„Sannleikurinn má aldrei vera í þjónustu peninga“

Útdráttur á Óvini fólksins:

Sagan gerist í litlum bæ úti á landi og fjallar um systkinin Tómas og Petru Stokkmann. Systkinin gegna hvort tveggja ábyrgðarstöðum í bænum, Petra sem bæjarstjóri og Tómas sem læknir staðarins. Auk þess gegnir Petra stöðu formanns í baðstjórn heilsubaðanna sem eru aðal tekjulind bæjarins og Tómas er eftirlitsmaður þeirra. Þegar niðurstöður sýnatöku úr vatninu benda til þess að heilsuböðin séu menguð eða jafnvel eitruð fer af stað afdrifarík atburðarás. Tómas vill segja frá, segja sannleikann svo allir heyri, en bæjarstjórinn systir hans vill reyna að leysa málin í kyrrþey, án þess að fjölmiðlar og almenningur blandi sér í málin.

Sýningagreining þessi byggir á sýningunum 28. september og 7. október 2017, auk æfinga og rennsla 5., 8. og 20. september sama ár, og var unnin undir leiðsögn Hlínar Agnarsdóttur í námskeiðinu Sýningagreining og sviðslistir.

Ný leikgerð

Leikritið En folkefiende eftir Henrik Ibsen var frumflutt í Noregi árið 1883. Íslensk atvinnuleikhús hafa fjórum sinnum sett upp verkið (1908, 1975, 2001 og 2017) undir nöfnunum Þjóðníðingur, Fjandmaður fólksins og nú Óvinur fólksins [1]. Uppsetning Þjóðleikhússins, haustið 2017, á Óvini fólksins byggir á nýrri leikgerð og þýðingu Grétu Kristínar Ómarsdóttur, dramatúrg sýningarinnar, og Unu Þorleifsdóttur, leikstjóra sýningarinnar. Til gamans má geta að þó að verk Ibsens beri nafnið Þjóðníðingur í þýðingu Einars Braga frá árinu 1995 notar Hofstad orðin „óvinur fólksins“ um Tómas Stokkmann í fjórða þætti umræddrar þýðingar [2].

Nýja leikgerðin af Óvini fólksins felur í sér töluvert djarfa og róttæka breytingu þar sem nokkrar karlkynspersónur verða að kvenkynspersónum. Fyrst má nefna bæjarstjórann Pétur Stokkmann sem verður að Petru Stokkmann. Ásláksen, Billing og miðjubarn Stokkmann hjónanna verða auk þess kvenkyns. Í ljósi þeirrar vinnu sem lögð hefur verið í að breyta kynjum persóna er áhugavert að yngsti sonur Stokkmann hjónanna er leikinn af stelpu og strák til skiptis. Með kynjabreytingunni tekst höfundum leikgerðarinnar að skera sig að kjarna verksins, það er þeirri pólitísku ádeilu á sannleika sem verkið flytur, og forðast um leið ádeilu á valdabaráttu hvítra miðaldra karla sem verkið hefði annars geta falið í sér í íslenskum nútíma. Verkið er fært nær nútímanum þar sem nú, 135 árum eftir að Ibsen skrifaði verkið, tíðkast að konur láti að sér kveða utan veggja heimilisins. Með kynjabreytingunni verður verkið femínískara og um leið nútímalegra.

Eins og til að ögra hugmyndum um kynin enn frekar ganga allar kvenpersónur sýningarinnar í buxum. Athygli dregst að skóm Petru bæjarstjóra þar sem þeir eru rauðbrúnir. Hún klæðist háum hælum á meðan Katrín eiginkona Tómasar klæðist ökklaháum reiðskóm sem svipar til skónna sem Tómas og miðjudóttir þeirra klæðast. Velta má fyrir sér hvort háu hælar Petru séu hvort tveggja í senn merki um kvenleika hennar og fallískt valdatákn. Klæðaburður Petru er einkar áhugaverður. Hún er í hvítri dragt. Hvítur er gjarnan litur hetjunnar, litur hreinleika og sannleika. Það er því írónískt og táknrænt að Petra klæðist hvítu þar sem hún er margvíð persóna. Petra á sér góða og vonda hlið. Hún vekur til skiptist samúð og óbeit áhorfenda með því hvernig hún tekur málin í sínar hendur. Með því að gera bæjarstjórann að kvenmanni kemur inn kynjavídd og sá túlkunarmöguleiki, eins og Gréta Kristín höfundar leikgerðarinnar hefur bent á, að konur geta, alveg eins og karlar, verið „vondi karlinn“ í pólitík, það er verið vondar og spilltar [3].

Með kynjabreytingunni opnast fyrir nýja túlkun á þeim atriðum þegar Tómas býður Petru systur sinni og frú Ásláksen upp á áfengan drykk. Á meðan persónurnar voru allar karlkyns lá gestgjafatúlkun beinast við. Þegar Pétur er orðinn Petra og herra Ásláksen er orðinn frú Ásláksen vekur það frekar umhugsun af hverju þær afþakka áfengið (í fyrsta og öðrum hluta verksins). Undirtónninn gæti orðið valdbeiting karla líkt og í atriðinu þegar Hofstad býðst til þess að blanda drykk fyrir Petru yngri og hún neitar því þar sem hann blandi svo sterkt. Í upprunalega textanum er það reyndar Billing (þá karlmaður) sem býðst til að blanda drykkinn fyrir Petru [4]. Það að Hofstad fái þá setningu skapar tengingu við það hvernig hann hrífst af Petru og notar velvild föður hennar til að reyna að koma sér í mjúkinn hjá henni.

Nýja leikgerðin býður upp á sviðsetningu þar sem samtímaleikmunir eru notaðir. Þannig taka blaðamennirnir til dæmis orð Petru og Tómasar upp á símann sinn, líkt og væru þau í óvæntu viðtali, og horfa síðan á upptökurnar. Katrín tekur einnig mynd af gestum sínum á símann sinn. Ásláksen er með Ipod snúru um hálsinn og leikararnir sitja gjarnan í bakgrunninum og horfa á eitthvað í símanum sínum í þeim senum sem þeir leika ekki í. Nútímavæðingin gengur ekki upp að fullu þar sem haldið er í gamla siði um leið. Tímaskekkja myndast við það að prenta út dagblöðin og hengja þau upp til þerris. Áherslan á að prenta út í stað þess að birta greinarnar á netinu og það að senda Petru yngri með fréttirnar til afa síns í stað þess að hringja í hann eða senda honum skilaboð er á skjön við nútímavæðinguna.

Gagnrýnendurnir Bryndís Schram og Þorgeir Tryggvason hafa bent á að aukin áhersla á pólitískan boðskap í leikgerðinni sé á kostnað trúverðugleika aukapersóna [5]. Skornar hafi verið í burtu senur sem gáfu persónunum meiri vídd. Þó að gagnrýnin sé réttmæt og breytingin bitni ef til vill einna helst á Katrínu sem verður að „týpu“ frekar en „karakter“, þar sem hún verður að einfaldri persónu sem kemur fyrir í fáum senum, eru sumar breytingarnar óhjákvæmilegar ef leitast er við að nútímavæða verkið. Hlutverk Katrínar í verki Ibsen er skýrt. Hún er húsfrúin og á heimili þeirra hjóna ríkir íhaldssöm verkaskipting, eins og sjá má á: „Bull, Katrín – far þú heim og hugsaðu um heimili þitt og láttu mig um samfélagið. Hvernig getur þú verið svona hrædd þegar ég er óttalaus og glaður?“[6]. Í þessum orðum birtast rótgrónar feðraveldishugmyndir. Ekki er þó rétt að halda því fram að Ibsen hafi verið afturhaldssamur þar sem Petra dóttir hjónanna er málsvari kvenna sem eru fullar af réttlætiskennd og baráttuhug. Katrín rís einnig að vissu leyti upp á móti staðalímyndum í upprunalega verki Ibsen eftir að Tómas hefur sagt að ástæðan fyrir því að fólk standi gegn sér sé af því að „karlmenn hér í bæ eru kerlingar allir sem einn – eins og þú; allir hugsa þeir aðeins um fjölskylduna og ekkert um samfélagið –“. Katrín svaraði: „Þá ætla ég að sýna þér eina – kerlingu sem getur verið karlmaður – þó sjaldgæft sé. Því nú stend ég með þér, Tómas!“[7] Í leikgerð Grétu Kristínar og Unu eru setningar Katrínar færri en í upprunalega textanum.

Nýja leikgerðin er töluvert styttri en upprunalega verkið. Það er að stórum hluta borgarafundurinn í fjórða þætti verksins sem styttist og breytist. Í stað þess að hafa leikara sem leika bæjarbúa í atriðinu eru áhorfendur virkjaðir, eins og nánar verður vikið að hér á eftir í umfjölluninni um fjórða vegginn. Tómas heldur mun fleiri einræður, sem einkennast af endurteknum myndhverfingum um dýr, í fjórða þætti upprunalega verksins og einhverju af línum hans er einnig sleppt í fimmta þætti nýju leikgerðarinnar. Í upprunalega verkinu voru Stokkman hjónin fyrir norðan en heimabær Tómasar, þar sem atburðarás leikritsins á sér stað, er fyrir sunnan. Hjá Grétu Kristínu og Unu er þessu snúið við: Þau voru fyrir sunnan en bærinn er fyrir norðan. Þessi breyting ýtir undir þá túlkun að verkið gæti átt sér stað á Íslandi og að smábærinn sem Tómas og Petra búa í gæti verið við Mývatn eða á Vestfjörðum.

„ … Gleymum menguninni í vatninu. Gleymum eitruninni í jarðveginum … Því ég hef gert merkilegri uppgötvun sem ég vil segja frá: Það er hið andlega líf okkar sem er eitrað. Allt okkar samfélag er eitrað, byggt á eitruðum grunni lyga og hræsni.“ [8]

Veruleiki og skáldskapur

Veruleiki og skáldskapur kallast stöðugt á. Ekki er nóg með að uppsetning Þjóðleikhússins á Óvini fólksins tali beint inn í samtímann heldur gerir uppsetning Borgarleikhússins á 1984 eftir George Orwell það sömuleiðis, svo dæmi séu tekin frá núverandi leikári. Þó að En folkefiende sé 135 ára má finna ófáar hliðstæður við nútímann. Leikhúsið er gjarnan sagt vera spegill samfélagsins, það er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um málefni líðandi stundar, og er óhætt að segja að það takist í uppsetningunni á Óvini fólksins. Sviðsetning verksins styður við þá túlkun.

Atburðarás verksins minnir ískyggilega á mengun Mývatns. Í Mývatnssveit eru hóteleigendur sem hafa grætt á nálægðinni við náttúruperluna Mývatn en hafa í lengri tíma mengað umhverfið vegna þess hve illa er staðið að frárennslismálum. Skólpið hefur runnið út í vatnið. Í skýrslu vegna neyðarástandsins stendur eftirfarandi um eðli varúðarreglunnar: „…þótt ekki sé vísindaleg fullvissa fyrir orsökum umhverfisvanda sé það ekki réttlæting fyrir aðgerðaleysi“ [9]. Þessi orð hljóma eins og eitthvað sem þriðji aðili hefði getað sagt til að styðja Tómas þegar Petra hafði fengið Ásláksen, Hofstad og Billing upp á móti honum. Leikgerðin opnar fyrir vísun í skandalinn við Mývatn með því að flytja bæinn sem systkinin búa í norður, eins og áður var komið inn á.

Að sama skapi minnir verkið á skólpmálið sem átti sér stað í Reykjavík síðastliðið sumar og almenningur var seint upplýstur um. 750 lítrar af óhreinsuðu skólpi flæddu út í hafið við Faxaskjól í Reykjavík á hverri sekúndu, því að skólpdælustöðin var biluð, og hafði gert það í tíu sólarhringa þegar fjölmiðlar fóru að taka málið fyrir [10]. Þegar heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur var spurður af hverju almenningi hefði ekki verið tilkynnt um skólpmengunina fyrr sagði hann að ekki hefði þótt ástæða til þess þar sem saurgerlar hefðu verið innan ásættanlegra marka við sýnatöku í júní [11]. Hins vegar létu þau vita af því á þessum tímapunkti þar sem ástandið hafði varað svo lengi að vara þyrfti fólk við því að koma nærri dælustöðinni. Þetta minnir á aðfarir Tómasar sem ekki vildi láta neinn vita af meintri mengun fyrr en hann fengi á því áreiðanlega staðfestingu. Í sviðsetningunni eru það einna helst klósettrúllurnar sem koma fljúgandi inn á sviðið í lok fjórða þáttar sem ýta undir tenginguna við skólpmengunina í Reykjavík. Í sýningunni eru hvítu klósettrúllurnar táknrænar fyrir að þrífa þurfi upp skítinn.

Tómas Stokkmann sem persóna á sér að mörgu leyti hliðstæðu á Íslandi í dag. Nafni hans, Tómas Guðbjartsson hjartalæknir, sem stundum er kallaður „lækna-Tómas“, hefur undanfarna mánuði barist á móti fyrirhugaðri Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum. Virkjunin á að bæta raforkuöryggi Vestfirðinga en Tómas hefur bent á þá fórn sem felst í því að byggja stóriðju í þessari náttúruperlu sem er við dyrnar á friðlandinu á Hornströndum [12]. Tómas er ættaður að vestan og hefur unnið á Ísafirði en heimamenn líta þó á hann sem utanbæjarmann að sunnan sem fer norður og er með vesen. Líkt og nafni hans Stokkmann hefur Tómas Guðbjartsson verið ötull við að skrifa greinar: „Að úthrópa mig „óvin Vestfjarða“ er taktík hagsmunaaðila til að dreifa umræðunni og forðast aðalatriði…Við höfum heldur engra hagsmuna að gæta annarra en íslenskrar náttúru og ófæddra Íslendinga.“ [13] Líkindin við Tómas Stokkmann „óvin fólksins“ sjást svart á hvítu. Tvennt í sviðsetningu verksins ýtir undir þessa tengingu. Fyrst má nefna leikmyndina sem byggir á andstæðunni náttúra og stóriðja, líkt og Una leikstjóri sýningarinnar hefur bent á [14]. Á sviðinu er annars vegar stór járngrind sem minnir á stórt mannvirki, jafnvel virkjun, og  hins vegar gras og þúfur sem hylja gólf sviðsins. Tengslin við náttúruna koma fram í því hversu margar senur gerast utandyra. Þá er kuldaleg birta og fólk klæðist yfirhöfnunum. Í öðru lagi má nefna það hversu líkur Tómas Stokkmann er gerður Tómasi Guðbjartssyni útlitslega. Stokkmann er hafður með krullur og á sumum myndum frá æfingum sýningarinnar er hann með gleraugu eins og Tómas nútímans.

Síðast en ekki síst má nefna það hvernig verkið talar inn í pólitíska umræðu þessa hausts. Viku áður en Óvinir fólksins var frumsýnd féll íslenska ríkisstjórnin vegna trúnaðarbrests. Í því máli var hlutverk fjölmiðla mikið líkt og í verki Ibsen. Hlutum var haldið leyndum vegna persónulegra hagsmuna, samanber að faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra skrifaði undir umsókn kynferðisofbeldismanns um uppreisn æru. Í framhaldinu minnti Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra á Petru þegar hún gerði lítið úr Bjartri framtíð og sagði það í raun vera óábyrga ákvörðun hjá þeim að slíta ríkisstjórninni vegna „sannleikans“ [15]. Vegna ríkisstjórnarslitanna öðlast verkið nýjar skírskotanir og sumar setningar verða írónískari en áður. Sem dæmi segir Ásláksen að það sé hægt að fella bæjarstjórnir en ekki ríkisstjórnir. Samt féll íslenska ríkisstjórnin. Myndin hér að ofan lýsir vel stemningunni í samfélaginu [16]. Orðin: „Sannleikurinn má aldrei vera í þjónustu peninga,“ verða enn þá átakanlegri þegar horft er á ráðamenn þjóðarinnar hvíslast á í þingsalnum.

Sviðsetningin

Sýningin mótast af því að vera sett upp á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu en stóra sviðið sem leikhúsrými er svokallað gægjukassaleikhús, áhorfendur sitja á einn veg og horfa inn á sviðið með ósýnilegan fjórða vegg á milli sín. Fjórði veggurinn er hvort tveggja opinn og lokaður í sýningunni. Líkt og áður var minnst á eru áhorfendur gerðir að fundargestum í fjórða þætti verksins, það er á bæjarfundinum. Með því er fjórði veggurinn rofinn og áhorfendur fá hlutverk. Þeir eru dregnir inn í verkið og blekking leiksviðsins rofnar. Þetta er gert með því að láta ræðumenn á bæjarfundinum snúa sér að áhorfendum, ná augnsambandi við þá og ávarpa þá beint. Persónurnar standa framarlega á sviðinu til að virkja salinn. Þegar Tómas rifjar upp að Hofstad hafi sagt að „sannleikurinn megi aldrei vera í þjónustu peninga“ bætir hann við: „þið munið það“ og beinir orðum sínum til áhorfenda. Tómas ávarpar einnig salinn með orðunum: „Góðir gestir“. Fjórði veggurinn er enn fremur rofinn þegar Tómas er orðin æstur og hrópar að hann sé „óvinur fólksins“ og Jóhann skipstjóri hleypur á eftir honum út í salinn. Auk þess að vera ávarpaðir á fundinum eru áhorfendur dregnir inn í rifrildi systkinanna í öðrum þætti. Systkinin kvarta undan hvort öðru og horfa meira út í salinn en áður eins og til að reyna að fá áhorfendur með sér í lið. Þegar járntjaldið fellur, eins og þung bílskúrshurð úr járni, í lok sýningarinnar er fjórða veggnum síðan skyndilega lokað. Með þessu eru áhorfendur sem dregnir voru inn í atburðarásina og til ábyrgðar, kippt aftur niður á jörðina eins og verkið segi: „Þetta er bara skáldskapur, eða hvað?!“ Köld lýsing og myrkur í bakgrunninum minnir á Brecht-lega framandgervingu og skapar fjarlægð við söguefnið, það er fjarlægð á milli áhorfenda og persóna. Það hve sviðsrýmið er stórt veldur einnig fjarlægð á milli persóna á sviðinu og má því túlka það, auk köldu lýsingarinnar, sem lokaðan ,,innri“ fjórða vegg.

