Dularfulla fánamálið

Að morgni 16. nóvember árið 1907 uppgötvuðu Reykvíkingar að framinn hafði verið dularfullur glæpur í bænum. Glæpur er þó kannski of dramatískt orð, hann var ekki blóðugri en svo að hann gæti hentað í ‘dularfulla’ sögu eftir nafntogaðan breskan barnabókahöfund. Eða hvað?

„– Þetta er langleiðinlegasta jólaleyfi, sem ég hef lifað, sagði Finnur.

– Og svo þurfti þessi inflúensa að bætast ofan á allt saman. Þú ert nú ljóti hrakfallabálkurinn að þurfa endilega að smitast,“ sagði Beta.[i] Þau Lárus og Dísa sátu á rúmstokknum hjá Finni sem horfði til skiptis á þau.

„– Hvernig líður Palla?

– Hann er líka miklu betri, nema lundin, sagði Beta. – Ég vona að þú verðir ekki eins skapillur, þegar þú ferð að hressast. En nærri lá að ég gleymdi að segja þér aðalfréttirnar. Ég hitti Gunnar gamla lögregluþjón á leiðinni hingað.

– Einmitt það, sagði Finnur og settist til hálfs upp í rúminu er hann heyrði nafn þessa höfuðóvinar síns nefnt. – Og hvað sagði hann? […]

– Hann sagðist vera því harla feginn, að feiti strákurinn lægi í flensu.“[ii] Meðan svo væri gætu bæjarbúar sofið rólega, sannfærðir um að línurnar í fánastöngunum þeirra væru ekki skornar í sundur í skjóli myrkurs.

– Einmitt það, sagði Finnur.

– Hvað átti hann við? spurði Lárus undrandi.

Finnur settist nú alveg upp í rúminu. – Alveg frá því að styttan af Jónasi Hallgrímssyni var afhjúpuð á túninu framan við læknisbústaðinn við Lækjargötuna í liðnum mánuði hefur Gunnar borið það út um bæinn að ég hafi skorið á alla fánastrengina í miðbænum næturnar á undan.

– Hvað hefur hann fyrir sér í því? spurði Beta.

gunnar-blyton– Hann hafði komið að mér einhvern tímann í sumar að tálga rekaviðarbút niðri á bryggju og hafði þá orð á því að dálkurinn minn, sem pabbi gaf mér eftir þingmannaförina til Danmerkur í fyrra, væri nú ekkert barnaleikfang. Og þar sem pabbi er í Heimastjórnarflokknum, einn dyggasti stuðningsmaður Hannesar Hafstein ráðherra, og þar að auki kvæntur enskri konu lagði lögreglumaðurinn saman tvo og tvo og komst að þessari fáránlegu niðurstöðu. En hann gat ekki sannað neitt upp á mig þannig að hann neyddist til að láta málið niður falla. Það sljákkaði reyndar aðeins í honum þegar ég laug því til að ég væri ritari í stjórn Ungmennafélagsins Emblu.

– Ég vissi ekkert af þessu, sagði Lárus. – Ég man ekki eftir að það hafi vantað fána á stangirnar í miðbænum daginn sem Jónasarhátíðin var haldin.

Dísa sagðist hins vegar hafa frétt af þessum strákskap, eins og hrekkurinn var jafnan kallaður. Síðari hluta nóvembermánaðar hefðu ásakanir gengið á milli blaða stjórnarliða og og blaða stjórnarandstæðinga.

– Það stendur heima, sagði Finnur og teygði sig í blaðabunka sem lá á borðinu við hliðina á rúminu hans. – Ég hef einmitt notað síðustu daga til að fara í gegnum þessi fréttaskrif og ég held að ég viti hver skar á fánalínurnar. Málið var fyrst tekið upp í Ísafoldá sjálfan afmælisdaginn, 16. nóvember, en þar sagði:

Lúalegt óþokkabragð hafa einhverjar Danasleikjur af lægsta tægi af sér gert hér í nótt: skorið á fánataugar hjá þeim, er hafa íslenzkan fána, þar sem til hafa náð, með því að til stóð, að þeir yrði dregnir á stöng í dag, á afmæli Jónasar Hallgrímssonar. Danska fánanum hefir aldrei verið nema fylsta kurteisi sýnd alla tíð síðan er hófst fánahreyfingin íslenzka. Þeir mega vara sig á því, misvitrir Dana-dindlar, að þeir spilli henni ekki með heimskupörum sínum og óþokka-strákskap.[iii]

– Það er nú ekki beinlínis verið að ásaka stjórnarliða í þessari frétt, eða hvað? sagði Lárus. – Maður skilur þetta frekar sem skot á hópinn sem stóð að baki yfirlýsingunni í Reykjavík fyrr á þessu ári um að þeim kæmi „ekki til hugar að hafna inu löghelgaða verzlunarflaggi alríkisins og taka upp alveg nýtt og ólögleyft flagg í staðinn“.[iv]

– Voru bakjarlarnir ekki mestan part einhverjir kaupmenn, danskir eða norskir? spurði Beta.

– Ekki eingöngu, svaraði Finnur. Flestir gáfu sig reyndar út fyrir að vera starfsmenn einhverra fyrirtækja, svo sem Íshúsfélagsins, Verslunarinnar Edinborgar, H.P. Duus, J.P.T. Bryde., Verslunarinnar Godthaab, Thore-félagsins, Norðurpólsins og Thomsens verslunar. Sumir þeirra báru erlend nöfn, svo sem Meulenberg, Zimsen, Lund, Jensen og Schau en Íslendingar voru í meirihluta, og þar á meðal þungavigtarmenn á borð við Tryggva Gunnarsson, móðurbróður Hannesar Hafstein. Raunin var líka sú að andstæðingar ráðherrans reyndu að nota þetta mál til að koma höggi á hann. Ég er hérna með eintak af Ísafold frá því snemma í apríl þar sem látið er að því liggja að Hannes hafi fengið handbendi sitt til að safna þessum undirskriftum. „Alt þetta er gert vegna dönsku mömmu suður í Kaupmannahöfn. Hún vill helzt ekki annað heyra og má ekki annað heyra en að hér sé alt með himnalagi undir stjórn „rétta mannsins á réttum stað“ og að lýðurinn ráði sér varla fyrir fögnuði yfir að hafa þann snilling yfir sér, stórvitran, réttlátan og röksaman.“[v]

– Ósköp er þetta lágkúrulegur málflutningur, andvarpaði Lárus. – Hvernig dettur nokkrum manni í hug að kalla Hannes ráðherra Dana-dindil?

– Þetta er nú ekki neitt, sagði Finnur, um leið og hann dró tóbakskylli undan koddanum.

– Daginn eftir Jónasarafmælið birti Ingólfur frétt undir fyrirsögninni: „Sigur stjórnarþýja á fána Íslands“, þar sem því er blákalt haldið fram að heimastjórnarmenn hafi eftir fund í félagi sínu, Fram, 14. nóvember, dregið fram hnífana. Ég ætla lesa greinina fyrir ykkur.


Verkið lofar meistarann! Nýjasta afreksverk stjórnarþýjanna er það, að skera sundur snæri á stöngum þeim, er borið hafa íslenzka fánann hér í bænum. Síðustu næturnar hafa þýin skorið sundur fánasnærin og dregið þau úr öllum stöngum sem þeir náðu til í allri Reykjavík. Þetta hafa þau gert í þeim lofsverða tilgangi, að aftra því að íslenzkir fánar væru blaktandi á hundrað ára afmæli Jónasar Hallgrímssonar! Stjórnarþýin höfðu nasasjón af því, að Jónas Hallgrímsson var ekki af þeirra sauðahúsi; þau höfðu heyrt að hann hefði verið ósvikinn Íslendingur og þau vissu, að Stúdentafélagið í Reykjavík hafði gengist fyrir að reisa honum minnisvarða sem átti að afhjúpa 16. þ. m. Þessvegna áttu þau víst að íslenzki fáninn yrði hafður á loft við þetta tækifæri nema þau tækju til sinna ráða. Liðið settist á rökstóla og hittu hinir vitrustu í flokknum þegar á það ráð sem samboðnast var þeirri samkomu og stefnu „flokksins“. Þýin brýndu kuta sína og lögðu af stað í krossferðina (því að þau eiga von á dannébrogskross fyrir tilvikið) eftir fund á fimmtudagskveldið var. Skáru þau þá niður snæri á nokkrum stöngum og stálu snærunum. Og loks á laugardagsnóttina tóku þau til aftur, fóru um allan bæinn og skáru snærin úr þeim stöngum, sem eftir vóru. Með þessu tilviki komu þýin í veg fyrir að allir gæti dregið fána Íslands á stöng á afmæli Jónasar, sem ella hefði gert það. En margir gátu þó komið stöngum sínum í lag á laugardagsmorguninn svo að þýin höfðu ekki annað upp úr krafstrinum en það að gera stangaeigendum svo sem einnar krónu skaða, við að taka niður stengurnar til lagfæringar — en „það eru sgú líka peningar“, eins og amtmaðurinn sagði. Hugmyndina er sagt að þýin hafi fengið frá flokksbræðrum sínum á Ísafirði, sem beitt hafa sama drengskaparbragði gegn íslenzka fánanum.
[vi]

Þegar Finnur lauk lestrinum leysti hann um opið á pungnum og fékk sér tóbak í vörina. Því næst bauð hann Lárusi með sér og leit spyrjandi í áttina að Dísu og Betu. – Jæja, hvað finnst ykkur, stelpur?
hugras_hvitblainn– Þetta er ekkert fráleit tilgáta, sagði Dísa. – Heimastjórnarmenn hafa viljað fara hægt í þessu fánamáli enda hafa þeir áhyggjur af því að það geti spillt fyrir sambandslagamálum. Það var þess vegna að þeir voru alveg á nálum þegar þeir sáu hvítbláann á tjaldi ungmennafélagsmanna á Þingvöllum þegar konungsheimsóknin stóð sem hæst í sumar. Mér skilst að Hannes ráðherra hafi sent Þorstein Gíslason á fund Jóhannesar glímukappa Jósefssonar og reynt að telja hann á að draga fánana niður en Jóhannes hafi svarað að það yrði ekki gert fyrr en að honum dauðum.[vii]

Beta gat ekki varist brosi. – Ég hef nú heyrt að kóngurinn hafi bara gert grín að þessu og sagt að bróðir sinn, Georg Grikkjakóngur, hefði kunnað að meta að sjá Krítarflagg á þessum norðlægu slóðum. Þeir eru víst alveg eins, hvítbláinn og gríski konungsfáninn.[viii]

– Svöruðu heimastjórnarmenn ekki þessum óhróðri? spurði Lárus.

– Jú, þeir gerðu það, sagði Finnur og dró fram úr bunkanum eintak af Lögréttu frá 20. nóvember. – Þeir sögðu það vissulega vera vítaverðan strákskap, ef satt væri, að skera á fánastrengi í aðdraganda Jónasarafmælisins en það væri þó verri strákskapur af Ingólfi að kenna pólitískum andstæðingum sínum um. „Þetta er svo lubbaleg og ástæðulaus aðdróttun, að nærri liggur að ætla, að þeir, sem fram koma með hana, hafi sjálfir lagst á fánastrengina til þess að geta komið sögunni á loft,“ stendur hér í blaðinu.[ix]

– Með öðrum orðum: Éttu hann sjálfur? muldraði Lárus og opnaði við það munninn þannig að svartur tóbakstaumur rann út um annað munnvikið. Hann hafði fengið sér of mikið í neðri vörina.

– Það má segja það, svaraði Finnur. – Hin stjórnarandstöðublöðin drógu eitthvað í land daginn eftir. Í Fjallkonunni var reyndar hnykkt á að andstæðingar hvítbláans hefðu verið á ferð í bænum aðfaranótt 16. nóvember en um leið var dregið í efa að betri borgarar bæjarins stæðu á bak við svo skrílkennda tilburði:

Þetta hafa auðvitað gert einhverir illa innrættir fjandmenn íslenzka fánans, götustrákar af versta tægi. Þegar skröksögur og fáryrði um fánamálið geta engu orkað til þess að hnekkja fylgi þess, er gripið til slíkra vopna, vitanlega í fullkominni óþökk allra betri manna í flokki þeirra, sem unna meir dönskum fána og danskri þjóð en íslenzkum fána og íslenzkri þjóð. En lík áhrif mun þetta hafa og kaupmannayfirlýsingin sællar minningar: eggja alla góða Íslendinga til eindregins fylgis við íslenzka fánann og fjölga vinum hans að mun. Eins ógeðslegur lubbaskapur og lýsir sér í þessu tiltæki gerir ekki annað en vekja fyrirlitningu mætra manna fyrir þeim, sem hafa slíkt í frammi, og spillir fyrir málstað þeirra.[x]

