Stjórnlagaþing

Ég mótmæli! Ég var rændur atkvæði mínu

Í af eldri vef, Pistlar, Umfjöllun höf. Gauti Kristmannsson

Um höfundinn
Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson er prófessor í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hans eru almenn þýðingafræði, enskar og þýskar bókmenntir, upplýsingin í Evrópu, þýðingasaga, málstefna á Íslandi og annars staðar og íslenskar samtímabókmenntir. Sjá nánar

 Ég kaus til stjórnlagaþings. Mér fannst og finnst það mikilvægt. Mér fannst kjörið ekki flókið, en mér fannst lélegt að heyra úrtölumenn segja það óþarft eftir mestu straumhvörf sem orðið hafa á síðari tímum hér á landi. Það kom í ljós við hrunið að margt hafði verið í ólagi hér á landi, ekki síst í stjórn landsins þar sem flokkar og einstaklingar í þeirra umboði höfðu tekið sér nánast einræðisvald í sumum málum þjóðarinnar, att henni út í stuðning við stríðsrekstur að henni forspurðri svo eitt alvarlegasta dæmið sé nefnt.

Það var því rökrétt að efna til stjórnlagaþings þar sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar gætu ráðið ráðum sínum um grundvöll ríkisins til næstu áratuga. Alþingi hafði brugðist því hlutverki í poti sérhagsmuna og flokkadrátta og engan höfum við stjórnlagadómstólinn sem hefði kannski verið önnur leið til að setja undir þann leka að stjórnarskráin var orðin marklítið plagg. Besta dæmið um það voru hinar sófísku umræður um hvort forseti lýðveldisins hefði málskotsrétt þegar hann vísaði hinum svokölluðu fjölmiðlalögum til þjóðarinnar á sínum tíma. Þeir, sem þá fullyrtu að hann hefði ekki þann rétt vegna þess að tvær greinar stjórnarskrárinnar stönguðust á og komu síðan í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, skiptu síðan um skoðun þegar forsetinn hafnaði Icesave. Stjórnarskrá fyrir hentistefnumenn er ekki gott plagg og það er líka kominn tími til að þjóðin endurnýi stjórnarfarslegan grundvöll sinn á nýrri öld og nýjum tímum.

Leiðin sem valin var til að kjósa fulltrúa á stjórnlagaþing var í sjálfri sér alveg ágæt, enda ekki um að ræða mál fyrir sérhagsmunahópa þá sem stjórnmálaflokkarnir hefðbundnu fylkja sér um. Verkefnið var og verður vonandi að sammælast um grundvallarlög lýðveldisins og það verður að segjast að samræður kjörinna stjórnlagaþingmanna fyrir setningu þingsins lofuðu bara nokkuð góðu, það var eins og þeir sem tjáðu sig skynjuðu mikilvægi hlutverks síns og, gagnstætt því sem gerist stundum á hinu háa Alþingi, hygðust sinna því í þágu þjóðarinnar allrar og engra annarra.

En núna hefur Hæstiréttur hins vegar úrskurðað kosninguna ógilda á grundvelli kæru þriggja aðila, tveggja frambjóðenda og eins almenns kjósanda. Og vissulega eru ágallarnir á framkvæmd kosninganna til stjórnlagaþings ámælisverðir. En réttlæta þeir að svipta kjósendur atkvæðisrétti sínum þegar enginn hefur sýnt fram á að rangt hafi verið við haft? Hvers konar meðalhóf er það eiginlega? Hafa hagsmunir heildarinnar ekki verið fyrir borð bornir í þessu máli?

Rökin um að kosningin hafi ekki verið nægilega leynileg standast heldur ekki skoðun; hver hefði átt að geta lesið úr númeraröðum kjósenda úr fjarlægð hvern þeir væru að kjósa? Og hvernig hefðu þeir átt að hafa áhrif á úrslit kosninganna yfirleitt? Þær tugþúsundir manna sem fóru að kjósa hljóta að eiga sinn rétt, ekkert síður en einn úr þeirra röðum og tveir frambjóðendur sem ekki hlutu kosningu. Með því að elta bókstafinn út fyrir staðreyndir málsins hefur úrskurður Hæstaréttar ekki aðeins bent á ágalla við framkvæmd kosninga þar sem enginn hefur talið að rangt væri við haft, heldur einnig svipt tugþúsundir kjósenda atkvæðisrétti sínum. Það er óþolandi í lýðræðisríki að heiðarlegar kosningar borgaranna séu ógiltar vegna formgalla.

 

[fblike]