon lýsir í verki sínu Ríkinu. Steinar Örn Atlason skrifar um hið merka miðaldarit Um hugfró heimspekinnar eftir Bóetíus og túlkar það í ljósi andlegra æfinga af þeim toga sem frönsku heimspekingarnir Pierre Hadot og Michel Foucault mótuðu hugmyndir um. Svipaður tónn er sleginn í grein Geirs Sigurðssonar sem fjallar um hugmyndir daóista um sambúð manns og náttúru er markast af skilningi á því hvernig maður og náttúra mynda heild, en eru ekki tvennt ólíkt.

Ein grein utan þema birtist í Ritinu að þessu sinni: Svanur Kristjánsson beinir þar sjónum að ríkisstjóratíð Sveins Björnssonar 1941–44 þegar hann stjórnaði í anda „konunglegs lýðveldis“. Svanur færir rök fyrir því að þessi stjórnskipun og verklag ríkisstjórans hafi mótað stjórnarskrá hins íslenska lýðveldis og sett mark sitt á stjórnarfar þess.

Tvær þýðingar birtast í heftinu, heimspekilega smásagan „Míkrómegas“ eftir Voltaire í þýðingu Gróu Sigurðardóttur og „Hversvegna að skrifa?“ eftir Jean-Paul Sartre í þýðingu Gunnars Harðarsonar.

Ritið er tímarit Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands og unnt er að kaupa einstök eintök í bókaverslunum eða gerast áskrifandi með því að senda Margréti Guðmundsdóttur tölvupóst, mgu@hi.is.

[/container]