Suss – ekki sjá, ekki heyra, ekki tala …

Í Leikhús, Rýni höf. Dagný Kristjánsdóttir

RaTaTam leikhópurinn
Suss
Leikstjórn: Charlotte Bøving
Tjarnarbíó, 2016
Ég hefði látið segja mér það þrimur sinnum að ég ætti eftir að „skemmta mér konunglega“ á leiksýningu um heimilisofbeldi. Þetta tvennt á enga samleið. Og þá þversögn sýnir leikhópurinn RaTaTam í sýningunni Suss í Tjarnarbíói.

Heimildaleikhús

Leikritið er heimildaleikhús, þ.e. leikhópurinn vinnur leikritið upp úr samtölum við fórnarlömb heimilisofbeldis, nokkra karla og margar konur. Klisjan segir að veruleikinn sé magnaðri en skáldskapurinn en það er ekki rétt.  Ef skáldskapurinn er góður magnar hann og stækkar veruleikann og sýnir okkur merkingu sem okkur er falin í hvunndeginum. Og til þess þarf fólk sem hefur lært það fag – fagmenn.

ratatam-suss-tjarnarbio-dagny-5

Heimilisofbeldi er  þekktur málaflokkur og flestir hafa lesið eða heyrt um þá merkilegu reglufestu sem fylgir ofbeldissamböndum. Það þarf stundum mikið til að ofbeldismennirnir berji (buffi) „ástvini“ og börn sín en oftast þarf lítið eða nánast ekki neitt til að þeir reiðist og noti hnefana. Raunverulegir kvalalostasjúklingar eru sem betur fer fáir en reiðistjórnun er alltaf af skornum skammti.  Og í valnum liggur konan, skelfingu lostin börn standa hjá og sakbitinn ofbeldismaður sem þjáist en hefur ekkert lært.

ratatam-suss-tjarnarbio-dagny-3

Leikur kattarins að músinni er alltaf jafn ljótur og alltaf jafn flókinn.  Hann byggist á endurtekningu sem hleður utan á sig og þetta hefði mátt koma fram í byggingu verksins, það hefði  mátt skipta viðtölunum upp í þemu og raða öðru vísi – búa til meiri innra drama og stígandi í sýninguna til að undirstrika kjarna verksins og niðurstöðu.

Að því sögðu …

Leikarar sýningarinnar eru Halldóra Rut Baldursdóttir, Hildur Magnúsdóttir, Laufey Elíasdóttir, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Guðrún Bjarnadóttir.  Þau segja sögu barnanna sem eru rænd sakleysi sínu og misnotuð, verða vitni að misþyrmingum sem þau verða að þegja um út í frá og eru þannig gerð ábyrg fyrir velferð foreldranna. Þetta eru börn sem munu borga fyrir það sem fullorðnir hafa gert þeim, viljandi eða óvart.  Þau segja líka sögu fullorðinna, reiði þeirra og þrá eftir ást og jafnvægi.

Leikhópurinn bjó til áhrifamikla sýningu úr mörgum harmsögum, stundum á gróteskan, stundum súrrealistískan hátt.  Við fengum að sjá átök innan veggja heimilisins eins og í eftirminnilegustu leikhússsenu vetrarins þar sem munnhörpu var stungið upp í börnin við matarborðið á aðfangadagskvöld og fjölskyldurifrildið milli fullra og árásargjarnra foreldra og taugaspenntra barna fór fram í munnhörputónum!

Þetta er besta sýningin sem ég hef séð eftir Charlotte – bráðgóð!
Charlotte Bøving leikstýrði þessari sýningu sem einkenndist af dásamlegri hugmyndaauðgi og góðri blöndu af firringu og húmor. Þetta er besta sýningin sem ég hef séð eftir Charlotte – bráðgóð!  Með henni er Þórunn María Jónsdóttir sem gerir einfalda leikmynd sem er notuð af mikilli hugkvæmi, Helgi Svavar Helgason  gerir tónlistina og ljós eru í höndum Arnars Ingvarssonar og Kristins Ágústssonar. Mér fannst andi Daríó Fó og hans pólitíska trúðleiks svífa yfir vötnum í þessari sýningu og það er enginn smá-árangur!

Leikstjórn: Charlotte Bøving
Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir
Tónlist: Helgi Svavar Helgason.
Leikarar: Halldóra Rut Baldursdóttir, Hildur Magnúsdóttir, Laufey Elíasdóttir, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Guðrún Bjarnadóttir
Ljósahönnun og tæknikeyrsla : Arnar Ingvarsson og Kristinn Ágústsson
Listræn aðstoð: Heiðríkur á Heygum

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

Deila


Yfirþyrmandi náttúrukraftur smásagna Rómönsku-Ameríku

17. október, 2017Út er komið annað bindi ritraðarinnar Smásögur heimsins sem hefur að geyma smásögur eftir ýmsa fremstu smásagnahöfunda Rómönsku-Ameríku, þar á meðal Jorge Luis Borges og Gabriel García Márquez. Smásagnaritun hefur verið mikilvæg í löndum álfunnar alla 20. öldina og fram á okkar daga og frá henni koma leiðandi höfundar í smásagnaskrifum. Í bókinni eru 22 smásögur frá sextán löndum og er elsta sagan frá 1917 en sú yngsta frá 2006. Aðalritstjóri þessa bindis, Kristín Guðrún Jónsdóttir, segir langflestar sögurnar vera þýddar úr spænsku, en einnig séu sögur þýddar úr portúgölsku, frönsku og ensku. Sögurnar eru allar þýddar úr frummálinu og ...

„Vér hverfum frá oss sjálfum“

16. október, 2017Franska leikritaskáldið Florian Zeller hefur fengið fjölmörg verðlaun fyrir verkið Föðurinn, meðal annars Moliere verðlaun árið 2014. Verðskuldað er það. Þetta er ákaflega vel skrifað og sterkt leikrit en það er þannig gert að það leiðir áhorfandann stig af stigi inn i hugarheim föðurins, André, (Eggert Þorleifsson). Sá hugarheimur er framandlegur og kemur okkur á óvart, það tekur smátíma fyrir áhorfandann að ná áttum. Ég ætla því að vara ykkur við og segja: ef þið ætlið að sjá þessa sýningu Þjóðleikhússins ættuð þið ekki að lesa lengra núna – lesið þegar þið eruð búin að sjá sýninguna! Má ég spyrja: ...

Leikstjóraspjall við Baltasar Kormák

13. október, 2017Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði, fjallar um Leikstjóraspjall Baltasar Kormáks, en hann svaraði spurningum um eigin feril og kvikmyndir, íslenska kvikmyndamenningu og framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar.