Streym mér ei

Endurbætur og endurútgáfur

Að sumu leyti eru hlutir flóknari í dag en áður fyrr. Mér er hugsað til þess þegar ég sat fyrir framan sjónvarpið sem drengur og flakkaði stöðvanna á milli. Stundum var hreinlega ekkert af viti í sjónvarpinu. Þá endaði ég jafnvel á Vörutorgi og horfði á auglýsingar fyrir líkamsræktarvörur þrátt fyrir að vera bæði of ungur fyrir líkamsrækt og með öllu peningalaus.

Guðmundur Atli Hlynsson skrifar um endurútgáfur kvikmynda og sjónvarpsþáttaraða. Hann er með bakgrunn í íslensku og fjölmiðlafræði og stundar nú meistaranám í menningarmiðlun við Háskóla Íslands.
Hann er sjálftitlaður kvikmyndanördi sem hefur undanfarið starfað við kvikmyndagerð.

Það er einfaldlega ekki séns að krakkar nú á dögum sitji fyrir framan sjónvarpið og horfi á Vörutorg. Hvers vegna ættirðu að horfa á slíkt sorp þegar þú getur horft á hvað sem er? Stöðvaflakkið hefur vikið fyrir veituvafrinu með þeim auknu lífsgæðum sem því fylgir. Sjónvarpsheimurinn er orðinn stærri, það er ekki lengur aðeins í boði línuleg dagskrá heldur stöðugt framboð af öllu mögulegu á alls konar veitum. Á sama tíma og við höfum aukið val um hvað birtist á skjánum þá höfum við minna val um „hvernig“ það birtist. Lýsandi dæmi um þetta er skortur á íslenskri talsetningu á streymisveitunni Disney+. Þar inni er að finna nokkurn veginn allar Disney-myndirnar en aðeins hluti efnisins er talsettur á íslensku. Lilja Dögg Alfreðsdóttir,  menningar- og ferðamálaráðherra, hefur reyndar ýtt á eftir Disney um að bjóða upp á íslenska talsetningu sem virðist hafa skilað sér að einhverju marki. En betur má ef duga skal.

Endurútgáfur kvikmynda og sjónvarpsþáttaraða eru ekki nýjar af nálinni. Áður fyrr áttu slíkar útgáfur einkum við um nýjar áþreifanlegar útgáfur á DVD, Blu-Ray eða spólu. Þær endurútgáfur sem eru mér ofarlega í huga eru svokallaðar endurbættar útgáfur (e. remastered versions). Hugtakið vísar til þess að búið sé að vinna með myndefnið og uppfæra það að einhverju leyti. Mjög gjarnan hefur verið bætt upplausn efnis sem vísar til fínleika myndarinnar á skjánum eða svokallaðs pixlafjölda (Pixlar eru minnstu sjálfstæðu einingar stafræns skjás og er einn rammi af stafrænni mynd með mismiklum pixlafjölda. Það sem við köllum hágæða myndefni (e. high-definition) er allt efni sem er í 720p eða hærri upplausn. 720p myndefni er 1280 × 720 sem samsvarar 720 pixlum á hæð og 1280 pixlum á breidd).

Í endurbættum útgáfum er einnig oft búið að breyta hlutföllum myndefnisins. Algengustu hlutföllin eru 4:3, sem voru ráðandi á árum áður, og 16:9 sem er nokkurn veginn staðall sjónvarpa í dag. Gjarnan þegar eldri sjónvarpsþáttaraðir eru gefnar út í endurbættri útgáfu eru þær færðar úr 4:3 í 16:9. Stundum þýðir þetta að toppur og botn myndefnis er hreinlega skorinn af svo myndin sé breiðari. Í sumum tilfellum var upprunalega verkið kvikmyndað í breiðari hlutföllum en 4:3 og skorið niður fyrir frumsýningu. En hvaða ansans máli skiptir þetta? Er ekki bara flott mál að myndefnið henti betur en áður nútímasjónvörpum?

Vandmeðfarið myndefni

Á síðastliðnum árum hafa komið út nokkrar umdeildar endurbættar útgáfur efnis á streymisveitum. Kveikjan að þessum pistli er nýleg endurútgáfa þáttanna Homicide: Life on the Street á streymisveitunni Peacock. Hingað til hafa þættirnir aðeins verið til í lélegri upplausn og 4:3 hlutföllum en eru nú sýndir í 4K upplausn, eða u.þ.b. 3840 × 2160 pixlum. Endurbættri upplausninni fagna ég en því miður hefur verið átt við hlutföllin. Rammarnir eru nú stærri og opnari en áður. Afleiðingarnar eru þær að sýn kvikmyndatökumannsins tapast enda var efnið tekið upp með það í huga að það yrði klippt og sýnt í 4:3. Sumar senur sem áður vöktu innilokunarkennd eða óhugnað missa áhrifamátt sinn við breytinguna.

Homicide eru fjarri því að vera fyrstu þættirnir sem lenda í svipaðri meðferð. Friends og Buffy The Vampire Slayer hafa til dæmis verið endurbættir á síðustu árum og færðir úr 4:3 yfir í 16:9. Í þessum tilvikum var upprunalega myndefnið breiðara og því þurfti að klippa hliðarnar af fyrir frumsýningu. Míkrafónar, ljósastandar og jafnvel endamörk sviðsins sjást í „endurbættu“ útgáfunum í ákveðnum skotum og geta kippt áhorfendum út úr glápástandinu inn í raunveruleika kvikmyndagerðarinnar.

Slæmar endurbætur á Buffy The Vampire Slayer. Í endurbættri gerð (til hægri) má greinilega sjá ljósabúnað. Þetta tiltekna dæmi er úr 19. þætti í annarri seríu.

Endurbætt útgáfa Simpsons-fjölskyldunnar á Disney+ er dæmi um það þegar botn og toppur myndefnis er klipptur af til þess að sýna efnið í 16:9. Þessi aðferð er eiginlega alveg galin. Hluti af myndinni tapast og stundum jafnvel lykilatriði í einstökum senum. Í tilfelli Simpsons er þetta reyndar svo slæmt að heilu brandararnir hverfa þar sem áhorfendur skortir bókstaflega heildarmyndina. Það sem áður var grín verður að engu. Þessi endurútgáfa vakti reyndar svo neikvæð viðbrögð að Disney streymisveitan bætti við möguleikanum að horfa á þættina í upphaflega hlutfallinu.

Slæmar endurbætur á Simpsons-fjölskyldunni. Í endurbættri gerð (til hægri) vantar hluta af myndefninu sem veldur því að grín tapast. Þetta tiltekna dæmi er úr 16. þætti í fjórðu seríu.

Kannski er Simpsons-fjölskyldan á Disney+ dæmi um hvert þessi þróun ætti að stefna. Áhorfendum verði í vaxandi mæli einnig gefinn kostur á að horfa á efni eins og það átti alltaf að líta út. Stóri vandinn við streymisveiturnar er að þær kynna ekki fyrir áhorfendum hvaða útgáfur efnisins þær eru að sýna hverju sinni. Því miður efast ég einhvern veginn um að veiturnar fari í auknum mæli að bjóða upp á meira en eitt eintak af myndefninu sem er í boði, enda krefst það meiri hýsingar og útgjalda fyrir fyrirtækin. En eitt veit ég – þegar ég flakkaði sjónvarpsstöðvanna á milli í æsku var ég svo sannarlega ekki meðvitaður um hvaða útgáfa var á skjánum. Ætli Vörutorg hafi verið í 4:3?

Heimildaskrá:

Guðmundur Atli Hlynsson er með bakgrunn í íslensku og fjölmiðlafræði og stundar nú meistaranám í menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Hann er sjálftitlaður kvikmyndanördi sem hefur undanfarið starfað við kvikmyndagerð.

Pistillinn var unninn í námskeiðinu Vinnustofa í menningarblaðamennsku við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.