Þrisvar sinnum prog

Þriðjudagskvöldið 3. apríl héldu hljómsveitirnar Captain Syrup, Lucy in Blue og Caterpillarmen tónleika á Húrra. Þessir meistarar „prog-rokk“ tónlistarinnar hér á landi komu saman til að skemmta hlustendum með hæfileikum sínum, skrítnum melódíum og furðulegum töktum.

Slappin‘ the Bass

Captain Syrup. Mynd: PUW.

Fyrstir á svið voru meðlimir Captain Syrup og ég áttaði mig strax á því að bassahljóðið var lélegt. Eftir tvö lög kom í ljós að hljómsveitin hafði ekki prófað hljóðkerfið (tekið soundcheck) en hljóðið var síðan lagað. Eftir það var ekki erfitt að njóta tónlistar hljómsveitarinnar sem er flókin en groovy á sama tíma. Það er enginn söngur og því getur maður einbeitt sér að skemmtilegum takt- og hraðabreytingum sem leyfa hæfileikum hljóðfæraleikaranna að njóta sín. Sérstaklega ber að nefna Björn Heimi Önundarson sem slær bassann eins og enginn sé morgundagurinn. Lög eins og „Ömmubakstur“, „Rassgat“ og „Hestur“ (sem „kúkaði svo mikið að hann sprakk“) sviku engan og í lokin kom meira að segja innslag með trompeti. Þessi hljómsveit virðist stundum vera brandari en flutningurinn sjálfur staðfestir að hér eru snillingar á ferð.

Englar alheimsins

Lucy in blue. Mynd: PUW.

Eftir þessa góðu upphitun tóku félagarnir í Lucy in Blue því rólega. Tónlist þeirra er mjög innblásin af „psychedelic-rokki“ frá áttunda áratugnum og hljómsveitinni svipar til Pink Floyd á köflum. Þeir hafa gefið út eina plötu og önnur er í vinnslu. Lucy in Blue tók eingöngu ný lög þetta kvöld sem voru eðal sýrurokk. Hljómborðið skapaði draumalandslag en við bættust djasstrommur, epísk gítarsóló, mjúkar bassalínur og sítt hár sem sveiflaðist á sviðinu í takt við tónana. Þegar maður hafði alveg sogast inn í þetta draumaland bættist söngur við sem var eins englakór og mér leið eins og ég væri kominn inn í himnaríki. Ég var sérstaklega hrifinn af því hversu mikla gleði hljóðfæraleikararnir sýndu meðan þeir voru að spila – þeir voru akkúrat þar sem þeir vildu vera. Gleðin var smitandi og þegar Lucy in Blue tók seinasta lagið byrjaði fólk að dansa í takti við tónlistina. Gott hljóð, hæfni og spilagleði urðu til þess að mér fannst mig sárvanta nýju plötuna þeirra.

Hvað er eiginlega í gangi?

Seinasta hljómsveit kvöldsins var Caterpillarmen en tónlist hennar er jafnskrítin og nafnið á hljómsveitinni. Ég freistast til að skilgreina tónlist þeirra sem blöndu af Queen, diskótónlist og „prog-rokki“. Fyndnar kynningar, furðulegar organ-melódíur og skemmtileg sviðsframkoma urðu til þess að mér fannst eins og ég væri staddur á sirkussýningu – í jákvæðri merkingu. Caterpillarmen létu hlustendur dansa, hlæja og öskra eftir meiru. Þegar hljómsveitin tók seinustu tvö lögin sín gat ég ekki varist þeirri tilhugsun að Húrra vantaði fjölbreyttari sviðslýsingu. Caterpillarmen breyttu staðnum í tónlistarleikhús og þeir eiga skilið skemmtilegri sviðsbúnað en þeir fengu þetta kvöld.

Þegar tónleikar kvöldsins eru metnir í heild er það ljóst – íslenska prog-rokk senan er lifandi og heilbrigð.

Aðalmynd: Caterpillarmen. Mynd: Phil Uwe Widiger.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Phil Uwe Widiger

Phil Uwe Widiger

Phil Uwe Widiger er meistaranemi í blaða- og fréttamennsku.

[fblike]

Deila