Njála var það heillin!

Eftirvæntingin hefur verið að byggjast upp allar götur frá því að það spurðist út að Þorleifur Arnarson ætlaði sér að setja Brennu-Njáls sögu á svið. Ég var með sjálfa mig í hugrænni atferlismeðferð lengi fyrir sýninguna því ég óttaðist að það yrði engin Njála í þessari sýningu eða að minnsta kosti engin sérstök virðing fyrir henni. Hvort tveggja reyndist rangt.

Aðferð

Það er ekki létt verk að búa til leikrit/leiksýningu úr Njálu. Brennu-Njáls saga skiptist í tvo hluta, fyrir og eftir kristnitöku, í henni fer að minnsta kosti sex meginsögum fram og fjölmörgum smærri, sagan er fjölmennust Íslendingasagna og mikilvægi hennar í menningararfinum verður ekki með orðum lýst. Þorleifur, Mikael Torfason og hópurinn fer þá leið að skipta sögunni upp eftir persónum, sögu Hrúts og Unnar, Hallgerðar, Gunnars, Njáls og Kára með kristnitökuna í miðjunni. Sömu aðferð beittu Ingólfur Örn Björgvinsson og Embla Ýr Bárudóttir í snilldargóðum myndasögubókum sínum fjórum um Njálu 2003-2007. Þessi aðferð gengur prýðilega upp í sýningunni.

Nú víkur sögunni vestur til Breiðafjarðardala

Sýningin fer rólega af stað, Sigrún Edda, sögumaður situr á háum stól í miðjum leikhópnum, svolítið eins og völva, hún byrjar að lesa fyrstu blaðsíðuna í Njáls sögu: „Mörður hét maður er kallaður var gígja …“ og þessi áhorfandi hugsaði: Fínt! bara 362 síður eftir … en þá steig Hrútur fram og svo Höskuldur og sýningin brast á. Fyrstu atriðin voru afar fyndin en smám saman þyngdist tónninn í sýningunni eftir því sem flækjurnar urðu örlagaþrungnari.

Hugras_leikdomur_Njala
Leikhópurinn er ekki stór, tíu manns að dönsurum frátöldum. Hallgerður er leikin af Unni Ösp Stefánsdóttur sem hefur þann glæsibrag og þá reisn sem þessi dramatíska persóna þarf að hafa og Valur Freyr Einarsson tók það að sér eftir umræður á sviðinu að leika Gunnar á Hlíðarenda, enda allra manna gjörvulegastur. Hann kemur sér í svo vond mál að hann þarf að leita ráða hjá hinum lögfróða Njáli vini sínum eins og kunnugt er. Innkoma Njáls á Bergþórshvoli í gervi Jabba the Hut úr Star Wars var eftirminnileg. Jabba er gáfuð geimvera, gjörspillt, samviskulaus og með ítök alls staðar. Þannig birtist Njáll í upphafi, leikinn af mikilli list og innsæi af Brynhildi Guðjónsdóttur en eftir því sem ráð hans gefast verr og ógæfa vina hans og skjólstæðinga vex, skreppur þessi hvelja saman og verður æ minni og sorgmæddari. Bergþóru lék Sigrún Edda Björnsdóttir en hennar hlutur var heldur lítill í sýningunni þó að segi í sögunni að hún hafi verið drengur góður. Enginn hefur kallað Skarphéðin Njálsson dreng góðan og Hjörtur Jóhann Jónsson sýndi hann sem þá blóðugu drápsmaskínu sem örlögin ætla honum að verða. Hann stendur manni fyrir hugskotssjónum lengi eftir sýninguna.

Hugras_leikdomur_Njala2

Sjónarspil

Njálusýningin er mikið sjónarspil og öllu til tjaldað. Stórskipið Titanic siglir inn á sviðið til þess eins að girndarráð Gunnars og Hallgerðar fái verðuga umgjörð í stafni skipsins og leikmynd Ilmar Stefánsdóttur er sjón sögu ríkari. Enn sem fyrr er lýsing Björns Bergsteins Guðmundsson óhemju áhrifamikil, og lokasenan fyrir hlé var eins og marglaga myndverk, eins og krónótóp þar sem mörg listasögutímabil eru til staðar samtímis og það sama gilti um fjölmargar frjóar vísanir og tilvitnanir í tónlistinni. Búningar Sunnevu Ásu Weisshappel og hin sjónræna vinna sýningarinnar verðskuldar sérstaka umfjöllun hér á Hugrás. Og enn hef ég ekkert sagt um þátt Ernu Ómarsdóttur og þann hluta íslenska dansflokksins sem lagði sitt af mörkum til sýningarinnar. Hallgerðardans þeirra var eftirminnilegur. Hann fjallaði um hár konunnar, menningarlega merkingu þess, mikilfenglega, ógnandi, dýrslega en fyrst og fremst máttuga. Tónlist Árna Heiðars Karlssonar og hljóðmynd Valdimars Jóhannssonar og Baldvins Þórs Magnússonar var áhrifamikil. Þó fannst mér það slysalegt eftir hlé að Árni Heiðar kynnti sjöundu píanósónötu Prokofiev á þann hátt að margir áhorfendur héldu að þetta væri grín og hluti af því karnívali sem áður var komið. Hlátrasköllin fylgdu því sónötunni inn í hinn áhrifamikla kristnitökuballett sem á eftir fór þar sem ofbeldi trúskiptanna er sýnt eins og hamskipti, sjálfviljug hjá sumum eða mjög svo nauðug.

Hápunktur

Seinni hluti sýningarinnar fjallaði um dráp Höskuldar, hins elskaða fóstursonar Njáls og staðgengil Gunnars í hjarta hans sem hefði aldrei verið veginn, ef Njáll hefði ekki tekið Gunnar fram yfir Skarphéðinn, ef Bergþóra hefði ekki reiðst og tekið til sinna ráða og ef sjálfsmynd Skarphéðins og bræðra hans væri ekki mótuð af samfélagi og réttarkerfi feðraveldis þar sem hin brenglaða, en sjálfum sér samkvæma. rökvísi heiðursmorða og fæðardeilna ríkir.
„Menn drepa ekki lengur í hefndarskyni, enda er hefndarskyldan ekki lengur við lýði hér á landi …“ segir Erna Ómarsdóttir í áhugaverðu viðtali í leikskrá en ég er hrædd um að hefndin sé sterkara afl og öflugri hugmyndafræði en nokkru sinni í fjöldamenningu, undirheimum og öfgahópum, alls staðar þar sem karlar gera völd sín yfir konum að hornsteini sjálfsvirðingar og réttinum til valda. Þessi hugmyndafræði leiðir til Njálsbrennu og það er harmrænt innsæi Njáls og örlög að stöðva þetta ferli með því að neita útgöngu úr Bergþórshvoli og dæma sig og alla fjölskyldu sína til dauða.
Í seinni hluta sýningarinnar fannst mér vanta þennan eða viðlíka fókus og undirbyggingin sem komin var í fyrri hlutanum var hársbreidd frá því að leysast upp en sýningin náði vopnum sínum og endaði á kynngimagnaðri lokasenu þar sem Karlakór Kópavogs lagði sitt af mörkum til tilfinningaþrungins endis.

Sturm und Drang

Það er klárlega ýmislegt flippað í þessari sýningu, sumt mætti kannski skera burt og/eða þjappa þegar sýningin þroskast – en ég veit það ekki samt. Sýningin er metnaðarfull tilraun með miðaldabókmenntir okkar sem eru endalaus uppspretta merkingar fyrir jafn hæft listafólk og hér leggur sitt að mörkum. Sýningin er endurritun á Njálu fyrir ungmenni á öllum aldri, full af leikgleði, hugmyndaauðgi, ástríðu, (fífl)dirfsku. Þetta er hörkuverk – skemmtilegt og hressandi í myrkrinu.

Ps. Engu að síður vil ég taka undir orð vinar míns: Látum árið 2016 verða ár hins skáldsögulausa leikhúss á Íslandi!

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila