Ömmur og fjölbreytni sögunnar

[x_text]Fyrirlestraröð RIKK Margar myndir ömmu sprengdi alla sali utan af sér og sló öll aðsóknarmet segir Erla Hulda Halldórsdóttir ein af fyrirlesurunum.

Hugrás lék forvitni á að vita meira um þessa fyrirlestraröð og hvernig stæði á þessum vinsældum. Við hittum Erlu Huldu á sýningunni Hvað er svona merkilegt við það á Þjóðminjasafni Íslands og má sjá nokkrar uppstillingar úr þeirri áhugaverðu sýningu í bakgrunni myndbandsins.

Við sáum fyrir okkur að þetta yrðu ekki kaldar, fræðilegar frásagnir heldur persónulegar sögur og að áheyrendur gætu tengt við þær; mögulega fundið sínar eigin ömmur í þessum sögum og speglað sína eigin reynslu í þeim.
„Það kom okkur ekki á óvart að ömmurnar væru vinsælar, við áttum alveg von á því, en þarna kemur fram sterk þörf fólks til að ræða um ömmur og fá svolítið aðra sýn á söguna. Fyrirlestraröðin gengur út á það að segja sögur af ömmum sem koma úr mismunandi stéttum, áttu mismunandi líf, lifðu mismunandi tíma, því fræðimennirnir sem tóku þátt eru á ýmsum aldri, þannig að við fengjum svolítið fjölbreytta mynd af lífi kvenna á 20. öld. Við sáum fyrir okkur að þetta yrðu ekki kaldar, fræðilegar frásagnir heldur persónulegar sögur og að áheyrendur gætu tengt við þær; mögulega fundið sínar eigin ömmur í þessum sögum og speglað sína eigin reynslu í þeim. Það held ég að hafi gerst, og að ömmurnar snerti einhvern streng í brjósti flestra. Þó að við höfum ekki öll þekkt ömmur okkar þá eiga ömmur sérstakan stað í hjarta fólks. Sumar ólu barnabörnin sín beinlínis upp eða tóku mikla ábyrgð á uppeldi þeirra og höfðu mótandi áhrif. Svo held ég reyndar líka, sem sagnfræðingur, að fólk þrái að heyra aðra sögu en þessa venjulegu sem þú lest í sögubókum eða heyrir í fjölmiðlum. Þá eru þetta yfirleitt karlarnir með bindin, ríkisstjórnir og allt það, sem er líka merkilegt, en það vantar einhvern veginn þetta persónulega, og kannski líka þetta kvenlega í sögunni; annan reynsluheim.“

Í sínum fyrirlestri fjallaði Erla Hulda um söguna og konur; hlut kvenna í sagnfræði og þá áskorun að skrifa og fjalla um ömmu sína, þ.e. hvaða frásagnarammar eru í boði til að fjalla um líf sem ekki passar inn í hefðbundnar frásagnir. Inn í það fléttaði hún frásagnir af ömmum sínum, sem voru sveitakonur vestur á Snæfellsnesi og í tvo ættliði vinnukonur sem „lentu“ upp í hjá húsbændum. Hún segir það reyndar ekkert nýtt að hún dragi ömmur sínar þannig fram. Hún hafi jafnvel notað í rannsóknir eina langömmu sína, sem var ein af þeim konum sem lærði að skrifa sjálf; eftir að henni var gefin forskrift af góðhjörtuðum vinnumanni æfði hún sig í að draga stafi í sand. Erla Hulda ræddi það m.a. hvað reki fólk til þess að fara af stað í slíkar rannsóknir og hvers vegna hún sé sjálf að vinna með sögu kvenna.

Það sem mig langar að gera er einmitt að hjálpa konum upp úr hvíslaraholunni. Svo þær séu ekki bara einhvers staðar að hvísla eitthvað heldur skili sér inn í sagnfræðina og söguritunina sem þátttakendur og þeir gerendur sem þær voru í raunveruleikanum.
„Er ég að leita réttlætis fyrir formæður mínar? Ömmufyrirlestrarnir gera það einmitt að einhverju leyti. Og já, ég held að ég hafi þessa ríku þörf – kannski gerir vinnukonublóðið það að verkum að mig langar til að skrifa um þær og leita þeirra. Þegar við Irma Erlingsdóttir opnuðum þessa fyrirlestraröð þá fjallaði hún um sínar eigin ömmur en einnig frönsku fræðikonuna Hélène Cixous, sem skrifaði frægt leikrit [L´Histoire (que l´on ne connaîtra jamais)] þar sem hún spáir í einmitt þetta, hvar eru konurnar í sögunni. Þetta er mjög magnað leikrit heyrist mér, þar sem konur stökkva fram og taka sér pláss í sögunni og meira að segja hvíslarinn, sem er kona, fer að taka þátt í leiksýningunni. Það sem mig langar að gera er einmitt að hjálpa konum upp úr hvíslaraholunni. Svo þær séu ekki bara einhvers staðar að hvísla eitthvað heldur skili sér inn í sagnfræðina og söguritunina sem þátttakendur og þeir gerendur sem þær voru í raunveruleikanum. Það hef ég reynt að gera, og ég held að það sé kannski einmitt það sem þessir fyrirlestrar gera fyrir fólk; að ömmurnar verða með í þessari stóru, fjölbreyttu sögu sem sagan okkar er og á að vera. Ég held að fólk vilji kannski gera ömmum og konum hærra undir höfði í sögunni. Þær hafa ekki fengið athygli fyrir þessi hefðbundnu, venjulegu störf, sem yfirleitt var þeirra framlag til samfélagsins. Það er eitt af markmiðunum með ömmusögum, að ýta undir breytingu á því hvernig við hugsum um og skynjum sögu kvenna. Ég held að þetta spili allt saman; þessi persónulega þörf og löngun til þess að þekkja ömmur okkar og hin mörgu andlit þeirra. Við kannski þekkjum ömmu bara á einn hátt og svo þegar við förum að rannsaka hana þá er hún miklu flóknari og fjölbreyttari. Það sáum við í þessum fyrirlestrum. Fræðimenn áttu margir í miklum erfiðleikum með að glíma við ömmurnar, af því þetta er svo persónulegt. Þess vegna finnst kannski hinum áhugasama borgara gaman að hlusta, því hann er jafnvel líka að hlusta á eitthvað um ömmu sína í leiðinni og speglar hana í þessu.“


Fyrirlestraröðin fékk ákveðið framhaldslíf þegar ákveðið var að fara með hana út á land, en nú þegar hafa fyrirlestrar verið haldnir á Ísafirði, Akureyri, Höfn í Hornafirði og Skagaströnd. Í tengslum við sýninguna var einnig farið af stað með söfnun á ömmusögum á vegum þjóðháttasafns Þjóðminjasafnsins, Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum og Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands. Þangað getur fólk sett langar sögur og stuttar og minningabrot af ömmum sínum. Svo er bók í farvatninu þar sem birtur verður stór hluti fyrirlestranna.

Sýning Þjóðminjasafnsins Hvað er svona merkilegt við það er framlag til aldarafmælis kosningaréttar íslenskra kvenna. Sjónum er beint að aðstæðum kvenna á Íslandi á liðinni öld. Velt er upp spurningum um hvað hefur áunnist á þessum 100 árum og hvert sé stefnt og dregin upp mynd af ólíkum störfum íslenskra kvenna og baráttu þeirra fyrir réttindum sínum í eina öld.[/x_text]


[x_text][fblike][/x_text]

Deila