Erich Fried

Erich Fried, skáld og þýðandi 1921-1988

[container]

Um höfundinn
Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson er prófessor í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hans eru almenn þýðingafræði, enskar og þýskar bókmenntir, upplýsingin í Evrópu, þýðingasaga, málstefna á Íslandi og annars staðar og íslenskar samtímabókmenntir. Sjá nánar

 Erich Fried er meðal kunnustu ljóðskálda á þýska tungu á tuttugustu öld. Foreldrar hans voru austurrískir gyðingar og þegar faðir hans var myrtur flýði hann ásamt móður sinni til Lundúna þar sem þau dvöldu stríðsárin og hann raunar mestalla ævina, enda varð hann breskur ríkisborgari. Hann var farinn að leika og skrifa þegar á unga aldri og eftir flutninginn til Bretlands bætti hann þýðingum við og varð hann einn af mikilvirkari nútímaþýðendum Shakespeares á þýska tungu.

Hann varð snemma róttækur þjóðfélagsgagnrýnandi, enda kannski engin furða, og hneigðist til vinstri þótt hann þyldi heldur ekki stalínisma. Segja má að uppreisnartónninn og afdráttarleysið í kveðskap hans hafi gert hann vinsælan meðal 68 kynslóðarinnar svokölluðu, en hann tjáði sig oft um mannréttindamál og annað þeim skylt eins og þýskumælandi skáld gerðu lengi vel; töldu raunar skyldu sína.

Þessi afdráttarlausi kveðskapur höfðar oft til ungs fólks og hann beitir endurtekningu og viðteknum hugmyndum oft snilldarlega til að grafa undan því sem vanhugsandi telja „sjálfsagða hluti“.

Kvæðin tvö sem hér eru þýdd bera þessi einkenni. Hið fyrra er frægt ástarkvæði sem er eins laust við væmni og eitt ástarkvæði getur verið og hið síðara skýrir sig algjörlega sjálft. Gauti Kristmannsson þýddi.

Það sem það er

Það er rugl
segir skynsemin
Það er það sem það er
segir ástin

Það er óhamingja
segir slægðin
Það er bara sársauki
segir óttinn
Það er vonlaust
segir forsjálnin
Það er það sem það er
segir ástin

Það er hlægilegt
segir stoltið
Það er léttúðarfullt
segir varkárnin
Það er ómögulegt
segir reynslan
Það er það sem það er
segir ástin


 

GedichteRáðstafanir

Lötum verður slátrað
allir verða iðnir

Ljótum verður slátrað
allir verða fagrir

Heimskum verður slátrað
allir verða vitrir

Mæddum verður slátrað
allir verða kátir

Öldnum verður slátrað
allir verða ungir

Óvinum verður slátrað
allir verða vinir

Vondum verður slátrað
allir verða góðir

Höfundur: Erich Fried

Úr Gedichte, 1958.

 [/container]