Að velja eða ekki velja: Orð ársins 2017

Steinþór Steingrímsson, verkefnastjóri hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Oddur Snorrason, formaður Mímis, félags stúdenta í íslenskum fræðum og almennum málvísindum, skrifa um val á orði ársins.

Það er ekki auðvelt að velja eitt orð sem ætlað er að vera fulltrúi heils árs. Vinnuhópur, skipaður ekki færri en sex fulltrúum RÚV, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Mímis, félags stúdenta í íslenskum fræðum og almennum málvísindum, setti nú í þriðja sinn saman lista yfir orð sem minna á eða geta verið lýsandi fyrir umræðu ársins.

Þegar orðin tíu eru valin er reynt að byggja listann ekki á handahófi og tilviljunum. Stofnun Árna Magnússonar hefur komið sér upp stórum textasöfnum þar sem hægt er að greina breytingar á orðnotkun yfir tímabil. Stærsta textasafnið er kallað Risamálheildin. Það er nýtt safn texta sem samanlagt innihalda um 1,2 milljarða orða. Risamálheildin verður opnuð almenningi snemma árs 2018. Miðað var við að orð ársins uppfyllti ákveðin skilyrði. Notkun þess þyrfti að vera áberandi meiri á árinu en síðustu fimm ár á undan eða að hafa komið fram í fyrsta skipti á árinu. Kallaðir voru fram listar úr Risamálheildinni yfir orð sem uppfylltu þessi skilyrði. Áberandi á listunum þetta árið umfram önnur ár voru orð sem tengdust umræðu um kynferðisbrotamál og laumuspil í stjórnmálum. Það telst varla skemmtiefni og vinnuhópnum því nokkur vandi á höndum. Sem betur fer var það hópnum til happs að hann tók sjálfan sig ekki nema hæfilega alvarlega. Þrátt fyrir að leitast við að nota tölfræðilegar aðferðir þegar listinn er settur saman er val á orði ársins auðvitað fyrst og fremst leikur og til skemmtunar. Þá er ótvíræður kostur að orðin séu fjölbreytileg og minni á mál af margvíslegu tagi. Því voru tíu ólík orð valin úr listunum yfir þau orð sem uppfylltu skilyrðin. Sum voru fyrst og fremst valin vegna umfjöllunar um orðin sjálf, þrátt fyrir að notkunin væri kannski ekki útbreidd en önnur af glerharðri alvöru vísindamannsins og alls ekki til að spauga með.

Vinnuhópurinn lauk sínum störfum þegar tekin hafði verið ákvörðun um tíu orð sem erindi gætu átt í vefkosningu um orð ársins. Kosningin fór fram á vef RÚV dagana 18. desember til 4. janúar. Niðurstaða kosningarinnar er kynnt hér að neðan en fyrst gerum við lítillega grein fyrir orðunum sem vinnuhópurinn valdi á sinn lista.

leyndarhyggja no. kvk.

Íslensk nútímamálsorðabók: það að koma viljandi í veg fyrir að eitthvað sé gert opinbert

Leyndarhyggja er ekki nýtt orð. Elsta dæmið sem við fundum um notkun þess er í Staksteinum Morgunblaðsins 1. maí 1986, þar sem fjallað er um leyndarhyggjuna í Kreml. Síðan þá virðist orðið helst hafa verið notað um það þegar stjórnvöld eða ráðamenn reyna að koma í veg fyrir að leiðinleg mál komi upp á yfirborðið. Eftir fall bankanna haustið 2008 nær orðið flugi. Þingmenn á Alþingi tileinkuðu sér að nota orðið, á níu árum var það notað 108 sinnum í ræðum þingmanna á Alþingi. Einhverjir kunna að muna eftir því þegar Óttarr Proppé sagði haustið 2014 í umræðum um TiSA-samninginn: „Tími leyndarhyggjunnar er í raun og veru liðinn.“ Það fór á annan veg því haustið 2017 var orðið notað svo mikið að orð var haft á því á ólíklegustu stöðum. Til að mynda skrifaði ritstjóri Morgunblaðsins Reykjavíkurbréf þann 16. september þar sem hann kallaði orðið nýjasta frasann: „Það blasir því við að ráðherrann sýndi virðingarverða varkárni og engin „leyndarhyggja“ (nýjasti frasinn) kom við sögu.“

Eins og sjá má af línuritinu getum við að minnsta kosti fullyrt, út frá þeim gögnum sem við höfum aðgang að, að orðið hafi verið notað margfalt meira í íslenskum miðlum en nokkru sinni fyrr.

þyrilsnælda no. kvk.

Íslensk nútímamálsorðabók: lítið leikfang sem er látið snúast hratt í hendi

Þyrilsnælda var það algengasta af nokkrum íslenskum heitum á leikfangi sem naut nokkurra vinsælda sumarið 2017. Leikfangið er kallað fidget spinner á ensku en af öðrum heitum á þessu fyrirbæri sem stungið var upp á má nefna fiktisnælda, þeytispjald og svo einfaldlega spinner, sem þó er varla mikil íslenskun.

