Ritið: 2/2012 um kirkju í krísu

Annað hefti Ritsins 2012 er komið út. Þema Ritsins að þessu sinni er kirkja í krísu og rita þau Hjalti Hugason, Sigurjón Árni Eyjólfsson, Sólveig Anna Bóasdóttir og Pétur Pétursson þemagreinar.

Hjalti Hugason fjallar um á hvern hátt evangelísk-lútherska þjóðkirkjan á Íslandi brást við nútímanum um aldamótin 1900 og fram yfir miðja 20. öld. Á þessu tímabili mætti kirkjan tveimur krísum, annars vegar þeirri heimsmynd sem fylgdi nútímanum og nefna má náttúruvísindalega raunhyggju og hins vegar krísunni við upphaf kalda stríðsins.

Grein Sigurjóns Árna Eyjólfssonar dregur upp mynd af íslensku þjóðkirkjunni nú um stundir og kirkjuskilningi þekktra samtímaguðfræðinga.

Sólveig Anna Bóasdóttir ritar þriðju þemagreinina og fjallar um kirkjuna í víðum skilningi hugtaksins, sem hina alþjóðlegu kirkjustofnun, einstakar kirkjur og íslensku þjóðkirkjuna sérstaklega. Hún telur að kirkjan standi nú frammi fyrir afgerandi vali nú um stundir sem snýst um hvort hún treystir sér í róttæka endurskoðun á gagnkynhneigðarhyggju kristinnar hefðar eða ekki.

Fjórða þemagreinin beinir sjónum að tveimur helstu krísum íslenskrar kirkjusögu frá einveldi til lýðveldis. Pétur Pétursson metur það svo að helstu kreppur innan kristinsdómsins eigi sér tvenns konar upptök: Annars vegar í spennu milli ólíkra túlkana á Kristi og boðskap hans og hins vegar í mismunandi skilningi á því hvernig trúin eigi að tengjast umheiminum og samfélaginu.

Í heftinu eru birtar fjórar greinar utan þema. Benedikt Hjartarson fjallar um yfirlýsingar evrópsku framúrstefnunnar og galdratrú í rússneskum fútúrisma og symbólisma. Björn Ægir Norðfjörð veltir upp kostum þess og göllum að skilgreina kvikmynd á borð við The King of Kings sem Jesúmynd. Heiða Jóhannsdóttir beinir sjónum að fyrstu bresku fræðslumyndunum sem ætlað var að stuðla að forvörnum gegn kynsjúkdómum. Og Alda Björk Valdimarsdóttir og Guðni Elísson fara ofan í saumana á útrásardraumum Hallgríms Helgasonar og draga fram á hvaða hátt þeir beinast að íslensku listalífi og greinast frá algengari yfirlýsingum stjórnmálamanna og fjármálagreifa um efnahagsvöxt.

Þá er að lokum birt þýdd grein eftir kaþólska guðfræðinginn Elizabeth A. Johnson sem ber heitið ,,Glötun og endurheimt sköpunarverksins í kristinni hefð“ þar sem hún gagnrýnir mannmiðlægni kristinnar guðfræði og boðar þess í stað lífhyggjuguðfræði og siðfræði sem gengur út á að allt líf sé gott í sjálfu sér, ekki bara líf mannsins.

Ritstjórar Ritsins:2/2012 eru Sólveig Anna Bóasdóttir og Þröstur Helgason.