Framtíðarminni á Listasafni Reykjanesbæjar

Framtíðarminni – samsýning
Listasafn Reykjanesbæjar
01. 09. – 07. 11. 2016
Það var enginn á safninu í Keflavík. Ég var ekki viss um hvort mér leiddist eða nyti kyrrðarinnar inni í salnum. Sjálfsagt hið síðarnefnda því ég eyddi þar tæpum klukkutíma, flatmagaði á leðurferhyrningi og las sýningarskrána, talaði hátt í símann og horfði útum gluggann á meðan, grandskoðaði verkin og datt út fyrir framan myndbandsverkið.

Mér fannst vel valið saman á sýninguna. Talað er um í skránni að allir listamenn eigi það sameiginlegt að hafa á einhverjum tímapunkti átt heima í Keflavík eða hvað sem bærinn er kallaður, en einnig má tengja öll verkin tímanum sem hugtaki. Talað er um fræ sem hugmyndir, fræ og ræktun og kýr í ævintýrum og fannst mér skemmtilegt flæðið sem texti sýningarskrár notaði til að tengja verkin. Það spilaði vel á milli verkanna, verk Elsu Dórótheu vóg þungt í smæð sinni og náði góðu jafnvægi á móti leikandi teikningum Ingarafns sem spönnuðu meira veggpláss.

hugras_framtidarminni1
Ingirafn

Hringlaga verk Elsu Dórótheu sem sýningin síðan hringsnýst um í uppsetningu kallast á við verk kollega hennar sem vinna með samtímamálefni umhverfisins, endurunnin efni, lífkerfi, sjálfbærni og ræktun.
Teikningarnar fannst mér tímalausar og sameiginlegar. „Doodle“* þess sem getur leyft sér það því hann byggir á reynslu. Hringlaga verk Elsu Dórótheu sem sýningin síðan hringsnýst um í uppsetningu kallast á við verk kollega hennar sem vinna með samtímamálefni umhverfisins, endurunnin efni, lífkerfi, sjálfbærni og ræktun; verk Phoebe Washburn og Davids Nyzio þar sem hann t.d. vinnur með þörunga. Og þegar ég var byrjuð að tengja við góðan félagsskap datt mér líka í hug Sarah Sze og hennar lífrænt smíðuðu innsetningar úr fundnu efni. Í verki Elsu Dórótheu þótti mér vænt um að sjá grænar og rauðar linsubaunir, mínar uppáhalds baunir, ég fékk staðfestinguna á að dularfulla plantan í mínum eigin garði í sumar var kjúklingabaunaplanta. Ég fylltist líka stolti yfir mínum tveggja metra háu sólblómum þegar ég sá væskilslegar skuggamyndir sólblómanna í Keflavík og gat hrist höfuðið yfir því að þetta er auðvitað ekkert líf hér á þessu skeri. Verkið er fallegt, áhugavert og viðkvæmt og minnir á góða samvirkni garðræktar og myndlistar.

 

Elsa Dóróthea: Búgarður

hugras_framtidarminni3
Elsa Dóróthea Gísladóttir: Skin/Illumination 2016 – Krossviður, pappír, vír, lampi

Elsa Dóróthea er líka með lírukassa-skuggaleikhús á vegg. Áhorfendum býðst að snúa lírukassasveifinni og framkalla skuggaleikhúsið á veggnum, grönn form sem endurtaka sig, breyta lögun og eins og eru að fremja verknað en samt ekki. Fyrirmyndir skugganna eru gerðar úr vír og mynda lífræn abstrakt form að því er ég fékk best séð. Upp í hugann kom sirkus Alexanders Calders, kannski vegna víravirkisvinnunnar sem er grófgerð og augljós um leið og hún er fíngerð og dulúðug. Sirkus Calders byggir líka á hreyfingu sem framkvæmd er í rauntíma af manneskju sem ræður hraðanum og stefnunni, og einhverskonar frumstætt heimasmíðað vélavirki heillar mann hjá þeim báðum. Heillar mann kannski í því hvað það er kyrrlátt og einfalt, maður sér fyrir sér að maður gæti lagað það sjálfur ef það bilar. Snerting og nálægð við verkið ásamt óræðni þess virkaði vel.

Verk Doddu Maggýar er myndbandshljóðverk. Rakarastofu-snúningsskilti eða jólasleikjó-lífvera leitar um á skjánum með blómhauskúlu. Vindur upp á sig í spíral og skilur eftir sig hljóðhauskúlur á leiðinni. Það myndast dáleiðandi mynstur/regla, spírallinn minnti mig á eilífð og stækkandi alheiminn, hljómur alheims; rykkorn horfir, hlustar og tæmir hugann. Hljómur alheims segi ég og þegar ég hlustaði á verkið minntist ég útvarpsþáttar þarsem fjallað var um og spiluð hljóð nokkurra pláneta og stjarna. Hver þeirra gefur frá sér hljóð sem endurspeglar uppbyggingu þeirra, plánetur sem eru að mestu fljótandi form gefa frá sér tilheyrandi hljóð og einhver harðgerður hnötturinn gaf frá sér þungan takt eða bassa.

hugras_framtidarminni4
Dodda Maggý: Curlicue 2016 – Video/Tónlist, 11 min, lúppa

Stór málverk Kristins Más eru einskonar akkeri sýningarinnar við rýmið. Í fjarlægð getur maður horft á málverkið sem abstrakt heild. Það er jafnvægi í verkunum og ekki mikil spenna milli hlutfalla eða lita. Ákveðið sjálfsöryggi er í þessari uppbyggingu og litanotkun, en verkin eru nánast svarthvít og þeir litir sem notaðir eru poppa alls ekki upp eða skapa spennu, heldur örfína óró. Þegar nær kemur fer maður að lesa úr táknunum sem verkið er byggt upp af og getur gefið sér tíma í að spá í sína persónulegu túlkun á þeim og hvort sú túlkun nálgist á einhvern hátt forsendurnar sem listamaðurinn hafði við gerð þeirra. Techno punk kom upp í huga minn án nokkurra haldbærra raka.

hugras_framtidarminni_kristinn_mar
Kristinn Már Pálmason: Phantom 2016 – Akrýl og blek á striga

Sýningin birtir ágrip af látlausum og eftirtektarverðum alheimi sem áhorfandi heldur áfram að smíða þegar hann gengur heim til sín. Þessi heimur virkar sólid og ekki brothættur, hvort tveggja fíngerður og drjúgur. Veikleikar manns gagnvart tímanum, þessu volduga furðubæri, styrkjast og hin barnslega undrun gagnvart tímanum verður barnalegri. Það er alltaf sami dagurinn en samt ekki.

[line]

* Doodle er tekið úr ensku og er notað í þessu samhengi og oft í myndlistartali um þegar einhver situr og teiknar annars hugar. Er ekki með skipulagt verk í huga heldur er að láta hug og hönd reika.

Yfirlitsmynd fyrir ofan grein: Gígja Rós Þórarinsdóttir

Um höfundinn
Þórdís Aðalsteinsdóttir

Þórdís Aðalsteinsdóttir

Þórdís Aðalsteinsdóttir er myndlistarmaður. Hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 1999 og með MFA úr School of Visual Arts í NY 2003. Þórdís býr og starfar í New York og Reykjavík.

[fblike]

Deila