Mið-Ísland: húmor í hnotskurn

Ég tylli mér í kumpánlega bakherberginu í Þjóðleikhúskjallaranum, dreg upp símann og hef upptöku. Meðlimir Mið-Íslands, Dóri DNA, Bergur Ebbi, Björn Bragi og Jóhann Alfreð, sitja á víð og dreif á snjáðum stólum, tilbúnir að ausa úr skálum visku sinnar. Hópurinn er nýbúinn að ljúka fyrstu sýningu kvöldsins og hefur góðfúslega fórnað pásunni sinni til að svara spurningum mínum.

Brandarar sem bomba

Ég ákveð að hoppa beint í djúpu laugina og spyr strákana hvað Íslendingum finnist eiginlega fyndið. Þeir líta hver á annan og enda á því að vera sammála um að það sé ekki hægt að svara svona spurningu. „Við Íslendingar erum ekkert ósvipaðir Bretum, dálítið svartur og kaldur húmor,“ segir Jóhann. Bergur bætir við að það sé í raun auðveldara að svara því hvað Íslendingum finnist ekki fyndið, en samkvæmt honum er þjóðin frekar íhaldssöm þegar kemur að húmor og ekki mikið fyrir djók um sjúkdóma og eiturlyf. „Amerískir uppistandarar koma oft hingað og byrja að tala um gras sem er mjög algengt viðfangsefni hjá þeim, en salurinn hér heima á það til að deyja,“ segir Dóri.

Já, það getur verið sárt að ná ekki til salsins, sem á góðu grínista-lingói heitir að bomba. Strákarnir hafa allir sínar reynslusögur af því. „Þetta er jafn óþægilegt og þetta er frelsandi. Þetta er aldrei jafn hræðilegt og þú heldur að það sé,“ segir Dóri. Jóhann Alfreð bætir síðan við: „Það er rosalega gaman þegar þú flytur sett sem allir elska en þú lærir ekki mikið af því. En þegar þú bombar, gerir mistök og tengist ekki salnum, þá lærirðu heilan helling. Þó það sé ekki gaman á meðan því stendur.“

Mynd: Tix.is.

Má hlæja að þessu?

Sumir brandarar bomba því þeir eru ekki góðir, en stundum er það ekki hvað er sagt heldur hver sagði það. Eru sumir brandarar bókstaflega bannaðir, eða bara í boði fyrir suma grínista en ekki aðra? „Jájá, það er allskonar dót sem þú mátt ekki segja núna sem mátti segja áður,“ svarar Dóri. „Það breytist bara með tímanum hvað er bannað.

Jóhann tekur undir með félaga sínum. „Sko, auðvitað breytist menningin í samfélaginu og ákveðnir hlutir verða tabú sem gerir það að verkum að það er erfiðara að gera grín að þeim. En ég held að það sé hægt að gera grín að öllu, það er bara miserfitt. Og sum viðfangsefni eru bara þannig að það er mjög erfitt að gera grín að þeim. Af því það verður að vera fyndið. Og ef það er ekki fyndið þá færðu það náttúrulega bara aftur í hausinn.“ Björn bætir við að það skipti einmitt máli hversu mikla heimild viðkomandi sé með.

„Þú þarft eiginlega að finna flöt þar sem allir geta verið sammála,“ segir Bergur. „Í miklum álitamálum getur verið mjög erfitt að ná því og þá er oft betra að láta það bara eiga sig, allavega í einhvern tíma.“ Jóhann telur þó grín virka aldrei betur en þegar því tekst einmitt að þræða þetta nálarauga: „Þegar þú ert með eitthvað sem er erfitt að gera grín að og þú nærð því. Þá verða allir bara… (hann andvarpar) … það er svo mikill léttir.“

Jóhann, Bergur og Dóri. Mynd: Rut Guðnadóttir.

Hvernig byrjar maður?                                               

Það er alltaf klassískt að spyrja viðmælendur hvaða ráð þeir myndu veita nýgræðingum, og hvað þeir hefðu sjálfir viljað vita þegar þeir voru að stíga sín fyrstu skref á svið.

„Ég segi bara ekki neitt! Mér finnst lærdómskúrvan vera nauðsynlegur hluti af þessu. Að koma kaldur að borðinu, reka sig á veggi,“ segir Björn. „Ef ég myndi gefa öðrum ráð og mögulega mér, en ég held ég hafi sjálfur fengið þessi ráð, er það bara að koma nógu mikið fram,“ segir Bergur. Það er samt best að fara ekki of hratt af stað heldur. „Ekki henda þér í einhver fyrirtækjagigg eða Gauk á Stöng og ganga í gegnum hræðilega lífsreynslu sem situr svo í þér þannig að þú vilt ekki gera þetta aftur, en byrjaðu bara“ segir Björn. „Vertu bara ömurlegur,“ bætir Dóri við. „Ekki halda að þú vitir allt. Málið er svolítið bara að prófa sig áfram í alvörunni, uppi á sviði. Ekki bara safna upplýsingum.“

Listamenn á launum

Rétt í þessu mætir Ari Eldjárn á svæðið. Hann er búinn að vera að grína út um allan bæ og virðist samt spenntur að ná að vera með í þessu spjalli okkar. Hinir fara að gera sig klára fyrir seinna holl kvöldsins en Bergur og Ari halda mér félagsskap í smá stund í viðbót. Það er augljóslega ekkert grín (haha) að vera með gigg öll kvöld og bókstaflega vinna við brandaragerð. Áttu þeir félagar eitthvert aha-móment þegar þetta hætti að vera hobbí og fór út í alvöru atvinnumennsku?

„Já, það gerðist kannski meira í smá skrefum,“ svarar Ari. „Við vorum fyrst með bar-sýningar, frítt inn. Svo fórum við á Batteríið, vorum þar tvisvar og í seinna skiptið sem er í desember 2009, þá ákváðum við að selja inn í fyrsta skipti.“ Það er stór sigur að geta byrjað að rukka fyrir eigin listsköpun, fjarlægur draumur í mínum huga.

Þannig þetta er bara vinnan ykkar? spyr ég. „Já!“ svara þeir báðir í kór. „Að geta fengið borgað fyrir að búa til eitthvað skapandi, sem þú svo flytur bara á þínum eigin forsendum er æðislegt,“ bætir Bergur við. Amen.

Ari talar um hvernig hann ætlaði upphaflega að vera handritshöfundur en fannst það ekki alveg passa. „Þetta hefur kannski sama sjarmann og að vera rithöfundur,“ segir Ari. „En ólíkt rithöfundi sem gerir uppkast eftir uppkast, les yfir og gefur svo út fullklárað verk, þá er þetta eiginlega aldrei tilbúið. Þetta er alltaf að breytast,“ bætir hann við.

Ég þakka strákunum kærlega fyrir kvöldið og tel upp í huganum helstu ráðin sem upprennnandi uppistandarar ættu að tileinka sér: dansa á línunni, vera meðvitaður um hvað sé að gerast í samfélaginu, en fyrst og fremst: að bara byrja. Og þau ráð má heimfæra á öll markmið.

Aðalmynd: Rut Guðnadóttir.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Rut Guðnadóttir

Rut Guðnadóttir

Rut Guðnadóttir hefur lokið BS-námi í sálfræði og er nú meistaranemi í ritlist.

[fblike]

Deila