Myndheimur Van Gogh lifnar við

Loving Vincent (Dorota Kobiela og Hugh Welchman, 2017) er fyrsta kvikmynd sögunnar sem er handmáluð að fullu og brúar þannig, að vissu leyti, bilið milli málaralistar og kvikmyndatækni. Myndefnið var fyrst tekið upp á hefðbundinn hátt, í kvikmyndaveri með leikurum, og í kjölfarið tók við umfangsmikil listaverkasmíð þar sem römmunum, rúmlega 65.000 talsins, var breytt í málverk. Yfir hundrað málarar tóku þátt í framleiðslunni og stóð ferlið yfir í rúm tvö ár. Útkoman er sjónræn upplifun sem gefur unnendum Vincent Van Gogh tækifæri til að sjá myndheim hans lifna við og breytast í sviðsmyndir í kvikmynd.

Sögð er saga hins unga Armand Roulin, sonar póstmannsins Joseph Roulin, sem fær það verkefni að koma bréfi frá Van Gogh til bróður hans, Theo, ári eftir að málarinn féll frá. Hann leggur því upp í ferðalag sem leiðir hann til bæjarins Auvers í Frakklandi, þar sem Van Gogh lést, og hittir að máli ýmsa einstaklinga sem komu við sögu í lífi hans. Armand tengir saman frásagnir ólíkra aðila og þjónar því hlutverki eins konar leiðsögumanns fyrir áhorfendur.

Strax í upphafi birtist stórkostlegur himininn í Stjörnubjartri nótt, einu frægasta málverki Van Gogh. Áhrifin eru dáleiðandi þegar spírallaga formin, mynduð af fjöldamörgum smáum en áberandi pensilstrokum, lifna við í trylltum dansi. Þetta á sér hliðstæður í fleiri senum – umhverfið er ekki kyrrt, það er á hreyfingu og fylgir eftir formum málverksins, sem gefur áhorfendum tilfinningu fyrir því að svona hafi Van Gogh séð heiminn. Inn í þessa virkni spila síðan hreyfingar tökuvélarinnar. Ramminn færist ljúflega frá einum stað í umhverfinu til annars – jafnvel úr einu þekktu málverki yfir í annað – þannig að skyndilega er eins og þau hafi alltaf staðið hlið við hlið. Þegar tökuvélin fylgir persónum eftir á hreyfingu, til dæmis þegar þær ganga um, er líkt og söguheimurinn fljóti. Litirnir og pensilstrokurnar verða kaotísk og líða um eins og eftir sínu eigin höfði. Til verður stílfærð og listræn útgáfa af raunveruleikanum; töfraheimur sem gæti komið beint úr huga listamanns.

Persónurnar eiga sér einnig fyrirmyndir á strigum Van Gogh þó andlitsdrættir leikaranna fái að skína í gegn. Þótt bakgrunnurinn sé alla jafna einfaldari í nærmyndum njóta pensilstrokurnar sín engu að síður í völdum smáatriðum í útliti persónanna, til dæmis í skeggi póstmannsins og hatti Armand. Inn á milli er flakkað í tíma og persónurnar lýsa kynnum sínum af Van Gogh eða segja af honum sögur. Þessi atriði eru greinilega aðskilin frá því sem gerist í sögulínu Armand Roulin þar sem þau eru svart-hvít og stíllinn mun látlausari og raunsæislegri. Í þessu skapast ákveðinn kontrast og áhorfendur frá hvíld frá kaotískri litagleðinni, sem í kjölfarið verður enn áhrifaríkari þegar snúið er til baka í nútíð frásagnarinnar. Kvikmyndin er óður til verka Van Gogh. Ljóst er að mikill metnaður hefur ráðið för í framleiðsluferlinu og tæknilega séð stendur hún svo sannarlega undir væntingum.

Þar sem Loving Vincent er stórkostlegt sjónarspil er sorglegt að hún hafi verið unnin eftir jafn takmörkuðu handriti og raun ber vitni. Þó framleiðendur hafi markaðssett kvikmyndina sem umfjöllun um ævi málarans, með áherslu á dauðdaga hans, er staðreyndin sú að Loving Vincent fjallar alls ekki um ævi Van Gogh. Hún fjallar eingöngu um seinustu ævidaga hans og mismunandi kenningar um hvernig dauða hans bar að garði. Úr verður að söguþráðurinn minnir á lélega reyfara eða kvikmyndir um drykkfellda einkaspæjara (Armand Roulin fellur meira að segja vel að þeirri erkitýpu) og yfir öllu er óþægilega mikill samsæriskenningabragur. Þetta væri þolanlegt ef kvikmyndin fjallaði ekki um einn merkilegasta málara allra tíma. Mann sem þurfti að kljást við geðræn veikindi og mikla fátækt, mann sem bjó yfir magnaðri þrautseigju og afkastagetu í listsköpun sinni án þess að fá nokkru sinni viðurkenningu fyrir. Heimildirnar um lífshlaup hans skortir ekki og skömm er að því séu ekki gerð nein skil í myndinni nema í fullkomnu framhjáhlaupi – sáralítil tilfinning er gefin fyrir persónunni Vincent Van Gogh. Eina nálgunaraðferðin sem mögulega hefði verið klisjukenndari væri sú að einblína á atvikið þegar hann skar af sér eyrað, það eina í lífi og list málarans sem ratar inn í poppkúltúr hvað eftir annað.

Þegar á heildina er litið er erfitt að mæla með Loving Vincent en samtímis væri fráleitt að segja fólki að sniðganga hana. Hún er jafn mögnuð og hún er ómöguleg. Fyrir áhorfendur sem hrífast af málverkum Van Gogh og vilja sjá þau lifna við á hvíta tjaldinu er kvikmyndin sjónræn veisla. Nauðsynlegt er hins vegar að þessir sömu áhorfendur búi sig undir þann möguleika að þeir muni upplifa handritið sem móðgun við minningu Vincent Van Gogh.

Um höfundinn
Sólveig Johnsen

Sólveig Johnsen

Sólveig Johnsen er kvikmyndafræðingur (BA), meistaranemi í ritlist og meðlimur Engra stjarna.

[fblike]

Deila