Leikararnir eru inni á sviðinu allan tímann. Með því að hafa persónurnar ætíð í bakgrunninum er því komið á framfæri hversu lítið samfélagið er, allt sem gerist þar hefur áhrif á alla. Þar sem allir eru skyldir eins og systkinin Tómas og Petra, í samfélagi sem minnir á Ísland, er erfitt að halda hlutum leyndum og á sama tíma eiga allir hagsmuna að gæta og því er ef til vill auðveldara en ella að freistast til að hagræða sannleikanum. Það er sérstaklega áberandi hvernig Petra er látin vera alltaf til staðar. Hún er yfirvofandi þó hún sé ekki endilega á staðnum.

Petra er draugaleg í sinni hvítu dragt í sviðsljósinu. Hún er til dæmis eins og draugur þegar Tómas segir fjölskyldu sinni og gestum fyrst frá bréfinu. Hann gengur upp að henni ávarpar hana eins og hún væri þarna. „Ég vildi að þú værir hér…“ segir hann. Enginn nema Tómas sér Petru eins og sést á því að fólkið fer að ókyrrast og Billing spyr hann hvað sé í gangi. Petra tekur síðan bréfið og fer úr sviðsljósinu. Í stað þess að Tómas lesi sjálfur upp fyrir konuna sína hvað stendur í bréfinu frá Petru daginn eftir heyrist það sagt með hennar rödd og hún stendur í bakgrunninum. Eftir að hafa kallað Tómas „óvin fólksins“ stendur Petra síðan áfram kyrr fremst á miðju sviðinu með bakið í áhorfendur og horfir á Tómas ræða málin við fjölskyldu sína.

Tákn og búningar

Á meðan Tómas talar við Hofstad í öðrum þætti leika yngri börnin hans tvö sér í bakgrunninum. Þau binda spotta á milli veggja járngrindarinnar, út og suður svo minnir á köngulóarvef. Þessi vefur er táknrænn. Í stað þess að vera lygavefur er hann flókinn vefur sannleikans. Þegar Ásláksen kemur í heimsókn þarf hún að hafa fyrir því að þræða sig í gegnum vefinn en Tómas hjálpar henni og lyftir upp síðasta bandinu fyrir hana. Þegar Petra mætir á svæðið þræðir hún sig ekki í gegnum vefinn eins og Ásláksen gerði heldur klippir á hann. Á meðan er mjög lág klukkuspils-tónlist í bakgrunninum.

Tvennt í klæðaburði Tómasar kann að vera merkingarbært. Þegar Tómas stendur aftast á sviðinu í þriðja þætti er hann með axlaböndin hangandi niður með lærunum og skyrtuna hálfa upp úr buxunum. Túlka má það sem táknrænan fyrirboða fyrir það að hann verði brátt með allt niður um sig og því nánast með skottið á milli lappanna. Buxur Tómasar vekja einnig athygli sem og buxur Katrínar og Petru dóttur hans en þær eru allar styttri en buxur annarra persóna. Þessi áhersla á buxurnar kann að vera vísun í texta Ibsen þar sem Tómas gerir mikið úr því að sparibuxurnar hans hafi farið illa út úr bæjarfundinum [17]. Umrætt umfjöllunarefni kemur aftur á móti ekki fyrir í leikgerð Grétu Kristínar og Unu.

Fleira er áhugavert í klæðaburði persónanna. Utandyra klæðist Petra rauðbrúnum pels sem er í svipuðum lit og háu hælarnir, loðhatturinn og leðurhanskarnir sem hún klæðist og harmónerar auk þess við háralit hennar. Að Petra skuli vera í loðfeldi ýtir undir túlkun á dýrslegu eðli hennar. Hún er lævís og undirförul eins og rándýr. Hatturinn sem Petra er með vísar ef til vill til einkennishúfunnar sem Pétur klæðist í texta Ibsens [18]. Í ljósi þess að loðhatturinn gæti átt að tákna vald eða sérstöðu Petru er sérkennilegt að Katrín er komin með hatt á bæjarfundinum sem svipar mjög til hattarins sem Petra ber í upphafi. Petra er aftur á móti hattlaus í sömu senu.

Almennt draga búningarnir þó ekki að sér mikla athygli þar sem þeir eru allir í jarðlitum og falla inn í umhverfið. Sigríður Jónsdóttir, leikhúsgagnrýnandi hjá Fréttablaðinu, lýsti þeim eins og auglýsingaherferð hjá Geysi og er sú líking ekki fjarri lagi [19]. Búningarnir minna á klæðnað hefðarfólks og sýna velmegunina í samfélaginu. Leðurjakkinn sem Billing klæðist stingur þó í stúf.

Ljós og hljóð

Sýningin hefst á því að rödd býður áhorfendur velkomna á norsku og biður þá um að muna eftir því að slökkva á farsímum. Með þessu er verkið tengt við uppruna Ibsen sem var Norðmaður en það er ekki útskýrt fyrir áhorfendunum og sömu skilaboð eru ekki endurtekin á íslensku. Áður en ljósin eru slökkt alveg og tjaldið er dregið upp hljómar space-uð tónlist og hljóð í vindi um salinn og fólk heldur áfram að hvíslast á. Opnunarsenan er dimm og drungaleg. Um leið og space-aða teknó-tölvutónlistin ágerist heyrast leikararnir syngja veikri röddu angurværa ballöðu, „Oh, Sister“ eftir Bob Dylan. Leikið er undir sönginn á gítar.

Persónurnar eru í ljósinu en allt annað er í myrkri. Marteinn afi er þó undantekning. Hann stendur alveg kyrr í skugganum og reykir. Inni í birtunni dregur Tómas Petru systur sína með sér í dans og systkinin faðmast. Atriðið er langt. Fólk fær tíma til að hugsa, fara í gegnum allan tilfinningaskalann og jafnvel láta sér leiðast. Birtan á sviðinu minnir í senn á himnaríki og helvíti, ljós og myrkur, og á afmörkuðum stað er blá heimsendabirta. Teknótónlistin og ballaðan kallast einnig á og framkalla andstæðar tilfinningar hjá áhorfandanum. Nægur tími gefst til að virða fyrir sér sviðsmyndina, það er járngrindurnar sem minna allt í senn á stillansa, símamöstur, stúku og íþróttaleikvang. Gólfið er hringlaga og þakið grænu grasi. Það er með röndum sem minna á járnbrautarspor. Eftir sporinu má renna sviðsmyndinni og nýta þar með hringsviðið.

Leikmyndin er verksmiðjuleg og nútímaleg um leið og hún vísar til tíma iðnbyltingarinnar [20]. Í sviðsmyndinni er mikið af grófum formum. Í járngrindinni má greina sérstaklega marga þríhyrninga en líka ferhyrninga. Hvítu stólarnir á sviðinu eru með sama formamynstri og grindin. Í allri dramatíkinni í upphafsatriðinu er eitthvað sem minnir á bókina Hungurleikarnir eftir Suzanne Collins og þann dystópíska heim sem þar er lýst. Það er jafnvel sem bardagi sé að hefjast. Með því að gefa umgerðinni nútímalegan stíl er verkið tengt við samtímann. Sviðsrýmið er brotið upp með strípaðri leikmynd í anda naumhyggju og býður með því upp á tilraunir með ljós og hljóð [21].

Það er helst í skiptingunum á milli þátta sem ljós og hljóð verða áberandi. Þá fer reykvélin ævinlega af stað, birtan er köld og stemningin verður aftur full af drungalegri spennu. Reykurinn staðnar síðan yfir miðju sviðinu og þegar ljósin skína á hann minnir reykurinn á lágreist ský. Í skiptingunni fyrir þriðja þátt er leikmyndinni snúið hratt og vatnshljóð í bland við strengjahljóðfæraleik heyrast. Önnur hljóð minna á eimreið og tæknitruflanir. Persónurnar ganga hratt um sviðið. Bláar doppur birtast á sviðinu í þeim hluta en í einni þeirra stendur Tómas aftast á sviðinu og önnur lendir á Billing sem situr inni á „skrifstofunni“ sinni. Fyrir fjórða þátt er tónlistin saman sett úr hljóðum sem minna á rennandi vatn og málma sem skella saman eins og hnífapör. Birtan er grænblá og köld og bæjarbúar eru komnir í úlpur. Það virðist mjög kalt. Í skiptingunni fyrir fimmta þátt birtist lítið appelsínurautt ljós í þokunni, eins og eldur. Ljósin eru einnig vel nýtt til að sýna hvað á að vera í sviðsljósinu hverju sinni. Dæmi um áberandi skiptingu er þegar Katrín og Petra yngri voru í ljósi, í öðrum þætti, af því að þær voru að tala við Tómas en síðan verður dimmt hjá þeim af því að Petra eldri mætir á svæðið og ljósin beinast að henni. Í fjórða þætti, á bæjarfundinum, er lýsingin mikið bjartari en í öðrum þáttum.

Lokasena sýningarinnar er áhrifamikil. Á sviðinu liggja klósettrúllur og bútar úr hvítu tjöldunum í loftinu sem rifnuðu eftir fjórða þátt. Sviðið lítur út eins og vígvöllur, og minnir aftur á Hungurleikana, enda talar Tómas um að orrustan sé hér heima. Petra yngri prílar í gegnum grindina sem snýst á sviðinu. Hún er eins og hamstur sem hleypur í hringi. Stemningin er martraðarkennd. Það standa allir nema Tómas í stillansunum/vinnupöllunum eins og gínur. Tómas einn gengur um, skoðanir annarra persóna óma um sviðið eins og hátt bergmál: „Já eða nei.“ Það er nánast sem Tómas sé með óráði, orðinn geðveikur. Leikmyndin snýst í hringi eins og hringekja til að undirstrika hringavitleysuna sem á sér stað í bænum. Petra situr þegar hún talar í síðustu senunni sinni (og var ekki í háu hælunum í því atriði í fyrri sýningunni, 28. september). Katrín hefur bundið laust hárið upp í hnút. Aðstæður hafa breyst. Þegar Tómas segir að sterkasti maður heims sé sá sem þori að standa einn ýtir lýsingin undir hugljómun hans. Hvít birta skín fremst á sviðið svo tindrar á járngrindina. Í kjölfarið lýsa sterk rauð ljós inn á sviðið. Reykurinn eykst, sírenur og eintóna fiðlutónn heyrast og járntjaldið fellur með miklum dynk: BÚM.

Niðurstaða:

Framvinda sýningarinnar er nokkuð hæg framan af og litir á sviðinu daufir og flatir. Eftir því sem ágreiningurinn og rifrildin aukast og rauði liturinn kemur sterkara fram kemst meira fútt og hraði í sýninguna sem nær hámarki í lok bæjarfundarins. Aðalpersónurnar, Tómas og Petra, þróast í gegnum sýninguna og ná að vekja hvort tveggja samúð og andúð áhorfenda. Aðrar persónur falla í skugga þeirra. Nýju leikgerðinni sem og sviðsetningunni tekst að draga fram sterka tenginu á milli upprunalegs verks Ibsens og pólitíkur dagsins í dag. Leikhúsgestir gengu brosandi út af sýningunni og ræddu af kappi hver við annan um boðskap verksins og skírskotun þess til samtímans.

Aðstandendur uppfærslu Þjóðleikhússins á Óvini fólksins haustið 2017:

Höfundur: Henrik Ibsen

Leikgerð og þýðing: Gréta Kristín Ómarsdóttir og Una Þorleifsdóttir

Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir

Aðstoðarleikstjóri og dramatúrg: Gréta Kristín Ómarsdóttir

Leikarar: Björn Hlynur Haraldsson (Tómas Stokkmann, læknir), Sólveig Arnarsdóttir (Petra Stokkmann, bæjarstjóri), Lilja Nótt Þórarinsdóttir (Katrín, eiginkona Tómasar), Snæfríður Ingvarsdóttir (Petra yngri, dóttir Tómasar), Sigurður Sigurjónsson (Marteinn Kíl, fósturfaðir Katrínar), Guðrún S. Gísladóttir (Ásláksen), Snorri Engilbertsson (Hofstad), Lára Jóhanna Jónsdóttir (Billing), Baldur Trausti Hreinsson (Jóhann Horster), Vera Stefánsdóttir og Ragnheiður Eyja Ólafsdóttir/Árni Arnarson og Júlí Guðrún Lovísa Henje (börn Stokkmann hjónanna).

Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger

Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson

Hljóðmynd: Gísli Galdur Þorgeirsson og Kristinn Gauti Einarsson

Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson

 

[1] Þjóðleikhúsið. (2017, september). Leikrit Henriks Ibsens á sviði íslenskra atvinnuleikhúsa. Sótt af http://www.leikhusid.is/syningar/ovinur-folksins

[2] Henirk Ibsen. (1995). Leikrit I (Einar Bragi þýddi). Reykjavík: Ibsenútgáfan, bls. 369.

[3] Gréta Kristín Ómarsdóttir. (2017, 22. september). Óvinur fólksins í Þjóðleikhúsinu: Viðtal við höfund leikgerðar og dramatúrg. Sótt af https://www.youtube.com/watch?v=FjrRLh1-hWg

[4] Henrik Ibsen. (1882). En folkefiende (Hovedtekst, 1. utg: Historisk-kritisk utgave, elektronisk versjon), bls. 15.

[5] Bryndís Schram. (2017, 24. September). Þeir sem þora. Sótt af            http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Bryndisi_Schram/their-sem-thora

Þorgeir Tryggvason. (2017, 27. September). Óvinur fólksins. Sótt af      http://leikdomar.blogspot.is/2017/09/ovinur-folksins.html

[6] Henirk Ibsen. (1995). Leikrit I (Einar Bragi þýddi). Reykjavík: Ibsenútgáfan, bls. 347.

[7] Henirk Ibsen. (1995). Leikrit I (Einar Bragi þýddi). Reykjavík: Ibsenútgáfan, bls. 350.

[8] Gréta Kristín Ómarsdóttir og Una Þorleifsdóttir. (2017). Óvinur fólksins: leikgerð af En folkefiende eftir Henrik Ibsen. Reykjavík: Þjóðleikhúsið, bls. 49.

[9] Helgi Seljan. (2017, 21. febrúar). „Frárennslismál við Mývatn eru í lamasessi“. Sótt af http://www.ruv.is/frett/frarennslismal-vid-myvatn-eru-i-lamasessi

[10] María Sigrún Hilmarsdóttir. (2017, 5. júlí). Óhreinsað skólp flæðir um fjöru við Faxaskjól. Sótt af http://www.ruv.is/frett/ohreinsad-skolp-flaedir-um-fjoru-vid-faxaskjol

[11] Ingileif Friðriksdóttir. (2017, 6. júlí). „Þetta er mjög bagalegt.“ Sótt af http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/07/06/thetta_er_mjog_bagalegt/

[12] Óðinn Jónsson. (2017, 10. júlí). „Vestfirðingar sjái að verið er að plata þá“. Sótt af http://www.ruv.is/frett/vestfirdingar-sjai-ad-verid-er-ad-plata-tha

[13] Tómas Guðbjartsson. (2017, 8. september). Umræða um Hvalárvirkjun á villigötum. Sótt af http://www.visir.is/g/2017170909021

[14] Una Þorleifsdóttir. (2017, 21. september). Óvinur fólksins í Þjóðleikhúsinu – viðtal við leikstjóra. Sótt af https://www.youtube.com/watch?v=JE8U-RQ7SYE

[15] Stefán Ó. Jónsson. (2017, 15. september). „Stórkostlegt ábyrgðarleysi af hálfu þessa litla flokks“. Sótt af http://www.visir.is/g/2017170919328/-storkostlegt-abyrgdarleysi-af-halfu-thessa-litla-flokks-

[16] Vilhelm Gunnarsson. (2017, 27. september). Reykjavík: Fréttablaðið.

[17] Henrik Ibsen. (1882). En folkefiende (Hovedtekst, 1. utg: Historisk-kritisk utgave, elektronisk versjon), bls. 88.

[18] Henrik Ibsen. (1882). En folkefiende (Hovedtekst, 1. utg: Historisk-kritisk utgave, elektronisk versjon), bls. 5.

[19] Sigríður Jónsdóttir. (2017, 28. September). Gallaða góðærið. Fréttablaðið, bls. 34.

[20] Eva Signý Berger. (2017, 22. September). Óvinur fólksins í Þjóðleikhúsinu –viðtal við leikmynda- og búningahöfund. Sótt af https://www.youtube.com/watch?v=wGIP0kJYSjw

[21] Ólafur J. Engilbertsson. (2007). Leikmyndlist á Íslandi: Þróun leikmynda- og leikbrúðugerðar í leikhúsum og sjónvarpi frá upphafi atvinnumennsku í leiklist á Íslandi til loka 20. aldar. Reykjavík: Leikminjasafn Íslands, bls. 38.

 

Um höfundinn
Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir er með meistarapróf í ritlist frá Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila