Leikritið Ellen B er fyrsta verkið í nýjum þríleik eftir þýska snillinginn Marius von Mayenburg. Það er annar snillingur, Benedict Andrews, sem leikstýrir fyrsta verkinu, Ellen B, sem frumsýnt var annan dag jóla. Seinni tvö verkin verða sýnd í janúar og næsta haust. Og síðustu sýningu þríleiksins mun Mayenburg leikstýra. Leikmynd og búninga gerir enn einn gesturinn, Nina Wetzel sem býr til stórfallega, mínímalíska leikmynd með einum hornsófa í forgrunni svarts baksviðs. Hornsófinn myndar eins konar þríhyrning eins og allir vita. Yfir honum og sviðinu á svörtum grunni er stór hornréttur rammi neonljósa sem myndar eins og miðju í þessu stóra svarta rými.
Ellen B er gríðarlega vel skrifað leikrit um þrjár persónur sem takast á um ást, þrá og tryggð. Verkið hefur undir þær miklu jarðhræringar sem orðið hafa í skilningi og skilningsleysi, umræðum og átökum um kynfrelsi og sjálfsmynd fólks sem neitar að láta aðra skilgreina og ráðskast með ástir sínar. Með #Meetoo byltingunni var Pandórubox kynferðislegrar misnotkunar sömuleiðis opnað, konur stigu fram þúsund saman og bentu á gerendur sem hefðu níðst á þeim, opnuðu boxið og kröfðust réttarhalda og réttmætra miskabóta. Ekkert efni og engin uppgjör eru eins áleitin í nýjustu bókmenntum kvenna, fréttum og samfélagsmiðlum nú um stundir og um þetta fjallar Ellen B.
Astrid (Unnur Ösp Stefánsdóttir) er vel metinn kennari í framhaldsskóla og lesbía sem býr með fyrrverandi nemanda sínum og húsgagnasmið Klöru (Ebbu Katrínu Finnsdóttur). Astrid hefur boðið skólastjóranum, Úlfi (Benedikt Erlingssyni) í heimsókn, Klöru til nokkurs angurs því hún hefur illan bifur á honum og í ljós kemur að til þess er full ástæða. Hvítvínið flýtur og í ljós kemur að hinn ekki-mikilvægi nemandi af erlendum uppruna sem enginn man eiginlega nafnið á, Ellen B., getur orðið stórhættuleg fyrir Astrid – því Úlfur þykist vita eitthvað og veit hvernig hægt er að nota það. Benedikt Erlingsson lék rannsóknarréttartilburði hans og hræsni og gerði hann bæði óþolandi og aumkvunarverðan.
Unnur Ösp og Ebba Katrín voru alveg frábærar í túlkun sinni á Astrid og Klöru, sambandi þeirra og átökum. Ógleymanleg er einræða Klöru um fyrstu ást sína og tilbeiðslu á kennaranum sínum, Astrid, og hamskipti þeirrar síðast nefndu þegar hún snýr vörn í sókn gegn Úlfi.
Þetta verk er svo margrætt og magnað að því meira sem maður hugsar um það þeim mun fleiri lög opnast í því og varpa ljósi á það sem hefur gerst og er að gerast. Of mikið hefur verið sagt og afhjúpað í hita leiksins.
Endirinn er opinn.
Mæli af öllum kröftum með þessari sýningu.
Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.