„Þetta er búið að vera mikið sjálfskoðunarferli“

Leikstjórinn og handritshöfundurinn Ninna Pálmadóttir lýsir ást sinni á kvikmyndagerð

Ninna Pálmadóttir útskrifaðist árið 2019 sem leikstjóri og handritshöfundur úr NYU Tisch School of the Arts, en henni hefur þó strax tekist að marka sér stöðu á sínu sviði. Lokaverkefni Ninnu, stuttmyndin Allir hundar deyja (2020), hefur farið á ýmsar kvikmyndahátíðir og var síðastliðið sumar valin til þátttöku í flokknum Future Frames á Karlovy Vary hátíðinni í Tékklandi. Future Frames er vettvangur til að kynna nýjar kvikmyndir frá tíu ungum og efnilegum evrópskum leikstjórum sem eru nýútskrifaðir úr kvikmyndaskólum. Og núna er þessi ungi og efnilegi listamaður að vinna að sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd sem nefnist Einvera.

Fyrstu skrefin

Ninna segir að áhugi sinn á kvikmyndum hafa vakna snemma. „Ég var forvitinn krakki, með sterkt ímyndunarafl og alltaf að reyna að fá einhverja útrás. Að horfa á bíómyndir var ákveðin útrás, það að fá stíga inn í annan heim. Ég vissi alltaf að mig langaði að gera eitthvað listrænt í lífinu og allt í einu fattaði ég að það væri örugglega mjög gaman að segja sögur með þessum hætti.“

Ninna ólst upp í litlum bæ á Norðurlandi, umvafin stórbrotinni og hrárri náttúru sem mótaði stíl hennar og persónuleika í listum. „Það er ákveðin einlægni í umhverfinu sem ég reyni alltaf að fanga með einhverjum hætti, einhver augnablik sem fá að vera eins og þau eru,“ segir Ninna og tekur fram að sér finnist mikilvægt að finna einlægnina í einfaldleikanum.

Áður en Ninna hóf meistaranám við NYU Tisch lauk hún BA námi í kvikmyndafræði við HÍ, með bókmenntafræði sem aukagrein. Samhliða náminu hérlendis vann hún á  tökustað ýmissa kvikmynda og gerði síðan sína fyrstu stuttmynd árið 2014 sem hún notaði í umsóknum sínum um nám erlendis. Fyrsta mynd hennar sem vakti athygli var Blaðberinn (2019) en hún hefur verið sýnd á níu kvikmyndahátíðum víðsvegar um heim. Myndin var frumsýnd á Seattle International Film Festival þar sem hún vann til áhorfendaverðlauna. Hún fékk einnig mjög góðar viðtökur hérlendis og hlaut verðlaun sem besta íslenska stuttmyndin á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík (RIFF) og var í framhaldinu valin besta íslenska stuttmyndin þegar Eddan,​ verðlaun Íslensku sjónvarps- og kvikmyndaakademíunnar (ÍKSA), var afhent árið 2020. Í kjölfarið var Ninna tilnefnd til hvatningarverðlaunanna, Framúrskarandi ungir Íslendingar sama ár, fyrir störf/afrek á sviði menningar. Hápunkturinn í huga Ninnu var þegar hún sagði foreldrum sínum, fyrirmyndum hennar, frá þeirri viðurkenningu.

Ninna gefur byrjendum í kvikmyndagerð góð ráð

Ninna lýsir því hvernig þessi góðu viðbrögð reyndust einnig svolítið yfirþyrmandi fyrir kvikmyndagerðarkonu sem var að stíga sín fyrstu skref. „Blaðberinn var súrealískt ferðalag. Ég var nýflutt heim og var þá jafnframt að senda myndina út um allt. Myndinni gekk mjög vel og var tekið sérstaklega hlýjum örmum hérna heima sem var mjög hvetjandi. Ég þurfti hins vegar að ná mér niður á jörðina eftir þetta. Það er fylgifiskurinn af því að vera með stuttmyndaverk sem ganga svona vel. Manni líður eins og maður þurfi að gera eitthvað listaverk og það búast allir við svo miklu af manni. Þegar maður fer út í þennan þankagang þá er gott að minna sig á, afhverju maður er að gera þetta. Það nægir mér að myndin veki upp tilfinningar hjá einhverjum, jafnvel þó það séu fáir.“

Ninna líkir kvikmyndagerð við sjálfskoðunarferli þar sem tækifærin til að læra og þroskast eru óendanleg. „Mér finnst gott að nálgast hlutina eins og ég sé alltaf að læra. Það er nauðsynlegt að vera opin fyrir því að þroskast og breytast, spyrja sig reglulega: Hvað hef ég að segja og hvaða sögur vil ég segja? Mikilvægt er að þú umkringir þig fólki sem veitir þér innblástur, gerir þig betri og að fólk sé heiðarlegt við þig og gefi þér uppbyggilega gagnrýni. Eins er mikilvægt að geta tekið gagnrýni og unnið úr henni.“

Næst á döfinni

Ninna hefur haft nóg fyrir stafni og kennir nú áfanga í leikstjórn fyrir nýnema í Kvikmyndaskóla Íslands ásamt því að vinna ýmis kvikmyndaverkefni. „Ég var heppin að fá að leikstýra herferð bleiku slaufunnar um daginn sem var yndislegt verkefni og ég vann það verkefni með framleiðslufyrirtækinu Norður sem ég hef unnið með áður. Ég sagði þar sögu Láru, vinkonu minnar, sem tókst á við krabbamein.“ Bleika slaufan 2021 vann tvo Lúðra á íslensku auglýsingarverðlaununum sem afhent voru í 36. skiptið í Gamla bíó 8. apríl síðastliðinn.

Tökur á Einveru, nýjustu kvikmynd Ninnu, eru enn ekki hafnar. „Þar er um að ræða kvikmynd í fullri lengd sem ég er með í vinnslu og það gengur bara vel. Ég var að vinna með Lilju Ósk framleiðenda hjá Pegasus og þá barst í tal að hún væri með handrit eftir annan höfund, Rúnar Rúnarsson, og væri leita af rétta leikstjóranum fyrir það. Ég fékk handritið í hendurnar og las og tengdi strax rosa sterkt við það. Maður er auðvitað iðandi í skinninu að fá að spreyta sig í fullu formi. Það er bæði ótrúlega spennandi og á sama tíma ógnvekjandi.“

Fyrirmynd mótast

Þrátt fyrir tiltölulega fá verk hefur Ninnu tekist að móta sinn eigin kvikmyndastíl og skapa sér sérstöðu í kvikmyndabransanum hérlendis. Má segja að hún sé eins konar fulltrúi hinnar ungu kynslóðar kvikmyndagerðarmanna. „Ég sá myndir eftir Sofiu Coppola þegar ég var unglingur. Sofia Coppola var fyrsti kvenkyns leikstjórinn sem ég vissi af. Það skiptir máli, sérstaklega þegar maður er yngri, að það séu til fyrirmyndir og ég get bara rétt vonað að seinna meir geti ég sjálf verið fyrirmynd fyrir stelpur í menntaskóla eða grunnskóla hérna heima sem þrá að gera hið sama og sjái að það er mögulegt.“

Um höfundinn
Jóna Gréta Hilmarsdóttir

Jóna Gréta Hilmarsdóttir

Jóna Gréta Hilmarsdóttir er nemandi í kvikmyndafræði við Íslensku– og menningardeild Háskóla Íslands og meðlimur í Engum stjörnum.

[fblike]

Deila