[container] Á vormisseri mun rússneskan við HÍ, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og sendiráð Rússneska sambandsríkisins standa fyrir röð erinda þar sem fjallað verður um ýmsa þætti rússneskrar menningar, s.s. myndlist, bókmenntir og alþýðumenningu. Áhersla verður lögð á myndræna framsetningu.
Dagskráin fer fram í móttökusal rússneska sendiráðsins að Garðastræti 33 í Reykjavík. Erindin hefjast klukkan 17:00 og eru 40-50 mínútur hvert. Öll erindin verða flutt á íslensku.
Að loknu hverju erindi verður boðið upp á kaffi, te og kökur fyrir þá sem vilja.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
Fimmtudagur 20. janúar
Anna Guðlaugsdóttir, rússneskufræðingur
„Mamma litla“
Fjallað verður um uppruna og merkingu rússnesku trédúkkanna.
Fimmtudagur 27. janúar
Pétur Pétursson, guðfræðingur
„Andrej Rúbljov“
Pétur mun fjalla um íkonamálarann fræga Andrej Rubljov. Sýnd verða myndskeið úr samnefndri mynd eftir Tarkovskí og rakið hvernig myndin endurspeglar sögu og kristnisögu Rússlands.
Fimmtudagur 24. febrúar
Árni Bergmann, rithöfundur og þýðandi
„Hvar er konan?“
Rússar og Íslendingar eiga það sameiginlegt að telja skáldskap mikinn áhrifaþátt í sinni sögu.
Eðlilegt er að í báðum löndum sé leitað að „samhenginu“ í rússneskum (eða íslenskum) bókmenntum. Árni veltir því upp hver útkoman gæti verið ef menn gefa sér til dæmis að þetta samhengi í rússneskum bókmenntum sé „leitin að og óttinn við hina sterku konu“ og nefna ýmis dæmi þar um.
Fimmtudagur 17. mars
Áslaug Thorlacius, myndlistarmaður
„Rússneska portrettið á 18. öld“
Áslaug fjallar um rússneska myndlist á 18. öld og mun einkum beina sjónum að portrett málverkum þessarar miklu tilrauna- og upplýsingaaldar í Rússlandi.
Fimmtudagur 14. apríl
Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt í rússnesku
„Farandlistamennirnir“
Rebekka mun fjalla um orsakir þess að hópur nemanda sagði sig frá Listaakademíu Pétursborgar á seinni hluta 19. aldar og til varð Félag farandlistamanna. Rætt verður um hvernig þessi hópur lagði sitt af mörkum til samfélagsumræðu þessa tíma með list sinni. Fjallað verður um einstök verk listamanna eins og Ilja Repins, Vasílís Súrikovs og Vikotrs Vasnetsovs.
Fimmtudagur 12. maí
Elísa Björg Þorsteinsdóttir, listfræðingur og þýðandi
„Menn með mönnum. Rússneskar myndlistarkonur í rás sögunnar“
Fjallað verður um öflugan þátt kvenna í myndlist Rússlands fyrr og síðar, jafnt í svonefndum „hefðbundnum kvennagreinum“ sem og framúrstefnu fyrstu áratuga 20. aldar.
Mynd: Paul Martin Eldridge / FreeDigitalPhotos.net
[/container]