Svipaður sáttatónn var sleginn í Þjóðólfi. Þar var talað um að strákskapurinn, sem fólst í því að skera á fánalínurnar, væri með þeim hætti „að hann verður ekki eignaður siðuðu fólki, og algerlega rangt, að bendla hann við samtök nokkurs einstaks stjórnmálaflokks. Að minnsta kosti mun hið þjóðfræga „Fram“ nú svo vel siðað, að oddborgarar þeir og örfáir aðrir, sem þar sækja fundi, séu ekki að bollaleggja slíkar herferðir, eins og „Ingólfur“ virðist gefa í skyn. Svo lágt er félagsnefna þessi naumast fallin enn.“[xi]

– Ég veit nú ekki hvort á að kalla þetta sáttatón, sagði Dísa. – Mér finnst að í báðum blöðum sé verið að strjúka heimastjórnarmönnum öfugt. Og ef ég man rétt brást Björn Jónsson, ritstjóri Ísafoldar, við þessum skoðanaskiptum með því að túlka alla hvítbláu fánana í miðbænum á Jónasarafmælinu þannig að málstaður fánamanna hefði sigrað.

– Jú, það passar, sagði Finnur og dró fram eintak af Ísafold frá 23. nóvember. – Björn segir hér: „Eigendur þeirra, íslenzku fánanna, búnir og að ná sér allir aftur eftir konungsgeiginn í sumar, sem olli því, að þeir gengu svo margir úr skaftinu þá.“[xii]

„– Ég held að einhver sé á leiðinni upp stigann, sagði Beta. – Já, það er áreiðanlega mamma þín. Ég ætla að hjálpa henni að bera bakkana.

Frú Trotteville birtist von bráðar í dyrunum og bar bakka með fjórum rjúkandi súpudiskum. – Æ, mamma, ertu nú með súpu einu sinni enn? Hvenær fæ ég ætilega máltíð? Ég næ mér aldrei, ef ég fæ ekkert annað en súpu, sagði Finnur.

– Þið fáið steikta hænuunga á eftir, ef það bætir eitthvað úr skák, sagði móðir hans“ og hvarf aftur út um dyrnar.“ [xiii]

sigur Hvert var ég kominn? spurði Finnur.

Beta er fyrst til svars. – Þú varst að rifja upp þá fullyrðingu Ísafoldar að Íslendingar væru búnir að ná úr sér Danahrollinum eftir konungskomuna. Ég skil reyndar ekki svona umræðu. Það er eins og afhjúpun á líkneski Jónasar hafi verið stórpólitískt mál, enn einn liðurinn í því að ögra nýja danska kónginum okkar eða koma Hannesi Hafstein á kné, nema hvort tveggja sé. Og ég sem hélt að hugmyndin hefði einfaldlega verið að halda almennilega upp á afmæli þjóðskáldsins okkar. Hvað sagði ekki í ljóðinu hans Þorsteins Erlingssonar sem var sungið þegar styttan var afhjúpuð: „og sæll ertu, Jónas, því sólskin og blóm / þú söngst inn í dalina þína.“[xiv] Er það ekki mergurinn málsins?

– Hann var það kannski upphaflega, sagði Finnur íbygginn. En þetta dularfulla fánalínumál virðist hafa breytt merkingu hátíðarinnar og …

– Já, eða einfaldlega afhjúpað hana, greip Dísa fram í. – Hvítbláinn og Jónasarstyttan eru kannski tvær gjörólíkar táknmyndir en þær vísa á sama táknmiðið, sjálfstæði Íslands.

– Það er greinilegt að þú hefur lesið yfir þig af Umberto Eco, Dísa mín, sagði Finnur. Mér finnst málið vera miklu flóknara. Við megum ekki gleyma því að Hannes ráðherra átti sjálfur stóran þátt í því að hefja Jónas á stall sem þjóðskáld á sínum tíma, meðal annars með ljóði sínu, „Þar sem háir hólar …“ en einnig með inngangsritgerð sinni að ljóðmælum Jónasar 1883. Hugsanlega snýst þetta mál að eins miklu leyti um eignarhaldið á Jónasi Hallgrímssyni og íslenska hagsmunapólitík eins og fánann eða sambandsmálið. Það vill svo til að þeir sem hafa haft forystu fyrir samskotum vegna líkneskisins af Jónasi – menn eins og Bjarni Jónsson frá Vogi, sem var formaður samskotanefndarinnar, og Sigurður Eggerz, formaður Stúdentafélagsins  – eru í hópi helstu andstæðinga Hannesar.

– Nú er ég alveg hættur að fylgja þér, Finnur minn, sagði Lárus glaseygður um leið og hann teygði sig aftur eftir tóbakspungnum.  – Ég man ekki betur en að það hafi ríkt góð samstaða um samskotin og peningar borist úr flestum ef ekki öllum landsfjórðungum. Hvað er málið? Ætlaðirðu ekki að segja okkur hver hafi eyðilagt fánalínurnar?

– Hvert er málið? leiðréttir Finnur. – Málið, held ég, kemur skýrast fram í grein sem birtist í Reykjavík rúmri viku eftir Jónasarafmælið, þegar öll hin blöðin voru búin að fjalla um glæpinn. Þar segir í fyrsta lagi að það hafi verið skömm að því þegar skorið var á fánalínurnar að kvöldi 15. nóvember en um leið er minnt á að þetta sama kvöld „(eða um nóttina?) vóru ataðar skít rúður í ýmsum ljóslausum gluggum og skíðgarðar fram með lóðum“.[xv] Í öðru lagi segir að það hafi verið höfuðskömm þegar Ísafold fór að klína þessum viðburði á pólitíska andstæðinga sína, enda – og nú vitna ég beint í greinina í Reykjavík– „þótt strengir væru skornir líka úr dannebrogs-flöggum; þannig t.d. hjá konsúl Thomsen, Verzlunarskólanum, og Jóni kaupm[anni] Brynjólfssyni. Þessir menn hafa þó aldrei flaggað með flotaflagginu gríska.“[xvi] Í þriðja lagi hafi þeir Benedikt Sveinsson og Ari Jónsson bitið höfuðið af skömminni þegar þeir fóru að dylgja um það í Lögréttu að spellvirkin hefðu verið skipulögð á fundi hjá Fram, félagi heimastjórnarmanna. Og aftur vitna ég í greinina í Reykjavík:

Á fundinum í „Fram“ vóru viðstaddir nokkrir helztu embættismenn, andlegir og veraldlegir, ýmsir vandaðir og mikilsmetnir alþýðumenn, þar á meðal einn eða tveir bláfeldungar, en ekki nokkur einn maður sem nokkrum manni mundi detta í hug að bendla við götustrákaskap og óþverra, nema þeim Benedikt og Ara, sem, eins og „Lögr[étta]“ bendir á, hafa ef til vill unnið fúlvirki þetta sjálfir, til þess að geta komið með svívirðilegar getsakir á hendur mótstöðumönnum sínum, þá þurfa þeir eðlilega að geta komið þessum grun af sér yfir á saklausa mótstöðumenn.[xvii]

– Og er þetta þá niðurstaða þín? Að þeir Benedikt og Ari séu ábyrgir?

– Nei, auðvitað ekki, Dísa mín, svaraði Finnur. – Þær dylgjur eru eins fáránlegar eins og þær að félagar í Fram hafi dreift sér um bæinn að loknum fundi með kutana á lofti.

– Nótt hinna löngu hnífa. Rétt eins og í Þýskalandi, muldraði Lárus með hálflokaðan munninn, svo heltekinn af tóbaksnautn að hann gerði sér enga grein fyrir að hann var að vísa í válega atburði sem áttu sér ekki stað fyrr en hann var orðinn afi.

En Finnur lét það ekki slá sig út af laginu. – Mergurinn málsins er sá að þarna voru, að minnsta kosti upphaflega, einhverjir sem gengu berserksgang um bæinn og það var bara tilviljun að fánastangirnar skyldu verða fyrir barðinu á þeim, auk glugga og girðinga. Þetta var tveimur dögum áður en afhjúpa skyldi líkneskið af Jónasi. Skemmdarfýsn þessara manna beindist heldur ekkert sérstaklega að þeim sem hafa verið að flagga hvítbláanum. Við skulum athuga að daginn eftir að greinin birtist í Reykjavík dró Ingólfur í land með að hann hefði verið að ásaka fundarmenn í heimastjórnarfélaginu, enda hafði félagið ekki verið nafngreint heldur aðeins talað um að „liðið“ hefði sest á rökstóla og „þýin“ brýnt kuta sína eftir fundinn. Málsvörn þeirra Ingólfsmanna fólst í því að fullyrða að haldið hafi verið áfram að skera á fánalínurnar aðfaranótt laugardagsins en ég held að það sé alveg eins líklegt að ýmsir bæjarbúar hafi ekkert tekið eftir skemmdarverkunum frá fimmtudagskvöldinu fram til þess tíma að þeir bjuggu sig undir að flagga á laugardagsmorgninum. Reyndar fullyrtu þeir í Ingólfi að aðeins hafi verið skorið á fánalínur „hjá þeim sem vanir voru að veifa íslenzka fánanum, en ekki hjá neinum öðrum“ en mér finnast dæmin sem Reykjavík nefnir um hið gagnstæða fremur sannfærandi.[xviii]

– En hverjir eru þá hinir seku, fyrst þú vilt sýkna bæði heimastjórnarmenn og stjórnarandstæðingana? spurði Beta.

– Það er nefnilega það, sagði Finnur hugsi. – Auk þess að blaða í þessum dagblöðum hef ég stytt mér stundir í veikindunum núna í jólaleyfinu við að lesa gömul tölublöð af Æskunni. Meðal þess sem ég rakst á var smásagan „Álfarnir“ eftir þýska skáldið Ludwig Tieck, þann sama og þeir Jónas og Konráð Gíslason þýddu ævintýri eftir í Fjölni forðum daga. Í „Álfunum“ segir frá bændahjónum sem búa góðu búi í blómlegri sveit, það eina sem skyggir á er að þau telja að í nágrenni sínu búi sígaunar.

– Sígaunar, hvað er nú það eiginlega? stynur Lárus sem virðist lítið hafa fylgst með samræðum þeirra hinna um hríð.

– Samkvæmt Æskunni eru sígaunar „trantara lýður“, útskýrir Finnur, „sem hafast við sumpart á léttri handavinnu, bangarasmíði, prangi o.s.frv., sumpart á þjófnaði og ýmsum óknyttum“.[xix] Og mig grunar að þeir kunni að hafa verið á ferð hér í Reykjavík í síðasta mánuði, rétt eins og í flestum öðrum sögum Enid Blyton um okkur .“

Mynd ofan við grein: Frá Lækjargötu í Reykjavík, 16. nóvember 1907. (Ljósmynd í eigu safns Einars Jónssonar, ljósmyndari ókunnur).

[line]
[i] Enid Blyton, Dularfulli böggullinn, þýð. Andrés Kristjánsson, Reykjavík: Iðunn, 1969, 5.
[ii] Sama heimild, 14.
[iii] Lúalegt óþokkabragð“, Ísafold, 16. nóvember 1907, 286.
[iv] Flaggið.“ Reykjavík, 9. mars 1907, 53–4.
[v] Fánamáls-blekking“, Ísafold, 6. apríl 1907, 81.
[vi] Sigur stjórnarþýja á fána Íslands!Ingólfur,17. nóvember 1907, 182.
[vii] Sbr. Stefán Jónsson. Jóhannes á Borg. Minningar glímukappans, Reykjavík: Ægisútgáfan, 1964, 137.
[viii] Sbr. Guðjón Friðriksson, Ég elska þig stormur. Ævisaga Hannesar Hafstein. Reykjavík: Mál og menning, 2005, 494.
[ix]Vítaverður strákskapur.Lögrétta, 20. nóvember 1907, 214.
[x]Strákskapur.Fjallkonan, 21. nóvember 1907, 180.
[xi]Jónas Hallgrímsson. 100 ára afmæli. 1807-1907“, Þjóðólfur, 22. nóvember 1907, 201.
[xii]Jónasarafmælið“, Ísafold, 23. nóvember 1907, 289-290, hér 290.
[xiii] Blyton, Dularfulli böggullinn, 16.
[xiv]Jónas Hallgrímsson.“ Þjóðviljinn, 20. nóvember 1907, 209.
[xv]Skömm.“ Reykjavík, 23. nóvember 1907, 263–264, hér 264.
[xvi] Sama heimild.
[xvii] Sama heimild.
[xviii]Íslenski fáninn og „Lögrétta“.“ Ingólfur, 24. nóvember 1907, 188.
[xix] Tieck, Ludvig, „Álfarnir“, Æskan, 1. júní 1904, 72‒76, hér 72–73.

Um höfundinn
Jón Karl Helgason

Jón Karl Helgason

Jón Karl Helgason er prófessor í Íslensku sem öðru máli við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað fræðibækur og -greinar, fengist við þýðingar og komið að ritstjórn tímarita, bóka og vefja á Netinu. Sjá nánar

[fblike]

Deila