Eitur! Ör vil ég dansa heitur, segir Steingrímur J. Sigfússon er hann boðar til nýs næturdansleiks. Svartálfurinn sem hímdi einn úti í horni meðan hinir dönsuðu við Rauðagullssinfóníu góðærisáranna, langt fram eftir nóttum, kynnir nýja hljómsveit á sviðið. Tvö norsk olíufyrirtæki ætla að leika tilbrigði við gamla verkið og kalla það Svartagullssinfóníuna. Og ekki að ástæðulausu. Hér er víst ef til vill alveg áreiðanlega kannski allt fullt af skínandi svartagulli. Þúsund og ein hráolíusvört nótt, langt undir sjónum, miðja vegu milli Íslands og Jan Mayen, rétt norðan við norðurheimsskautsbauginn (eins þversagnakennt og það hljómar) liggur samanþjappað myrkur árþúsunda gamalla hitabeltisskóga. Ó, en spennandi! Dönsum, dönsum! Má ég bjóða í dans?
Fjölmiðlarnir hafa fjallað talsvert um verkið og netmiðlar leikið brot úr því. Allt mjög jákvætt. Það er því óhætt að byrja að æfa gamla takta, smyrja ryðgaðar lærleggslegurnar inni í rykföllnum grópum mjaðmagrindanna svo svartálfabossarnir geti enn á ný sveigst fram og aftur í næturmyrkrinu. Kominn tími til, eftir alla neikvæðnina, allt röflið um slælega stjórnun Rauðagullssinfóníunnar: Ómögulegt að dansa við svo hægan flutning … Sumarið ekki nógu heitt … Nótt allra nátta nálgast …
Er dansinn að hætta? – spyrjum við og tungan losnar. Eitur! Er það viðvörunarorð, hvatning eða tryllt tilhlökkun? Meira eitur! Engin veit en við dönsum samt, yst út í nóttina svarta. Dönsum, dönsum! – við eitraðan hjartslátt ormsins, úti á Dökkumiðum, undir djúpum og úfnum sæ. Þó ekki alveg öll því myrkrið sem vísar oss veginn villir öðrum sýn, sem líklega er sjaldan boðið upp í dans, og tala um að ný gullsinfónía sé óþörf. Að við getum vel dansað án hennar, að við gerum það raunar á hverjum degi og nefna hundraðlitan haustskógarsinfón í Mosfellsdalnum, málstað sínum til stuðnings. Þessir aðilar ganga jafnvel svo langt að segja að Svartagullssinfónían og dansinn sem henni fylgir muni færa yfir okkur nótt allra nátta. Að heimurinn hangi á bláþræði, morgunsólin rísi aldrei aftur heldur muni lúra svört, líkt og útþaninn augasteinn, við blóðrauðan sjóndeildarhringinn.
Ha, ha – nú svæfi ég þennan leiðindahóp og allt verður dauðahljótt, hugsar Steingrímur um nótt. Hann tekur það fram að einungis sé um æfingu á Svartagullssinfóníunni að ræða. Og jafnvel þótt æfingin fari vel sé það ekki ávísun á frekari flutning verksins. Það vita allir, og Steingrímur vísast best, að þegar við svartálfarnir byrjum að dansa verðum við ekki stöðvaðir.
Leave a Reply