Katrín Vinther Reynisdóttir fór í Borgarbíó Akureyri að sjá Ég man þig og gaf henni engar stjörnur.
(Aðvörun! Í umfjölluninni hér að neðan eru umtalsverð spilliefni (e. spoilers)).
Ég man þig er spennumynd með hrollvekjuívafi sem byggð er á samnefndri skáldsögu Yrsu Sigurðardóttur, er sló í gegn árið 2010. Leikstjóri myndarinnar, Óskar Þór Axelsson (Svartur á leik, 2012), skrifar handritið ásamt Ottó G. Borg (Astrópía, 2007; Gauragangur, 2010; Brim, 2010). Óhætt er að segja að myndin sé ferskur andblær fyrir íslenska kvikmyndamenningu. Er þar nóg að benda á hryllingsáhrifin en fáar hryllingsmyndir hafa litið dagsins ljós hér á landi þrátt fyrir að flenninóg sé til af efnivið, til að mynda í formi íslenskra þjóðsagna. Ég man þig gárar að vísu yfirborð þjóðsagnahylsins þegar hún notast við útburðarþuluna „Móðir mín í kví kví“, bæði í kynningarstiklum fyrir myndina sem og í kvikmyndinni sjálfri. Þetta eykur enn á yfirnáttúrulega vídd kvikmyndarinnar og vel má tengja sönginn við drauginn Bernódus (Arnar Páll Harðarson), enda var honum afar annt um móður sína sem lést við að fæða hann í heiminn.
Sagan hverfist um þrjá vini – Garðar (Þór Kristjánsson), Líf (Ágústa Eva Erlendsdóttir) og Katrínu (Anna Gunndís Guðmundsdóttir) – sem ákveða að gera upp yfirgefið hús á Hesteyri. Sagan fylgir einnig geðlækninum Frey (Jóhannes Haukur Jóhannesson). Freyr glímir enn við þá andlegu erfiðleika sem hvarf Benna sonar hans olli, en hann hvarf sporlaust þremur árum fyrir tímaramma kvikmyndarinnar.
Þremenningarnir á Hesteyri komast fljótt að því að ekki er allt með felldu á staðnum, auk þess sem togstreita þeirra á milli setur að lokum blóðugt strik í reikninginn. Sögur þremenninganna og Freys fléttast síðan saman þegar Freyr er fenginn til þess að aðstoða við rannsókn á sjálfsvígi gamallar konu. Í gegnum söguna fléttast margir þræðir og tengjast flestir þeirra saman að lokum. Til að mynda lítur út fyrir að sögurnar tvær eigi sér stað á sama tíma, en í lok myndarinnar kemur í ljós að saga þremenninganna átti sér í raun og veru stað þremur árum áður. Þetta er skemmtilegur vafningur á söguþræðinum.
Draugar kvikmyndarinnar, Bernódus og Benni, koma ekki oft fram í myndinni en nærvera þeirra er engu að síður sterk – ef til vill er það þetta sem veldur hvað mestum ónotum hjá áhorfendum – þessi stanslausa óvissa og bið eftir að þeir spretti fram. Þeir eru einnig afar ólíkir í draugslegu yfirbragði sínu, en vel má velta fyrir sér hvað liggi þar að baki. Ef til vill er það heiftin gagnvart kvölurum sínum sem heltekið hefur Bernódus sem ljáir honum hið óhugnanlega yfirbragð. Benni lést hins vegar af slysförum og átti, fram að ótímabærum dauðdaga sínum, notalegra líf heldur en Bernódus.
Helsti vankantur myndarinnar er hve stirðbusaleg samtöl persónanna eiga það til að vera, en umgjörðin bætir að vissu leyti upp fyrir þetta. Kvikmyndataka og umhverfi myndarinnar fellur vel að efnivið sögunnar. Hér fær íslensk náttúra að njóta sín, en þó ekki í formi grænna haga og bústinna kinda. Þess í stað skartar myndin hinni ógnvænlegu fegurð sem býr í íslenskri náttúru; breiður af dauðri hvönn sem líkjast helst visnuðu völundarhúsi, svartar sandbreiður við úfinn sjó og þverhnípt fjöll sem gnæfa yfir yfirgefnum húsakrílum. Ég man þig er því þrælfín spennumynd sem fléttar saman sakamálasögu og draugasögu af nöprum örlögum barnungs drengs.
Vefsvæði Engra stjarna er á heimasíðu kvikmyndafræði Háskóla Íslands.
[fblike]
Deila