Orðið virðist vera glænýtt því við finnum ekki eldri heimildir um notkun þess en frá vorinu 2017. Strax þá var í fjölmiðlum fjallað um óvinsældir þyrilsnælda meðal kennara. Skömmu síðar mátti svo lesa um það að sænska Neytendastofan varaði við þessum leikföngum. Þeir láta ekki að sér hæða, Svíarnir.

falsfrétt no. kvk.

Íslensk nútímamálsorðabók: frétt sem sett er fram í blekkingarskyni, login frétt

Umfjöllun um upplognar fréttir voru nokkuð áberandi á árinu. Ekki síst vegna sárra kvartana forseta Bandaríkjanna undan röngum fréttum um sig, sem hann kallaði falsfréttir. Á ensku eru falsfréttir kallaðar „fake news“ og til gamans má geta þess að orðabókaútgefandinn Collins valdi það einmitt sem orð ársins 2017. Meðal annarra orða sem komu til greina hjá Collins var „fidget spinner“, þyrilsnælda, sem einnig kom til greina við valið hér á Íslandi.

Þó aukning á notkun orðsins falsfrétt sé að minnsta kosti 1486% frá fyrra ári er það hreint ekki nýtt af nálinni. Á Tímarit.is má finna 30 dæmi frá 20. öld, það elsta frá 1907. Af eftirminnilegum falsfréttum frá síðustu öld má nefna falsfréttir um yfirvofandi gjaldþrot Pósts og síma á áttunda áratugnum, falsfrétt um dauða Píusar páfa XII. (sem lést reyndar mjög skömmu síðar) og falsfrétt um að ungverskir andstæðingar kvennaliðs Fram í handbolta hefðu orðið veðurtepptir í Búdapest. Sem þeir voru alls ekki.

Af grafinu má sjá að sárafá dæmi fundust í Risamálheildinni frá 2012-2016, en notkun orðsins tekur heljarstórt stökk 2017.

uppreist no. kvk. [gamalt]

Íslensk nútímamálsorðabók: uppreisn

fá uppreist æru: það að njóta aftur borgaralegra réttinda sem hafa glatast við að fá fangelsisdóm

Uppreist er auðvitað langt frá því að vera nýtt orð. Svo langt raunar að sérstaklega er tekið fram í Íslenskri nútímamálsorðabók að orðið sé gamalt. Dæmi um orðið er að finna í heimildum frá öllum tímum síðan ritöld hófst á Íslandi. Í Sturlungu ræður Magnús biskup Gissurarson Órækju Snorrasyni heilt og leggur til að hann haldi utan, því „hann mundi öngva uppreist hér fá sinna mála.“ Hann gerði eins og honum var sagt, fór til Danmerkur og var þar með Valdimar konungi hinum gamla um veturinn. Orti um hann vísu og fékk hest að gjöf sem hann reið til Rómar og til baka.

Nú á dögum er orðið nær eingöngu notað í sambandi við uppreist æru og það var einmitt í því sambandi sem mikill fjöldi dæma um það birtist sumarið og haustið 2017. Þá var mikið fjallað um menn sem dæmdir höfðu verið fyrir kynferðisbrot en vildu æruna aftur. En einnig var nokkur umfjöllun um orðið sjálft, sem mörgum þótti einkennilegt og vildu frekar nota orðið uppreisn, ágætt orð og miklu meira notað.

Eins og sjá má hér að neðan tífaldaðist notkun orðsins í íslenskum miðlum árið 2017 frá fyrra ári. Það er því ekki að ástæðulausu að það var valið á lokalistann.

örplast no. hk.

Íslensk nútímamálsorðabók: örsmáar plastagnir sem geta valdið skaða í náttúrunni

Við fáum sífellt fleiri fréttir af skaðsemi plasts í náttúrunni og árið 2017 var kastljósinu beint í auknum mæli að plastögnum sem geta valdið miklum usla í lífríkinu. Þessar agnir eru kallaðar örplast á íslensku. Elsta dæmið sem við þekkjum um notkun orðsins er í frétt RÚV frá því í janúar 2012.

hægvarp no. hk.

Íslensk nútímamálsorðabók: sjónvarpsútsending þar sem sýnt er frá ákveðnum atburði í langan tíma

Orðið hægvarp var fyrst notað um sjónvarpsútsendingu á Íslandi vorið 2015, þegar RÚV stóð fyrir beinni útsendingu frá sauðburði í heilan sólarhring. Yfir áttatíu lömb, hið minnsta, fæddust í útsendingunni, sem var frá Syðri Hofdölum í Skagafirði. Af eftirminnilegum hægvörpum á árinu 2017 má nefna beina útsendingu frá lífi og leik kettlinga í Kattholti og sólarhringsútsending úr Hljóðrita, þar sem tónlistarmaðurinn Ásgeir tók upp yfir 60 lög.

epalhommi no. kk. (óstaðfest nýyrði)

Íslensk nútímamálsorðabók: samkynhneigður karlmaður sem hefur áhuga á vandaðri hönnun

Sköpunarsaga orðsins er þekkt. Sindra Sindrason, fjölmiðlamaður, var gagnrýndur fyrir fordóma í kjölfar viðtals hans við Töru Margréti Vilhjálmsdóttur, en hún er formaður Samtaka um líkamsvirðingu. Hann varðist og sagðist sjálfur tilheyra ótal minnihlutahópum. Um það skrifaði Hildur Lilliendahl, kvenréttindafrömuður, á Facebook: „Mér er skapi næst að kveikja í hárinu á mér fyrir aumingja kúgaða hvíta ófatlaða epalhommann með alla sjónvarpsþættina.“

Tilurð orðsins er skólabókardæmi um virka orðmyndun. Virk orðmyndun er það kallað þegar samsett orð sprettur upp vegna þess að sá sem myndar orðið finnur þörf fyrir einmitt þá samsetningu á þeim stað og þeim tíma. Flest orð sem verða til með þessum hætti þykja lítt eftirminnileg, þau gleymast fljótt og rata aldrei í orðabækur. Og það er reyndar þannig með þetta orð að það hefur þá sérstöðu á 10 orða listanum að frekar fá tilvik eru um notkun þess í okkar gögnum og nánast öll frá því í sama mánuðinum, mars 2017. Það skýrir hvers vegna sá fyrirvari er settur við þetta orð að það sé óstaðfest nýyrði. Þrátt fyrir mikla umræðu um orðið er ekkert í gögnum orðabókaritstjóra Árnastofnunar sem bendir til þess að það hafi komist í almenna notkun.

líkamsvirðing no. kvk.

Íslensk nútímamálsorðabók: það að bera virðingu fyrir eigin líkama

Við kynntumst orðinu líkamsvirðing fyrst þann 6. maí 2007 þegar fylgiblað Fréttablaðsins, Líkamsvirðing, var borið gjaldfrjálst inn á heimili víða um land. Síðan hefur orðið hægt og sígandi náð fótfestu en árið 2017 var það notað (eins og önnur orð á þessum lista) meira en nokkru sinni fyrr. Aukningin var um 35% frá fyrra ári, sem er vissulega talsvert minna en í tilvikum annarra orða sem komust á listann, en á undanförnum fimm árum hefur notkunin þó margfaldast og þegar um er að ræða viðhorfsbreytingar eins og því miður virðist þurfa til að það sem orðið lýsir sé samþykkt, þá er þetta eftirtektarvert.

áreitni no. kvk.

Íslensk nútímamálsorðabók: það að áreita e-n, það að sýna e-m óvelkomna athygli og óska eftir samskiptum við e-n sem kærir sig ekki um það

Áreitni hefur lengi verið þekkt. Elstu dæmin um orðið í okkar gögnum eru frá því fyrir miðja 19. öld. Þó orðið hafi kannski mest verið notað í sambandi við kynferðislega áreitni síðustu ár, þá hefur það ekki alltaf verið þannig. Orðið var lengst af notað til að lýsa óvelkominni athygli eða samskiptum, sem gátu verið af ýmsu tagi og með ýmsu móti. Á níunda áratugnum er hins vegar farið að tala um kynferðislega áreitni í blöðum og það er einmitt þess konar áreitni sem orðið var langoftast notað um í okkar gögnum árið 2017. Notkun orðsins ríflega tvöfaldaðist frá fyrra ári og var þó mikil fyrir. Þessa aukningu má þakka opinskárri umfjöllun um meinsemdina í kjölfar #höfumhátt og #metoo umræðunnar.

innviðauppbygging no. kvk.

Íslensk nútímamálsorðabók: uppbygging á helstu þáttum sem stuðla að virkni samfélagsins, s.s. samgöngum, menntamálum og heilbrigðiskerfinu

Innviðauppbygging er kannski frekar leiðinleg samsetning. Orðið var mjög áberandi í kosningabaráttunni haustið 2017 og loforðaflaumurinn um uppbyggingu innviða samfélagsins varð til þess að fleiri dæmi urðu til um notkun orðsins á þessu ári en nokkru sinni fyrr.

Eins og fyrr segir lauk vinnuhópurinn sínum störfum þegar þessi tíu orða listi hafði verið settur saman. Þá tók við almenn kosning gesta á vef RÚV. 5105 greiddu atkvæði. Flest þeirra komu í hlut orðsins epalhommi, 1375 eða 26,9%. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er birt hér að neðan:

 

 

[fblike]

Deila