Þverþjóðlegur leshópur um Halldór Laxness og Ghassan Kanafani

Í nóvember 1971 var hinn frægi palestínski skáldsagnahöfundur Ghassan Kanafani dæmdur til fangelsisvistar í Líbanon fyrir gagnrýni sína á hendur arabískum stjórnvöldum í nágrannalöndunum. Í fangelsinu varði Kanafani tíma sínum við lestur bókmennta, þar á meðal skáldsögu eftir Halldór Laxness.

Við fyrstu sýn gætu þessir tveir rithöfundar ekki verið ólíkari. Skurðpunktarnir koma hins vegar á óvart. Báðir voru þeir auðvitað afkastamiklir rithöfundar en jafnframt voru þeir báðir pólitískir aðgerðasinnar, bæði í verkum sínum og raunveruleikanum, vinstri sinnaðir „undirróðursmenn“ að mati fjandmanna sinna. Nýlenduok og staða nýlendunnar gagnvart herraþjóð sinni var þeim báðum jafnframt kunnug).

Með þessa skemmtilegu tengingu höfundanna að leiðarljósi – og til að kafa dýpra í verk þeirra og lífshlaup – verður tímabundinn þverþjóðlegur umræðuvettvangur um bókmenntir settur á laggirnar. Vorið 2022 munum við funda tvisvar í tvær klukkustundir í senn til að ræða Atómstöðina (1948) eftir Halldór Laxness og Men in the Sun (1962) eftir Ghassan Kanafani.

Þessi íslensk–palestínski leshópur er skipulagður af Birni Þór Vilhjálmssyni (dósent í Almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði við HÍ) og Greg Burris (dósent í kvikmyndafræði við American University of Beirut). Þátttaka er öllum opin, en við biðjum þá sem skrá sig að taka þátt í báðum fundartímunum. Fjöldi þátttakenda er takmarkaður og setið ykkur því vinsamlega í samband við okkur með því að senda tölvupóst á gb25@aub.edu.lb.

Dagskrá

  • Atómstöðin: Miðvikudagur, 23. Febrúar (17:00 Ísland, 19:00, Líbanon)
  • Men in the Sun: Miðvikudagur, 23. Mars (17:00 Ísland, 19:00, Líbanon)
Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila