Í merkilegu samtali Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur við Hörpu Arnardóttur og Eddu Björgu Eyjólfsdóttur í útvarpinu sagði Harpa að leikhúsin fælist það að setja mörg þúsund ára gamla harmleiki á svið og fyrir leikstjóra sé það að leikstýra Evripídes tækifæri sem fæstir fái nema einu sinni á ævinni. Og þá er að fara vel með það!
Flóttamenn
Hrafnhildur Hagalín gerir leikgerðina sem nú er sýnd í Borgarleikhúsinu. Hún dregur fram ákveðin þemu í verkinu sem höfða sterkt til nútímans, þýðingin er lipur, millistig milli hins formfasta forna texta og nútímamáls. Medea (Kristín Þóra Haraldsdóttir) er flóttakona í landi Kreons konungs (Jóhann Sigurðarson) þar sem hún er framandi og óvelkomin með börn sín tvö. Allir vita að hún hefur drepið bróður sinn og svikið konunginn föður sinn, óð af ást sinni á hetjunni Jason (Hjörtur Jóhann Jónsson). Þau urðu að flýja heimaland hennar og hann giftist henni að því er virðist í þakklætisskyni fyrir hjálpina. Þetta er forsaga leikrits Evripídesar Aþenubúar hafa þekkt á sínum tíma.
Þegar leikritið byrjar er Jason farinn að girnast dóttur Kreons og orðinn leiður á Medeu. Þetta kallast á við norrænu goðsöguna um Gunnlöðu sem sveik föður sinn og seldi Óðni sjálfan skáldamjöðinn fyrir ást hans. Hann tók skáldamjöðinn og stakk af kampakátur. Svona sagði Snorri söguna en Svava Jakobsdóttir sýndi fram á það (með óyggjandi rökum, að mínu mati) að goðsagan segði frá því hvernig Óðinn svíkur Gunnlöðu og gerist eiðrofi, knúinn áfram af græðgi. Jarðargyðjan sem Gunnlöð þjónar bregst við því og breytir gjöfulli náttúru í auðn. Það sannast hér að goðsögur allra menningarheima kallast á og segja svipaða sögu um ofmetnað mannsins sem gengur á bak orða sinna og hættir ekki fyrr en allt er lagt í rúst.
Svik
Ræður Jason um að Medeu og börnunum sé það fyrir bestu að hann taki sér nýja og yngri konu, hina dansfögru dóttur Kreons (Lovísu Ósk Gunnarsdóttur) eru aumkvunarverðar og nútímakarlar bregða einhverju svipuðu fyrir sig líka í von um skilning. Framtíð Medeu og barna hennar er óviss, hann hendir þeim bara. Svona kemur maður ekki fram við konu eins og Medeu sem er barnabarn sólguðsins Helíosar og fræg um allt Eyjahaf fyrir að vera gáfaðri, ástríðufyllri og fjölkunnugri en allar aðrar konur. Hún er ekki eins og aðrar konur er þráfaldlega sagt og Evripídes undirstrikar að hún verður ekki skilin. Hana er ekki hægt að svíkja án afleiðinga.
Andstæður – hliðstæður
Salnum á nýja sviðinu er skipt í tvennt, karlar sitja öðru megin og konur hinu megin við sviðið sem er í miðjunni. Leikmynd Filippíu I. Elísdóttur og búningar voru stórflottir og lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar glæsileg að vanda. Medeu megin er hlaðið upp ferðatöskum og koffortum flóttamanna. Kreons megin eru brot af súlum og grískum styttum. Fyrst hélt ég að Arnar Dan Kristjánsson væri ein af þeim, grískur guð, en hann leikur Egeif, vin Medeu og eina bandamann hennar.
Milli pólanna á sviðinu fer fóstran (Edda Björg Eyjólfsdóttir) sem verður eins konar sögumaður sem segir áhorfendum forsögur og rammar inn atburðina. Hún og kórinn reyna að fá Medeu til að þyrma lífi barnanna en Medea er ekki aðeins knúin af hefndarþorsta heldur veit hún að börnum yfirstéttarinnar er aldrei þyrmt ef enginn verndar þau. Í lok verksins grætur og kveinar Jason en andlit Medeu, Kristínar Þóru, er eins og steinrunnið, röddin lág og eintóna eins og líf hennar sé slokknað, sem það er.
Eftir kynningu aðstæðna í verkinu byrjar vatn að seytla uppúr gólfi sviðsins sem skýrir hvers vegna um það er rammi. Börnin yndislegu (Lydia Katrín Steinarsdóttir og Hilmar Máni Magnússon) fleyta pappírsskipum á vatninu, seinna er kveikt í þeim og kannski breytast þau þá í herskip – vatnið minnir á náttúruna, á hafið umlykjandi bæði suðrænar og norrænar eyjar en líka á Styx, ána milli lífs og dauða, mann- og helheima. Í fínni leikskrá verksins má sjá hve djúpan skilning og túlkun Harpa Arnardóttir og hennar mannskapur hafa lagt í þessa sýningu sem er pólitísk og ljóðræn í senn. Það hefði kannski mátt einfalda uppfærsluna sem var á mörkunum með að verða ofhlaðin af táknum – en ég veit samt ekki, hún hafði djúp áhrif á mig.
[fblike]
Deila