Ísland var í aðallhlutverki í sýningu Borgarleikhússins á Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson. Í þríleiknum er baráttu mannskepnanna við náttúruöflin lýst. Fyrst á sjónum þar sem barist er við hafið. Svo á fjöllum þar sem barist er við blindbyl, sult og kulda. Loks í þorpinu þar sem barist er um völd og mannréttindi. Tvær fyrstu bækurnar eru myndrænar en ekki leikrænar, meiri átök eru milli manna í þeirri þriðju. Og hvernig á að skila á leiksviði hinum ljóðræna og heimspekilega texta Jóns Kalmans, sem margir hafa lýst sem því besta sem skrifað er nú um stundir? Það var áskorunin sem Egill Heiðar Anton Pálsson og hans fólk stóð frammi fyrir.
Náttúruöflin
Mér finnst að ég hafi aldrei séð jafn áhrifaríka sviðsvinnu (ég veit ég hef sagt þetta nokkrum sinnum í þessum leikhússpistlum síðustu tvö árin– síðasta skipti telur…) Egill Ingibergsson skapar magnaða sviðsmynd þar sem gagnsæ tjöld og skuggamyndir að hætti William Kentridge eru meðal annars notaðar til að sýna návist genginna kynslóða.
Í fyrsta þættinum, sem segir frá róðrinum hörmulega, er hafið í forgrunni. Á stórum flötum í bakgrunni er úfið hafið sýnt í svörtum eða dökkum vetrarlitum og gráum bjarma. Þórarinn Blöndal teiknar myndirnar með kol og krít og endurskapar í flottum myndum hreyfinguna og þunga ógnina af þessari höfuðskepnu sem báturinn skoppar ofan á. Egill Ingibergsson notar dýpt sviðsins og lætur tjöld þrengja það eða víkka, færast nær okkur og fjær tilbaka og breyta þannig fókus áhorfanda eins og lýsingin sem Þórður Orri Pétursson stendur fyrir.
Fjöll og firnindi í svaðilförinni með póst og líkkistu yfir fjallið eru búin til með palli sem hækkar og lækkar og gríðarlegur dúkur, sem hylur gólfið í upphafi og er látinn búa til öldugang þar, býr nú til stórhríð og storm með hjálp leikhópsins. Margt af þessu hefur maður séð áður en sjaldan svo áhrifamikið. Búningar Helgu I Stefánsdóttur voru í jarðlitum, látlausir og hógværir eins og hæfði því fátæka fólki sem hér háði sína lífsbaráttu. Og enn hef ég ekkert sagt um tónlist og hljóðmynd Hjámars H. Ragnarssonar sem var fögur, ljóðræn og tregafull eins og verkið.
Fátækt fólk
Þríleikur Jóns Kalmans fjallar um strák (Þuríður Blær Jóhannesdóttir), vin hans Bárð (Björn Stefánsson) sem króknar úr kulda í róðrinum í fyrsta þætti. Ábyrgur fyrir því að miklu leyti er er formaðurinn Pétur (Valur Freyr Einarsson) sem lætur róa of langt út en það eiga bæði strákurinn og fanggæslan í verinu, Andrea kona Péturs (Katla Margrét Þorgeirsdóttir) erfitt með að fyrirgefa honum. Andrea sendir því strákinn í Plássið til þess að hans bíði ekki sömu örlög, verandi bókmenntagrúskari og sveimhugi eins og Bárður.
Önnur bókin lýsir svaðilför hins fámála heljarmennis Jens landpósts (Bergur Þór Ingólfsson) yfir fjöll og firnindi með póst og síðar líkkistu. Ferðin verður þeim næstum að bana og þeir koma kalnir og grátt leiknir tilbaka, en lifandi þó.
Þriðja bókin lýsir átökum manna á milli, tilraunum til að knésetja kráar- og skipeigandann Geirþrúði (Margrét Vilhjálmsdóttir) og aðstoðarkonu hennar, Helgu (Sigrún Eddu Björnsdóttir) vegna þess að Geirþrúður ógnar stórkaupmönnunum á svæðinu. Þeir svara með því að reyna að flæma hana burtu. Af slægð sinni lætur hún krók koma á móti bragði og giftist inn í ætt óvinar síns með því að taka sér fyrir mann hinn lærða, skemmtilega en afar drykkfellda skólastjóra Gísla (Hannes Óla Ágústsson). Strákurinn er sá sem ferðast millli heima og Þuríður Blær fer afar vel með það hlutverk. Fleiri góðir leikarar eru í leikhópnum og gefa persónunum líf og sérkenni, þarna eru stórleikarar en líka óreyndari leikarar sem skila áhrifamiklum persónum. Hlutverkin eru tuttugu og þrjú.
Stórvirki
Himinn og helvíti Jóns Kalmans Stefánssonar er stórvirki sem dregur inn í sig fortíð og nútíð í þéttum texta og það hvílir mikið á höfundi leikgerðarinnar, Bjarna Jónssyni.
Bjarni fer þá leið að skila átakamiðju hverrar bókar, margar hliðarsögur verða að fara út og vangaveltur um mannlega náttúru og samfélag. Þetta er harðneskjulegt og frumstætt samfélag en þar eru að opnast möguleikar á að listhneigð ungmenni eins og strákurinn geti lifað af. Bjarni gerir þetta mjög vel að mínu mati. Það eina sem ég var verulega ósátt við var að þeir Egill Heiðar Anton Pálsson taka ljóðræna kafla sem í bókinni eru lagðar í munn hópi framliðins fólks úr byggðinni og láta leikhópinn flytja þá í talkór. Ég er ekki aðdáandi talkóra. Textarnir verða blæbrigðalausir og þreytandi, finnst mér, og ég bíð eftir að þeir hætti.
Sýningin leggur áherslu á karlveldi sem er byrjað að riða til falls, leikurinn gerist í upphafi tuttugustu aldarinnar. Geirþrúður er fulltrúi nýja tímans og Margrét Vilhjálmsdóttir lyftir henni upp yfir annað fólk. Orðræða Friðriks athafnamanns (Vals Freys) kallaði á kuldalegt fliss í sal þegar hann reynir að útskýra fyrir henni að hún sé kona sem brjóti gegn eðli sínu með því að vera að vasast í auðsöfnun. Það var ágætt.
Látið þessa sýningu endilega ekki framhjá ykkur fara – hún er glæsileg.
[fblike]
Deila