Hversdagsleikinn undirstrikaður

Um miðjan október opnaði sýningin Millibil eftir Þórdísi Jóhannesdóttur í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Hún stendur yfir til 22. desember og er frítt inn á safnið.

Sunna Austmann Bjarnadóttir er með BA gráðu í myndlist, stundar meistaranám í listfræði við Háskóla Íslands og starfar sem bóksali.

Ljósmyndin í víðara samhengi

Verkin á Millibil ögra hinni hefðbundnu birtingarmynd ljósmynda. Við fyrstu sýn virðist um skúlptúra eða lágmyndir að ræða, verkin eru flest þrívíð eða eru fest upp í dálítilli fjarlægð við vegginn sem skapar skugga í anda þrívíðra verka. En við nánari skoðun kemur í ljós að um er að ræða ljósmyndir. Verkin vekja upp forvitni hjá áhorfandanum og draga hann nær.  Þórdís vinnur alfarið með ljósmyndir en hún fer þó ekki hefðbundnar leiðir í vinnslu þeirra. Því ljósmyndin er aðeins grunnur verka Þórdísar. Hún lítur á hana sem efnivið frekar en fullklárað verk. Hún finnur myndinni form, sem ræðst eftir innihaldi hverrar ljósmyndar. Undirlag myndanna er ýmist krossviður, álplötur eða plexígler sem er mótað og beygt svo að verkin eru einhvers staðar á milli tví- og þrívíddar.[1]

Að fanga millibil tímans

Líkt og í fyrri verkum Þórdísar sækir hún myndefni sitt í hversdagsleikann og vísar titill sýningarinnar, Millibil, til þess. Í sýningarskrá fjallar hún á listilegan hátt um að flest allt fyrirfinnist í millibilinu, hvort sem það séu persónuleikar fólks eða meginþorri tímans. Hún segir að „Millibilið sé hvorki stórbrotið né ómerkilegt. Það er uppáhellt kaffi. Vanilluís. Skýjaður sumardagur í lúmskum vindi.“ Minnir þetta mig á leik sem ég stundaði sem unglingur: að para saman tvo hversdagslega hluti eða „hógvær kombó“ – mjólkurkex og vatn, svart te og hafragraut. En hún bendir einnig á mikilvægi millibilsins, að þar sé allt það sem skipti máli, eitthvað sem geti reynst dýrmætt þegar fram líða stundir. Sýningartextinn varpar nýju ljósi á verkin og í raun sýningarrýmið. Verk Þórdísar fanga umrædd millibil og er framsetning þeirra draumkennd. Ljósmyndirnar virðast vera prentaðar á glærur sem eru svo festar á plexígler sem búið er að forma. Eitt af mínum uppáhaldsverkum á sýningunni er mynd á glæru og gegnsæju plexígleri af skjólvegg sem sniðinn hefur verið að húsveggnum sem hann stendur við. Plexíglerið er einnig mótað og því myndast fjölbreyttir og óvæntir skuggar í verkinu en einnig á vegg sýningarsalarins. Horn, form og skuggar magnast upp við þessa formun Þórdísar á ljósmyndunum og ýtir undir tilfinninguna að margt einstakt búi í millibilinu. Meðal þess sem Þórdís vill fanga er samband ljóss og skugga á mörkum hins manngerða og hins náttúrulega. Má í því sambandi nefna annað verk sem sýnir trjágróður en ljósmyndin virðist vera tekin út um glugga sem múrsteinsveggur endurspeglast á. Græni litur laufblaðanna kastast á vegginn fyrir aftan verkið þar sem það er beygt og rennur múrsteinsveggurinn á myndinni saman við vegg sýningarsalarins. Líkt og í plexíglers-verkum bandaríska listamannsins Donalds Judd þá skapar brot ljóssins á glerinu í þessu verki nýja vídd í formi litaðra skugga. Vegna forma verka Þórdísar þá breytast þau einnig, líkt og verk Judd, eftir staðsetningu áhorfandans.

Millibil í hávaða

Sýningarrýmið sem Millibil stendur í er staðsett milli tveggja annarra sýningarrýma og er því hálfgert millibil sjálft. Það er áhugavert að í hinum rýmunum eru hljóðverk. Engin skil eru milli rýmanna, fyrir utan svört tjöld milli sýningar Þórdísar og annars rýmisins. Þar með flæðir hljóð frá hinum sýningunum inn í sýningu Þórdísar. Hljóðin koma saman í millibilinu, sem ýtir enn fremur undir þá tilfinningu að í verkum Þórdísar sé verið að stöðva ákveðin augnablik í umhverfi fullu af havaríi og fyrirlátum. Á meðan hinir salirnir kalla strax eftir athygli eru millibil Þórdísar (hógværu kombóin) gjörn á að fara fram hjá fólki þrátt fyrir fegurð sína. Hljóðmengun, ef svo má segja, milli verka er því miður ansi algeng hérlendis. Hljóðverk og vídeóverk með hljóði taka yfir rými, þá sérstaklega á samsýningum þar sem mörg verk keppast um athygli. Hljóðeinangrun og hurðir milli rýma myndu almennt bæta upplifun sýningargesta og er það nokkuð sem sýningarstjórar ættu að hafa á bak við eyrað. Engin af þessum þremur sýningum á Listasafni Árnesinga græðir á umræddri hljóðmengun svo erfitt er að skilja hvers vegna ekkert hafi verið gert til að koma í veg fyrir hana. Listaverk þessara þriggja sýninga renna saman og hafa áhrif á hvort annað, sem getur í sumum tilfellum virkað vel en á það ekki við í þessu tilfelli. Ég tel því að verk Þórdísar myndu njóta sín miklu betur í þögn svo að hægt væri að virða fyrir sér hversdagsleikann óáreittan.

Nostalgía skugganna

Verk sýningarinnar Millibil vöktu upp nostalgíska tilfinningu hjá mér, eflaust vegna þess þær minntu mig á hreyfðar filmuljósmyndir sem ég skapaði óvart á unglingsárum mínum. Því þessi „óvart“ augnablik eru gersemar. Þórdísi tekst einstaklega vel að festa þetta millibilsástand á filmu, hvort sem það felst í endurspeglun á glerrúðu eða formföstum skugga veggs, og dregur með þrívíddinni fram fegurð þeirra og dýrmæti.


[1] Sýningarskrá Millibil, Listasafn Árnesinga, 2024.

Sunna Austmann Bjarnadóttir er með BA gráðu í myndlist, stundar meistaranám í listfræði við Háskóla Íslands og starfar sem bóksali.
Pistillinn var unninn í námskeiðinu Vinnustofa í menningarblaðamennsku við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.