Kindahjörð

Marserað í hjörðinni

Um höfundinn
Eyja M. Brynjarsdóttir

Eyja M. Brynjarsdóttir

Eyja M. Brynjarsdóttir er prófessor í heimspeki við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar eru félagsleg frumspeki, femínísk heimspeki og hagnýt siðfræði.

Bertrand Russell
Bertrand Russell skartaði mottu

Í ágúst 1914 sendi breski heimspekingurinn Bertrand Russell tímaritinu The Nation bréf þar sem hann lýsti andstöðu sinni við stríðsþátttöku Breta og skrifaði meðal annars:

Fyrir mánuði lifðu þjóðir Evrópu í friðsemd og virðingu: ef Englendingur drap Þjóðverja var hann hengdur. Ef Englendingur drepur Þjóðverja núna, eða ef Þjóðverji drepur Englending, er hann föðurlandsvinur. Við rennum gráðugum augum yfir dagblöðin í leit að fréttum af slátrunum og fögnum þegar við lesum um saklausa unga menn, í blindri hlýðni við heim skipananna, stráfellda svo þúsundum skiptir af vélbyssunum í Liege. Þeir sem fylgdust með mannfjöldanum í Lundúnum síðustu kvöldin fyrir stríðsyfirlýsinguna sáu hvernig heil þjóð sem hingað til hafði verið friðsöm og mannúðleg steyptist á fáeinum dögum niður hina bröttu brekku til villimennsku og leysti á augabragði úr haldi hatur og blóðþorsta gagnstætt við það sem samfélagsvefurinn hafði verið ofinn úr.[1]

Russell tengir hér stríðsrekstur við hjarðhegðun. Fleiri voru í svipuðum hugleiðingum, árið 1919 skrifaði bandaríski heimspekingurinn Ira Howerth grein um það sem hann kallaði hjarðeðli mannsins og áhrif þess í stríði.[2] Sú hugmynd að maðurinn hefði sams konar eðli og mörg önnur hjarðdýr hafði þá verið sett fram af sálfræðingum á borð við William McDougall og Wilfred Trotter. Howerth talaði um að sökum hjarðeðlisins mætti búast við því að þjóðin sameinaðist hugsunarlaust gegn óvininum óháð réttmæti málstaðarins. Sem hjörð værum við trúgjörn og gagnrýnislaus og fylgdum leiðtogum í blindni. Þetta gæfi leiðtogunum mikið vald því rétt eins og þeir gætu leitt gætu þeir afvegaleitt.

Íslendingar standa ekki í stríðsrekstri, í það minnsta ekki á eigin vegum—herlaus þjóðin. Varla getum við þó þakkað það skorti á hjarðeðli, við gerum okkur sérstakt far um að rækta hjá okkur hjarðhegðunina, samsömum okkur hópnum og gerum okkur að góðu svo til hvaða vitleysu sem er ef liðsandinn er leiðarljósið.

Þetta sést meðal annars í framreiðslu ýmissa baráttumála og góðgerðarstarfs. Skoðum til dæmis hinn svokallaða mottumars. Undir yfirskriftinni Karlmenn og krabbamein eru menn hvattir til að safna yfirvaraskeggi (svokallaðri mottu) allan marsmánuð og birta myndir af skeggvextinum með reglulegu millibili á þar til gerðri vefsíðu á vegum Krabbameinsfélagsins sem hlýtur það fé sem safnast við áheit vina og vandamanna. Nú kann einhver að velta fyrir sér hvernig söfnun yfirvaraskeggs í mánuð tengist baráttu gegn krabbameini. Á heimasíðu átaksins er að finna eftirfarandi skýringu: „Af hverju yfirvaraskegg? Yfirvaraskegg er táknrænt. Það auðveldar umræðu um það sem erfitt er að ræða. Krabbamein í karlmönnum hefur verið feimnismál allt of lengi. Safnaðu mottu og vertu hvatning fyrir aðra að gera það sama.“ Líklega er óþarfi að hafa orð á hinu augljósa: að þetta skýrir hvorki eitt né neitt og vekur bara fleiri spurningar. Fyrir hvað stendur hið táknræna yfirvaraskegg? Hvernig auðveldar yfirvaraskegg erfiða umræðu? Hvers vegna ættu menn að vilja hvetja aðra til að safna mottum? Skyldu þær vera krabbameinshemjandi?

Sauðahjörð
Sauðahjörð

Ólíklegt má teljast að eitthvað í þessari torræðu skýringu sé mönnum sérstakur hvati til að taka þátt í mottumars. Málið snýst um allt annað. Hér gefst kostur á að brjóta gegn samfélagsviðmiðum en þó með fullri velþóknun fjöldans. Yfirvaraskegg hafa lítið átt upp á pallborðið meðal íslenskra karlmanna undanfarna áratugi en þarna er hægt að leika sér að því að safna slíku skeggi og þar að auki skemmta sér við að birta af því myndir. Maður sem tæki upp á að safna yfirvaraskeggi og birta reglulega af því myndir á einhverjum öðrum tíma ársins þætti stórfurðulegur, jafnvel varasamur. Um leið er hægt að láta sér líða vel með allt saman því að þetta er allt gert til að styrkja gott málefni sem engin almennileg manneskja vill amast við. Væntanlega vita flestir þátttakendur og stuðningsmenn þeirra að féð verði á einhvern hátt notað til að sporna gegn krabbameini í karlmönnum, en hafa kannski ekki svo miklu meiri vitneskju um það, enda er lýsingin á heimasíðu átaksins ekki ítarleg: „Fjármunir sem safnast í átakinu Karlmenn og krabbamein verða notaðir í rannsóknir, forvarnir, stuðning og ýmis önnur verkefni sem tengjast baráttunni við krabbamein í karlmönnum.”[3] En miðað við hve mikið meira fer fyrir fjörinu og skemmtuninni en umræðu um málefnið sem á að styrkja verður óneitanlega freistandi að velta því fyrir sér hvort tekið yrði eftir því ef ofangreind lýsing væri til dæmis svona í staðinn: „Fjármunir sem safnast í átakinu Karlmenn og krabbamein verða notaðir til að styrkja þróun á efnavopnum.”

Hér kemur annað einkenni við sögu; sú tilhneiging að gera allt að skemmtun. Mottumars er svo sniðugur, af því að þá fara karlarnir allir saman í einhvers konar trúðaleik. Þeir eru jú svo asnalegir með motturnar, alveg eins og einhverjir Austur-Evrópubúar sem fylgjast ekki með tískunni. Vissulega er það gott að fólk skemmti sér og sé ánægt með lífið og tilveruna. En þegar stuðið og stemningin eru í algleymingi er hætt við að gagnrýnisleysið verði allsráðandi, hvort sem um er að ræða þetta tiltekna átak eða önnur fyrirbæri þar sem allt á að vera sniðugt og skemmtilegt. Gagnrýni er ekki færð í orð því hún gæti spillt fjörinu og samkenndinni í hópnum, eða henni er illa tekið þegar einhver setur hana fram. Gagnrýnin er kæfð í jákvæðni.

Og þá er rétt að nefna annan mars, þann sem kenndur er við hugvísindi. Á Hugvísindaþingi, sem haldið er í tveimur áföngum nú í mars, gefst þátttakendum kostur á að leggja fram veggspjöld til kynningar á rannsóknum sínum. Samkvæmt fyrirmælum um veggspjöldin er ætlast til að notað sé sérstakt sniðmát Hugvísindasviðs. Hvers vegna? Verða veggspjöldin skýrari og skiljanlegri ef þau eru í stíl hvert við annað? Er fræðilegur grundvöllur fyrir því að nota staðlað sniðmát? Ég þykist geta svarað hvoru tveggja ótvírætt neitandi. Sjálfsagt getur það þótt smart og lekkert ef öll veggspjöldin falla vel hvert að öðru en sá grunur læðist að manni að hér sé gengið út frá því að stöðlun og samræming hljóti alltaf að vera af hinu góða. Eins og við vitum öll sem fylgst höfum með heiminum innan háskólanna undanfarin ár hefur þar átt sér stað mikil þróun í átt til stöðlunar og samræmingar sem ekki sér fyrir endann á. Hin ýmsu Evrópuríki hafa samræmt prófgráður sínar, einingakerfi hafa verið samræmd og skipulag og lýsingar námskeiða tekin í gegn og felld að viðmiðum kenndum við Bologna, svo fátt eitt sé nefnt. Sjálfsagt er óhjákvæmilegt að vera með í þessu öllu saman og ýmsa kosti má finna, svo sem að þetta geri nemendum auðveldara um vik að flytja sig milli skóla og landa. En þrátt fyrir kostina glatast ýmislegt gott í leiðinni, sérkenni geta verið eftirsóknarverð. Og stundum er ekkert annað á ferðinni en samræming samræmingarinnar vegna, enn ein birtingarmynd hjarðeðlisins, og þá er rétt að hugsa sig tvisvar um, ef ekki þrisvar.

Eyja M. Brynjarsdóttir,
nýdoktor við Heimspekistofnun


[1] B. Russell (1991/1914), „Letter to the Nation 12 August 1914“, M. Rosen & D. Widgery (ritstj.), The Chatto Book of Dissent, London: Chatto & Windus Ltd, bls. 320-321.

[2] I.W. Howerth (1919), „The Great War and the Instinct of the Herd”, International Journal of Ethics 29(2), bls. 174-187.

[3]  Um nýtingu fjár úr söfnun síðasta árs, sjá http://www.krabb.is/Assets/markadssvid/mottumars/kk%20n%C3%BDting%20fj%C3%A1rins-3.pdf


Comments

2 responses to “Marserað í hjörðinni”

  1. Margrét Guðmundsdóttir Avatar
    Margrét Guðmundsdóttir

    Af hverju líta allar greinarnar í Hug eins út?

  2. Eyja M. Brynjarsdóttir Avatar
    Eyja M. Brynjarsdóttir

    Sæl Margrét! Í ritstjóratíð minni voru allar greinarnar í Hug vissulega með sömu leturgerð og einhver samræming var á fyrirkomulagi fyrirsagna og þess háttar. Þar má segja að ég hafi í blindni haldið í ákveðna hefð sem hafði skapast áður en ég tók við, ég sá ekki ástæðu til að breyta út af þeirri hefð og geri satt að segja ráð fyrir að tilraun til þess hefði mætt talsverðri mótstöðu hjá útgefendum. Ég geri ráð fyrir að það hefði skapað talsvert umstang að biðja sérhvern höfund að velja sér leturgerð fyrir greinina sína, auk þess sem umbrotsmaðurinn hefði gengið af göflunum. Ég var ekki með staðlað tilvísanakerfi og leyfði höfundum að velja sér kerfi. Ég hugleiddi þó að gera það þar sem hin mörgu tilvísanakerfi sem í gangi voru sköpuðu aukavinnu bæði fyrir ritstjóra og prófarkalesara. Nýr ritstjóri hefur nú tekið þá ákvörðun að hafa samræmt tilvísanakerfi.

    Ég er ekki viss um að sömu ástæður eigi við um plakötin á Hugvísindaþingi og um Hug. Á plakötum er framsetning mun myndrænni en á heimspekigreinum þar sem aðaláhersla er á textann sjálfan og innihaldið og höfundum er yfirleitt nokkuð sama um uppsetninguna. Mikið ósamræmi í leturgerð og uppsetningu í bók sem helguð er ritmáli getur truflað lesandann og dregið athyglina frá innihaldinu. Á veggspjaldi getur höfundur hins vegar viljað koma sérstökum hlutum á framfæri með myndrænni framsetningu og textinn er margfalt styttri. En kannski er það bara þröngsýni að vilja hafa staðlað letur á heimspekiritum, hver veit?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *