Loftsteinn lendir í mýri í Bandaríkjunum og myndar út frá sér gagnsæjan hjúp sem stækkar hægt og bítandi. Þegar hermaðurinn Kane (Oscar Isaac) snýr veikur heim til konu sinnar, Lenu (Natalie Portman), eftir dvöl í hjúpnum ákveður hún að fara þangað sjálf ásamt fjórum öðrum konum í von um að finna lækningu fyrir hann. Það hefur þó aðeins einn maður átt afturkvæmt úr martraðarkenndum veruleika hjúpsins og það er Kane sjálfur.
Annihilation (2018, Alex Garland) átti upphaflega að vera sýnd í kvikmyndahúsum um allan heim en þegar framleiðendur sáu myndina fannst þeim breytinga vera þörf. Garland gaf sig hins vegar ekki og fékk framleiðandann Scott Rudin til liðs við sig, en sá síðarnefndi hafði hinn mikilvæga klippirétt, og stóð hann með Garland gegn stúdíókerfinu sem vildi breyta bæði persónunum og endalokunum. Fór svo að myndinni var einungis dreift í kvikmyndahús í Bandaríkjunum en Netflix sá síðar um að gera myndina aðgengilega á alþjóðavísu. Því fylgir mikill missir þar sem flatskjáum tekst svo sannarlega ekki að endurskapa töfra breiðtjaldsins. Ógnvænleiki „glitursins“ (e. Shimmer) minnkar samhliða því að merkingarmiðuð smáatriði hverfa inn í heildarmyndina. Líkt og í Ex Machina (2014), fyrri mynd Garlands, hefst frásögnin án mikils undirbúnings en síðar er fyllt í eyður hennar með endurlitum, og kann þessi aðferð að virka misjafnlega á áhorfendur. Ljóst er í öllu falli að tilfinningaleg hleðsla myndarinnar verður dreifðari fyrir vikið og þótt Garland komist upp með þetta er jafnljóst að um vandmeðfarna frásagnarbyggingu er að ræða sem lakari leikstjórar ættu að forðast.
Kvikmyndin er aðlöguð af Garland sjálfum úr fyrstu bókinni um Suðurjaðarinn (e. Southern Reach), þríleik eftir Jeff VanderMeer. Garland á jafnframt rætur að rekja til bókmennta eftir að hafa stigið fram á sviðið með metsölubókinni The Beach (sem þýdd var á íslensku árið 2000 af Birni Þór Vilhjálmssyni). Það er þessi bakgrunnur sem gerir Garland forvitnilegan þar sem myndir hans eru stútfullar af tæknibrellum en hann sjálfur einblínir hinsvegar meira á persónurnar. Í hans augum er hið skrifaða orð mikilvægara en innihaldslausir tölvufimleikar. Persónur Garlands þurfa að horfast í augu við aðstæður sem þær ráða ekki við og er Annihilation þar engin undantekning. Hún fjallar hins vegar ekki um þrautseigju mannsandans andspænis einhverju sem höfundur hefur fyrir fram ákveðið að sé hægt að sigra heldur um það hvernig fólk bregst við þegar það veit að það er sigrað. Í stuttu máli sagt þá eru engir Fáfnisbanar í heimi Garlands.
Þótt konurnar fimm haldi í hjúpinn til að leita svara við spurningum einblínir Garland alfarið á ferðalag þeirra fremur en áfangastaðinn. Allar hafa þær sitt sérsvið og þykja hæfar til að takast á við hið óþekkta en eins og áður segir eru hér engir Fáfnisbanar á ferð og reynir verkefnið svo sannarlega á þær. Meginógnin er hins vegar ekki falin í martröðum „glitursins“, heldur konunum sjálfum, viðhorfum þeirra til eigin sjálfs og hvor annarrar. Þær búa allar yfir göllum og myndar Garland auk þess snilldarleg tengsl milli þessara skapgerðarbresta og krabbameins sem sjúkdóms – sem jafnframt er gegnumgangandi tákn myndarinnar. Í fyrsta skotinu er Jörðin sýnd eins og fruma sem er sýkt af loftsteininum og sjá áhorfendur skömmu síðar Lenu kenna háskólanemum um krabbamein. Síðar tengir hún þau örlög – að eldast og deyja – við galla í frumuuppbyggingu en þeir sem þekkja krabbamein af eigin raun vita að það er eins og að verða fyrir loftstein. Spurningin sem vaknar er einfaldlega þessi: Afhverju ég?
Útskýringuna má auðvitað rekja til margra líffræðilegra þátta (BRCA genið kemur sérstaklega til hugar) þó svo við höfum ekki svarið á reiðum höndum þegar þetta hendir okkur. Spurningin sem Garland setur fram er þó umfangsmeiri en sem nemur sjúkdómnum sjálfum og á við um okkur öll: Afhverju gerði ég þetta?
Það er nefnilega svo, í kvikmyndum og raunveruleikanum, að við spyrjum okkur sjaldan þessarar spurningar. Manneskjur halda með sjálfum sér og réttlæta gjörðir sínar með flóknum hætti. Ef þær gera mistök þá er það vegna aðstæðna; einhvers ókennilegs sem lét þær breyta rangt. Þótt persónur í kvikmyndum séu skáldaðar og búi því ekki yfir sjálfstæðum vilja má spyrja hvort raunveruleikinn sé svo ýkja ólíkur. Sannleikurinn sem við seljum okkur er að við höfum sjálfstæðan og frjálsan vilja og ef við leggjum okkur fram þá sé allt mögulegt. Þegar við fáum stöðuhækkun í vinnunni eða skorum mark í fótbolta er það vegna þess að við lögðum hart að okkur og verðskuldum velgengnina – en þegar illa gengur köstum við sannleikanum okkar út í hafsauga og leitum að öðrum skýringum. Spurningin er sjaldan: Afhverju gerði ég þetta? Eða, Afhverju lagði ég ekki harðar að mér? Ábyrgðin hverfur inní innihaldslausar afsakanir sem rýma fallega við stjórnmálamenninguna. Þá er auðvelt að afsala sér hinum sjálfstæða og frjálsa vilja.
Garland setur þessa hugrænu ferla í líffræðilegt samhengi. Persónur hans reyna að horfast í augu við að þær eru gallaðar en vita ekki afhverju. Með hverri ákvörðuninni sem konurnar taka verður erfiðara fyrir þær að taka þá næstu því þær vita ekki hvort ákvarðanirnar séu yfir höfuð réttar og efinn byrjar að smita út frá sér eins og krabbamein. Þeir sem fara of djúpt ofan í þessa kanínuholu munu á endanum eflaust ríghalda í möntru Decartes; „Cogito, ergo sum“, – Ég hugsa, þess vegna er ég. Spurningin í Annihilation er hinsvegar: Ef ég er ekki ég, hvað er ég?
[fblike]
Deila