„Þeir létu Fjallkonuna hopa af hólmi“ – lýðveldishátíðin 1944 og veisluskrautið

Fyrir mörgum árum var mér sagt að lýðveldishátíðin á Þingvöllum 1944 hefði verið svo mikil karlasamkoma að fjallkonan, sem þar átti að stíga á stokk, hefði gleymst inni í jeppa þar sem hún átti að sitja af sér rigninguna, og aldrei komið fram. Þessi lygilega frásögn er staðreynd. Fjallkonan, táknmynd Íslands, var aldrei kölluð upp á svið. Þetta vakti talsverða athygli og jafnvel reiði, ekki síst meðal kvenna.

Hátíðin á Þingvöllum var þaulskipulögð. Skipuð hafði verið fimm karla þjóðhátíðarnefnd sem hélt öllum þráðum saman, eins og lesa má í bókinni Lýðveldishátíðin 1944, sem kom út strax árið eftir. Ráðamenn höfðu greinilega ekkert lært af Alþingishátíðinni 1930. Þá höfðu konur farið formlega fram á að eiga hlutdeild í skipulagningu hátíðahaldanna á Þingvöllum en ekki haft erindi sem erfiði, eins og Sigríður Matthíasdóttir fjallar um í bók sinni Hinn sanni Íslendingur. Konur voru grautfúlar eftir þá hátíð – ein lýsti því svo að þeirra hlutverk hefði ekki verið annað en það að „„prýða vellina““, líkt og konur forðum. Og á landsfundi kvenna, sem haldinn var á Þingvöllum stuttu eftir Alþingishátíðina, gagnrýndi Laufey Valdimarsdóttir dagblöðin fyrir að gefa starfi kvenna ekki gaum í hátíðarútgáfum sínum, það væri eins og þær hefðu aldrei gert neitt (Sigríður Matthíasdóttir, Hinn sanni Íslendingur, 162–172).

Nú var semsagt önnur hátíð í vændum, stofnun lýðveldisins Íslands, með tilheyrandi hátíðahöldum um allt land, í Reykjavík og á Þingvöllum. Þar, á Lögbergi, hófst hátíðin samkvæmt dagskrá kl. 13:15 þann 17. júní með þingfundi, ræðum, sálmasöng, kjöri forseta Íslands, kveðjum frá fulltrúum erlendra fulltrúa. Og, undir lok þessa hluta dagskrárinnar, átti vera fánahylling þar sem fjallkonan ávarpaði fánann og syngja átti ljóð Einars Benediktssonar „Rís þú unga Íslands merki“ (sem er reyndar tileinkað öðrum fána, Hvítbláum).

Fjallkonan Kristjana Milla Thorsteinsson á Þingvöllum, tilbúin að stíga út í rigninguna. Kristjana Milla varð síðar þekkt athafnakona í íslensku samfélagi.

Fjallkonan hafði verið valin af kostgæfni, dótturdóttir Hannesar Hafstein, Kristjana Milla Thorsteinsson, 18 ára. Kristjana kom til Þingvalla daginn áður og hafði herbergi í Valhöll. Hún skartaði fögrum skautbúningi, eins og sést á ljósmynd sem tekin var af henni þennan dag, og fékk hún hjálp Kristólínu Kragh, fyrstu konunnar sem opnaði hárgreiðslustofu á Íslandi, við að skauta. Þegar leið nær stóru stundinni var Kristjönu ekið að hátíðarpallinum þar sem hún sat inni í bíl og beið eftir að vera kölluð upp á pallinn („Fjallkonan“). Í Útvarpstíðindum er hátíðarhöldunum lýst, líkt og í beinni útsendingu. Komið er að því að:

hér skuli fara fram fánahylling, — að fjallkonan unga ávarpi fánann … Við bíðum fjallkonunnar. Frétzt, að það sé kornung stúlka, dótturdóttir Hannesar Hafsteins, og að hún bíði í Valhöll, klædd forkunnar fögrum skautbúningi, baldýrðum, beri á höfði hið drifhvíta skaut og gullspöng um enni. En hún kemur eigi í augsýn. Aðrir segja, að hún sitji hér skammt frá í bifreið og dragi sig í hlé veðurs vegna. Hvað dvelur hana? (20. nóv. 1944, 148).

Það er skemmst frá því að segja að „hún kemur ekki okkar langþráða fjallkona, fulltrúi konunnar, sem hér átti að setja ógleymanlegan svip á þessa hátíð“. Það er Gunnar M. Magnúss sem lýsir hér vonbrigðum sínum og verður á orði vísa Einars Benediktssonar: Allra þjóða efst á blað / oss þá menning setti, / þegar stóð vort alþing að / Íslands kvenna rétti.

Kristjana situr í bílnum og bíður, en ekkert gerist. „Veðrið var víst þannig“, segir hún í viðtali hálfri öld síðar, „að þeir sem stjórnuðu hátíðarhöldunum ákváðu að sleppa þætti Fjallkonunnar á hátíðinni“ („Fjallkonan“). Veðrið er einmitt skýringin sem gefin er í áðurnefndri bók um lýðveldishátíðina. Þar segir að vegna þess að veður hafði „versnað, var ekki unnt að láta hina skrýddu „Fjallkonu“ koma fram“ (201). Raunar virðist fánahyllingin sjálf hafa farið fram á öðrum tíma í dagskránni en til stóð og það var formaður þjóðhátíðarnefndar sem sagði nokkur orð meðan fáninn var dreginn að húni, svo var áðurnefnt ljóð Einars Benediktssonar sungið. Af orðum fjallkonunnar hér að framan er augljóst að hún var ekki með í ráðum, ekki spurð hvort hún treysti sér til þess að standa í rigningunni og hylla fánann. Eftir henni höfðu konur beðið, meðal annars Rannveig Kristjánsdóttir húsmæðrakennari, einn stofnenda kvennatímaritisins Melkorku og ritstjóri kvennasíðu Þjóðviljans. „Ég hlakkaði til“, skrifar hún á kvennasíðuna fimm dögum eftir hátíðarhöldin, „að sjá fjallkonuna bjóða veðrinu byrginn, brosa gegn regninu, kasta höfði við storminum, hefja raust sína, hylla fánann og hjálpa til að auka ennþá sólskinið í hugum fólksins“ (Þjóðviljinn 22. júní).

Fjarvera fjallkonunnar vakti mikla óánægju ef marka má það sem skrifað er í blöðin. Skopblaðið Spegillinn (XIX:13) segir að hátíðargestir hafi verið „snuðaðir“ um fjallkonuna sem var „standbæ í skautbúningi og öllu saman“ og birtir skemmtilega skopmynd af því sem einkum virðast breið bök frakkaklæddra karlmanna í slagviðri. Aftan við þá stendur fjallkonan ein í hælaskóm, undir regnhlíf með faldinn fjúkandi, eins og hún hafi bara gleymst. Morgunblaðið (20. júní, 6) talar um að mistök hafi orðið vegna þess að dagkskrárliðurinn hafi verið færður til og Fálkinn (30. júní) birtir forsíðumynd af Kristjönu Millu í skautbúningnum ásamt texta þar sem talað er um mistök. Í öllum þessum umfjöllunum er skýrt tekið fram að hér sé ekki við fjallkonuna (Kristjönu Millu) að sakast.

Spegillinn dregur upp þessa skopmynd af fjallkonunni, gleymdri og afskiptri að baki frakka- og hattaklæddra karla.

Í augum sumra kvenna var þó ekki um einföld mistök að ræða heldur óvirðingu og jaðarsetningu sem átti rætur í aldagamalli kúgun kvenna og stöðu þeirra í samfélaginu. Um það skrifar Rannveig Kristjánsdóttir hárbeitta grein á kvennasíðu Þjóðviljans undir heitinu „Fjallkonan hopar af hólmi“. Þar ræðir Rannveig um fjarveru fjallkonunnar, þessarar táknmyndar þjóðarinnar, og setur í stærra samhengi jafnréttis og hvaða hlutdeild konur ættu í stjórn landsins, sem var konum mjög hugleikið á þessum árum. Á kvennasíðunni var til dæmis þennan sama dag grein eftir Dýrleif Árnadóttur, aðra róttæka baráttukonu, þar sem hún spyr í fyrirsögn „Hver verður réttarstaða konunnar í íslenzka lýðveldinu“ (Þjóðviljinn 22. júní).

Í augum Rannveigar er fjarvera fjallkonunnar táknræn, hún er meðhöndluð eins og hvert annað veisluskraut sem ekki má blotna í rigningunni þótt aðrir hafi ekki látið það á sig fá. Hún spyr hvort „kvennaminna hugsjónir karlmannanna [séu] búnar að villa þeim svo sýn, að þeir sjá nú ekkert annað í þessu kvenlega tákni fósturjarðarinnar en viðkvæma fegurð sem ekki má vökna.“ Með þessu skýtur hún föstum skotum á karlmennina og öll þau fögru orð sem þeir viðhöfðu um konur á hátíðarstundum, farandi með sín kvennaminni. Þetta klúður allt saman skrifar Rannveig á „skort hinnar karlsetnu hátíðarnefndar á hinni háttmetnu dyggð kynsins — rökréttri hugsun.“

Og það var fleira sem snart Rannveigu illa og gerði fjarveru fjallkonunnar enn táknrænni. „Fjallkonan hopaði“, skrifar hún, „og kvæði Huldu var lesið af karlmanni. Er þá veizluskrautinu einnig synjað máls, eða töldu menn að kvenrödd mundi spilla helgi þingstaðarins?“ Skáldkonan Hulda, Unnur Benediktsdóttir Bjarklind, hafði nefnilega unnið ljóðasamkeppni í tilefni lýðveldisstofnunarinnar (ásamt Jóhannesi úr Kötlum) og var kvæði hennar lesið á Þingvöllum. Það gerði Hulda ekki sjálf heldur karlmaður. Hvers vegna í ósköpunum, spyr Rannveig, var ekki kona fengin til að lesa kvæðið hafi skáldkonan ekki viljað gera það sjálf (hafi henni boðist það – Jóhannes úr Kötlum las sjálfur sitt kvæði). Skýringuna á þessari jaðarsetningu kvenna, að rödd þeirra fékk ekki að heyrast, rekur Rannveig til þess að konur hafi ekki verið nógu duglegar að nýta sér borgaraleg réttindi sín og taka þátt í opinberum málum, engin kona situr t.d. á þingi minnir hún lesendur sína á og þá er auðvelt að ganga fram hjá þeim við skipun í nefndir og þess háttar. Eins og varðandi lýðveldishátíðina. Og þar af leiðandi sjást konur ekki á myndum af hátíðinni, segir hún, nema sem einstaka andlit í mannfjöldanum. Eftir hundrað ár, skrifar hún, verður spurt hvort engar konur hafi verið á Íslandi. Þetta mat Rannveigar má í sjálfu sér staðfesta með því að fletta skoða myndir sem birtar eru frá Þingvöllum (og t.d. Reykjavík) í Lýðveldishátíðinni 1944. Og orð hennar kallast á við óánægju kvenna eftir Alþingishátíðina 1930. Þá höfðu konur líka áhyggjur af hlut kvenna í sögu þjóðarinnar.

Karlar í fánahyllingu en konurnar horfa í forundran. Hvar er fjallkonan? Myndin er tekin úr Lýðveldishátíðinni 1944.

Grein Rannveigar er harðorð, líklega hefur sumum þótt of fast að orði kveðið, og Rannveigu barst til eyrna að Kristjana Milla hefði tekið greininna nærri sér því á henni mætti skilja að það hefði verið ákvörðun fjallkonunnar að halda ekki út í rigninguna. Þessu svarar Rannveig á kvennasíðu Þjóðviljans 6. júlí og segist þar alls ekki kenna Kristjönu Millu um hvernig fór. Í greininni hafi hún fjallað um táknrænt gildi fjallkonnunnar, ekki síst fyrir konur, og gagnrýni hennar hafi beinst að karlmönnum sem voru „af mér taldir hinir einráðu gjörendur hátíðarinnar, og því alls ekki gert ráð fyrir að nokkur kvenleg vera hefði þar nokkurt áhrifavald – allra sízt Fjallkonan sjálf.“ Hún kveðst þó viðurkenna að fyrirsögn greinarinnar, „Fjallkonan hopar af hólmi“, hefði mátt vera öðru vísi því hana mætti skilja sem ásökun í garð fjallkonunnar. Nær sanni og í betra samræmi við yfirráð karlmannsins í samfélaginu hefði verið, skrifar hún: „Þeir létu Fjallkonuna hopa af hólmi“.

Eina kvenröddin sem heyrast átti ein og sér í dagskrá lýðveldishátíðarinnar á Þingvöllum 17. júní 1944, „fulltrúi konunnar“, eins og sagði í Útvarpstíðindum, þurfti því að lúta boði karlmanna sem treystu henni ekki út í rigninguna og bíða í bíl meðan formaður þjóðhátíðarnefndar hyllti fánann. Almennt séð virðist þetta hafa verið talin móðgun við konur, ákvörðun eða gleymska sem reynt var að afsaka með mistökum og tilfærslum í dagskrá. Í augum Rannveigar Kristjánsdóttur og margra annarra kvenna var fjarvera fjallkonunnar og framkoma hinnar „karlsetnu“ þjóðhátíðarnefndar táknræn fyrir stöðu, sögu og „áhrifavald“ kvenna í hinu nýja íslenska lýðveldi.

Heimildir:

  • „Fjallkonan í 50 ár“, Eintak, 16. júní 1994, bls. 30 (m.a. stutt viðtal við Kristjönu Millu Thorsteinsson).
  • Fálkinn 30. júní 1944.
  • Lýðveldishátíðin 1944. Þjóðhátíðarnefnd samdi að tilhlutan Alþingis og Ríkisstjórnar. Reykjavík: Leiftur 1945.
  • Morgunblaðið 20. júní 1944.
  • Sigríður Matthíasdóttir, Hinn sanni Íslendingur. Þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi 1900-1930. Reykjavík: Háskólaútgáfan 2004.
  • Spegillinn 30. júní 1944.
  • Útvarpstíðindi 7. árg. 8. tbl., 20. nóv. 1944.
  • Þjóðviljinn (kvennasíðan), 22. júní 1944 og 6. júlí 1944.
Um höfundinn
Erla Hulda Halldórsdóttir

Erla Hulda Halldórsdóttir

Erla Hulda er dósent í kvenna- og kynjasögu við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila