Undirtitill leikritsins Prinsessuleikarnir eftir Nóbelsverðlaunahafann Elfriede Jelinek er „Dauðinn og stúlkan“ (Der Tod und das Mädchen) með vísan í samnefnt tónverk eftir Frans Schubert og sannlega hefur það verið dramatískt og lífshættulegt hlutskipti að vera prinsessa gegnum tíðina eins og allir vita.
Í leikskrá spyr leikstjórinn Una Þorleifsdóttir: Hvað eru prinsessur? Á eftir fer langur listi af viðbótarspurningum sem eru umhugsunar virði. Er prinsessan barn dulbúin sem ung kona? Af hverju er hún svona varnarlaus og bjargarlaust fórnarlamb? Vill hún verða valdalaus fylgihlutur prinssins það sem eftir er æfinnar? Eða hvað?
Leikverkið samanstendur af þremur einþáttungum, í þeim fyrsta leikur Birgitta Birgisdóttir Mjallhvíti. Enginn prins bjargar henni heldur veiðimaðurinn sem átti að drepa hana en gerði það ekki. Hann kemur í prins stað. Bergur Þór Ingólfsson leikur þennan góða (karl)mann, fulltrúa dauðans, hann hefur haft líf prinsessunnar á valdi sínu, belgir sig út af mikilvægi sínu og gervið er hlaðið karlmennskutáknum eins og hermannabuxum, „six pack“ brynju (!) og vélsög. Hann gerir það nokkuð ljóst í löngum einræðum sínum að karlmaðurinn er allt og konan/prinsessan ekkert.
Fyrsti þátturinn er ansi fyndinn í stíl Walt Disney, sviðsmyndin í skærum litum krúttað lamb á beit og tístandi fuglar. Mjallhvít flögrar um sviðið í prinsessukjól sínum, kvakar og skríkir eins og í teiknimyndum Disney, Birgitta Birgisdóttir býr til kunnuglega Mjallhvíti en hún skilur sig frá Disney í því að þrá ekkert meira en að hitta dvergana sem hún hefur spurt að séu mjög ástheitir. Það líkar veiðimanninum ekki. Og undan fögru yfirborði hennar leynist líka býsna öflugt hatur á stjúpmóðurinni.
Önnur prinsessan er Þyrnirós leikin af Völu Kristínu Eiríksdóttur en hún er vakin af alvöru prinsi, Jörundi Ragnarssyni, sem leikur raunar tvo prinsa og einn forseta að auki í verkinu. Þyrnirós er líka klædd eins og prinsessum hæfir með púffermar og í víðum loftkenndum kjólum en hún er nútímalegri en Mjallhvít því að hún er alltaf að „pósa“, alltaf „í mynd“ eins og unglingsstelpa á Instagram. Hún er rómantísk og sýnir prinsinum það á ýmsa vegu en hann hefur engan áhuga á ást hennar. Hann getur hins vegar boðið stúlkunni upp á klám og niður úr loftinu síga tvær risavaxnar gróteskar klámdúkkur. Þyrnirós sér þannig fljótt að hann hefur enga ást að gefa henni, hann er búinn að gefa hana í heilu lagi – þ.e. sjálfum sér. Þá þykknar í henni því hún hefur bein í nefinu.
Þriðja prinsessan, Jacqueline Kennedy, er nær því að vera drottning en prinsessa og er leikin af Sólveigu Arnarsdóttur. Þessi þáttur er augljóslega næstur okkur í tíma og raunsæilegastur en undirbyggður af hinum þáttunum. Jackie Kennedy var alin upp til auðs og valda, vel menntuð og kunni að sameina móðurmynd, tískufyrirmynd og eiginkonu í einu hlutverki. Hún verður táknmynd fágunar alls þess sem alþýðan þráir. Áhugavert var í sýningunni hvernig tískuhönnuðirnir verða meðhöfundar goðsagnarinnar. Föt Jackie voru stílhrein, glæsileg, fáguð, ofboðslega dýr, tákn smekks, ríkidæmis og yfirburða forréttindafólksins. Og hún segir eitthvað á þá leið að „hún“ hafi ekki valið þau og klæðst þeim, þau hafi klætt sig í hana.
Sagan sem Jelenek og Sólveig Arnardóttir segja af örlögum Jackie er ekki ævintýri heldur fremur harmsaga eða hryllingssaga. Jackie býr yfir mikilli sorg og reiði yfir barnsmissi, lífinu sem hún lifði og því hvernig maður hennar gróf stöðugt undan hlutverkinu sem hann hafði gefið henni með framhjáhöldum sínum, sérstaklega með stúlkunni fögru, Marilyn Monroe. Slíkur var máttur Marilyn að hún var í lokaatriðinu þrefölduð og leikin bæði af ævintýraprinsessunum og veiðimanninum.
Sólveig Arnardóttir fór allan skalann í hlutverki Jackie, textaframburður hennar er afar skýr og hún nær að túlka bæði viðkvæmni og hörku persónunnar samtímis . Leikur hennar var framúrskarandi.
Una Þorleifsdóttir, prinsessur og allir aðstandendur sýningarinnar mega vera stoltir af sínu verki.
Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.