Engar stjörnur mæla með á RIFF 2019

Engar stjörnur, gagnrýnendasveit kvikmyndafræði Háskóla Íslands, hefur tekið saman lista yfir þær fimm kvikmyndir á RIFF sem hópurinn er spenntastur fyrir, og grunar að áhugasamir kvikmyndaunnendur ættu að leggja sérstaka áherslu á að sjá (en kvikmyndahátíðin stendur yfir frá 26. september til 6. október). Listinn er þannig samsettur að þær myndir sem flest atkvæði hlutu frá meðlimum sveitarinnar raðast efst en allar hljóta þær vonarstimpil Engra stjarna.

5. The Dead Don’t Die – Jim Jarmusch (Bandaríkin, 2019)

Hinn friðsæli bær Centerville þarf að takast á við mikla uppvakningaóværu þegar hinir dauðu taka að rísa úr gröfinni. Nýjasta mynd indý-stórleikstjórans Jim Jarmusch skartar stjörnuleikurum á borð við Bill Murray, Adam Driver, Tom Waits, Cloë Sevigny, Tildu Swinton og Iggy Pop. Og glás af uppvakningum. Þarf að segja meira?

27.09 Bíó Paradís 1 kl. 21.00
30.09 Bíó Paradís 1 kl. 21.00
05.10 Bíó Paradís 1 kl. 19.45

4. Varda par Agnès – Agnès Varda (Frakkland, 2019)

Agnès Varda heitin var atvinnuljósmyndari, innsetningarlistamaður og frumkvöðull frönsku nýbylgjunnar. Innan franskrar kvikmyndagerðar er hún stofnun út af fyrir sig en um leið eldheitur andstæðingur allrar stofnanahugsunar. Í myndinni veitir hún innsýn í feril sinn og sýnir brot úr verkum sínum til að varpa ljósi á listræna sýn sína og hugmyndir. Hvort sem Agnès var fyrir framan eða aftan myndavélina var hún sjónrænn sögumaður sem forðaðist að festast í hinu hefðbundna. Þessi heimildarmynd reyndist hennar síðasta en Agnès lést fyrr á þessu ári.

27.09 Bíó Paradís 2 kl. 19.00
29.09 Bíó Paradís 2 kl. 17.00
06.10 Bíó Paradís 2 kl. 13.15

3. High Life – Claire Denis (Frakkland, 2018)

Lengst úti í geimi, langt handan sólkerfis okkar, búa Monte og barnung dóttir hans, Willow, í algjörri einangrun um borð í geimfari. Saman nálgast feðginin áfangastað sinn – svartholið þar sem hvorki er tími né rúm.

01.10 Bíó Paradís 1 kl. 19.00
04.10 Bíó Paradís 1 kl. 18.45

2. The Lighthouse – Robert Eggers (Bandaríkin, 2019)

Ný sálræn hrollvekja frá Robert Eggers, sem sló eftirminnilega í gegn með hinni frábæru mynd The Witch. Vitinn er tekin á 35mm svarthvíta filmu og fylgir tveimur vitavörðum (Willem Dafoe og Robert Pattinson) hægt og bítandi á vit sturlunar á afskekktri eyju á Nýja Englandi í byrjun 19. aldar. Enginn sannur hrollvekjuunnandi má láta þessa framhjá sér fara!

28.09 Bíó Paradís 1 kl. 21.00
04.10 Bíó Paradís 2 kl. 21:00

1. Parasite – Bong Joon-ho (S-Kórea, 2019)

Kim fjölskyldan er í stöðugum fjárhagskröggum og býr í lítilli niðurníddri íbúð. Sonurinn Ki-Woo fær tækifæri til að starfa á lúxusvillu sem kennari dóttur hinnar ríku Park fjölskyldu og hann byrjar að leggja drög að stórri áætlun… Eftir tveggja ára hlé hefur kóreski leikstjórinn Bong Joon-ho komið með mynd sem er kölluð ,,kómedía án trúða, harmsaga án glæpamanns.” Myndin hlaut Gullpálmann þetta árið á Cannes kvikmyndahátíðinni.

05.10 Bíó Paradís 1 kl. 17.15

Engar stjörnur mæla jafnframt með eftirtöldum stuttmyndum:

Antifeminist
The Marvelous Misadventures of the Stone Lady
Bad Assistant
Helsinki Mansplaining Massacre
Paperboy

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila