Hvernig líður þeim, sem leggur öruggur út á ísinn, sem hann treystir svo vel, að hann notar ekki broddstaf, en fellur svo allt í einu í feigðarvök. Hvernig líður þeim, sem vaknar af værum blundi og sér ekkert umhverfis sig annað en eld og reyk. Hvernig líður þeim, sem gengur í náttmyrkri öruggur um rétta leið, en fellur andvaralaus fram af björgum ósyndur í ískaldan sjó.
(Jófríður Þorkelsdóttir, förukona)
Saga förukvenna er samofin sögu íslensku þjóðarinnar. Þá sögu hef ég rannsakað að hluta, fyrst í BA-ritgerð minni, Sytrur minninga úr Mýrdalnum: Rannsókn á munnlegri sögu (2013),[i] en einnig með öðrum nálgunum s.s. heimildarmynd um síðustu förukonur Íslands sem lokið verður við fyrir árslok. Síðasta verk mitt þar sem förukonur voru viðfangsefni mitt, er grein sem birt var eftir mig í fræðitímartinu Feminist Research nú í sumar (15. júní). Greinin bar yfirskriftina „Drifting: Feminist Oral History and the Study of the Last Female Drifters in Iceland“. Efni greinarinnar var í grunninn byggt á ýmsum rituðum heimildum og ennfremur viðtölum sem ég tók við átján einstaklinga sem mundu eftir förukonum úr barnæsku sinni. Í þessum skrifum mínum hér á Hugrás legg ég út frá þeim greinarskrifum.
Í grein minni „Drifting: Feminist Oral History and the Study of the Last Female Drifters in Iceland“ var ímynd förukvenna á Íslandi í forgrunni.[ii] Í reynd var þessi nýja nálgun að skilgreina og greina ímynd förukvenna nauðsynleg. Með því að fá þann skilning á förukonugoðsögninni var kleift að skyggnast á bakvið þá ímynd. Það gerði ég með því að styðjast við reynsluheim kvenna á Íslandi.
Í því skyni að greina ímynd förukvenna notaðist ég við aðferðir minningafræðinnar, auk þess sem ég sótti í sarp þjóðsagnanna. Í þeim tilgangi að öðlast skilning á reynsluheimi förukvenna notaðist ég við viðtöl sem ég tók við konur sem höfðu kynnst förukonum, börn að aldri. Þær sögur þeirra fullorðnu kvenna sem þekkja reynsluheim kvenna, vörpuðu mikilvægu ljósi á ýmsa ráðandi þætti er vörðuðu líf förukvenna.
Förukonur/farandkonur/göngukonur/flökkukonur/umferðakonur voru heimilislausar konur sem flökkuðu á milli bæja og báðu sér beina, þær síðustu fram eftir 20. öldinni. Konur sem lifðu á útmörkum hins karllæga bændasamfélags og jafnframt utan einkasviðs kvenna (e. private sphere), heimilisins. Þessi staða farandkvennanna á skilum náttúrunnar og samfélagsins kallaði fram persónusköpun þeirra í sögunni. Við rannsókn mína kom nefnilega í ljós að lýsingar á förukonum eru alla jafnan með sama móti, líkt og verið sé að lýsa sömu konunni, þrátt fyrir að persónurnar og tilvist þeirra í tíma og rúmi væri mismunandi. Hér er um að ræða ímynd af förukonu sem teygir sig allt frá Helgu Bárðardóttur í Bárðar sögu Snæfellsáss til síðustu förukonunnar Möngu (1869-1962) sem frá segir í bók Ómars Ragnarssonar Manga með svartan vanga: Sagan öll. Ímynd förukvenna hefur ákveðna samsvörun í kvenpersónum þjóðsagna okkar og þar liggja um leið ákveðnar rætur sem fólk speglaði líf þessara kvenna í. Huldukonur, tröllskessur og útilegukonur eru dæmi um slíkar sögupersónur. Frásagnarháttur sagnanna er líka gjarnan með sama móti. Saga kvennanna er oftast tvískipt; sagan fyrir flakkið og sagan eftir flakkið. Fyrir flakkið var konunum var lýst sem fögrum og efnilegum konum sem sinntu kvenhlutverkum móðurinnar og ástkonunnar, áður en þær urðu förukonur, urðu náttúra. Ástæðan fyrir því að konurnar fóru að flakka liggur ekki alltaf fyrir, en ástarsorg er algeng ástæða sem nefnd er til sögunnar. Ástarsorgin risti þá einatt fögru konuna þeim rúnum að eftir sat kerling er klæddist mörgum lögum af tötrum, með harðneskjulegt andlit og brátt skap: Kona án manns er kona án róta.
Rannsóknin dró fram fleiri ástæður er lágu að baki því hversu samstíga lýsingarnar á förukonunum voru, nefnilega þá einföldu staðreynd að sjónarhorn barna er um marg einsleitt og að barnæskuminningar eru ráðandi í tiltækum heimildum um förukonur fyrr og síðar. Minningar einstaklinga um göngukonur sem komu á bernskuheimili þeirra sýna okkur líkt og minningarfræðin tiltekur, að börn hafa þann eiginleika að festa sér í minni það sem er óvenjulegt. Vegna þessa gat ég sett upp rannsókn er byggði á viðtölum við fullorðna einstaklinga sem höfðu kynnst förukonum í barnæsku sinni. Í kjölfarið hófst för mín sem sagnfræðingur inn í hina lifandi sögu með aðferðum munnlegrar sögu. Heimur kvennatjáningar opnaðist og kynni tókust við möguleikana sem fólgnir eru í því að nýta sér þá reynslu sem þar er að finna.
Kvennaviðtölin (e. woman-on-woman interview) að baki rannsókn minni á síðustu förukonum Íslands endurspegla mátt þess að konur geti fjallað sín á milli um málefni kvenna á grunni reynsluheims kvenna. Þeim viðtölum líkti ég í greininni við aðrar þekktar tjáningaleiðir kvenna á Íslandi til að miðla reynsluheimi sínum, nefnilega sagnadansa fyrri alda og #Metoo atburðasagnir nútímans. Rýmið sem konur skapa með þessum leiðum skapa í senn samstöðu um málefni þeirra og draga fram upplýsingar er lúta að þeim með skýrari hætti en ella væri mögulegt. Vettvangurinn og viðtalið lúta eðli kvenna er þátt taka, og á þeim grunni þróaði ég aðferðafræði í tengslum við kvennaviðtöl. Aðferðafræði sem grundvallaðist á sýn Virginia Woolf á mikilvægi samtalslistarinnar þ.m.t. þess kjörlendis sem hún sprettur upp af. En sú aðferðafræði mín byggðist einnig á skrifum fræðikvenna á borð við Erlu Huldu Halldórsdóttir[iii] og Helgu Kress[iiii] um tjáningu og þagnir kvenna í Íslandssögunni. Þessi aðferðafræði ljáir hinni rituðu sögu sjónarhorn kvenna sem reynsluheimur kvenna gefur einn innsýn í.
Kynningarmyndskeið fyrir heimildarmyndina um síðustu förukonur Íslands
Mynd 1. Vigdís Ingvadóttir (1864-1957).
Mynd 2. Líkan sem ég gerði sem sýnir efnislegt frásagnarrými kvenna, s.s. kvennaviðtal, sagnadans kvenna, samtal milli kvenna.
Heimildir:
[i] Erla Hulda Halldórsdóttir, „The Narrative of Silence“, Life Writing 7 (1) (2010), 37-50.
[ii] Helga Kress, Máttugar meyjar. Íslensk fornbókmenntasaga. (Reykjavík: Háskólaútgáfan 1993).
[iii] Ritgerðin, Sytrur minninga úr Mýrdalnum: Rannsókn á munnlegri sögu (2013), var skrifuð undir leiðsögn Þorsteins Helgasonar.
[iiii] Þess ber þó að geta að ímynd förukvenna var aukinheldur viðfangsefni mitt í BA-ritgerð í sagnfræði.
[fblike]
Deila