Væri forseti Bandaríkjanna ekki bundinn af tveimur kjörtímabilum heldur gæti hann setið eins mörg kjörtímabil og hann þolir við og kjósendur þola hann í embætti – hefði tveggja tímabila reglan verið afnumin og tímatakmörk felld niður með öðrum orðum – þá væri auðvitað ekki um sama embætti að ræða, helsta pólitíska valdastaða á hnettinum myndi sjálfkrafa umbreytast, taka hamskiptum, líkt og Gregor Samsa. Sumir kynnu að halda að dvölin í Hvíta húsinu yrði að puntviðveru eins og hér á landi, eða þá að það hallaði alveg á hina hliðina og lýðskipanin stökkbreytast í stalínískt alræði. Í sjónvarpsþáttunum Watchmen er endurskilgreining forsetaembættisins löngu um garð gengin, Robert Redford hefur verið forseti um áratugaskeið þegar þættirnir hefjast, og útkoman virðist stilla sér upp miðs vegar á milli pólanna tveggja. Redford væri auðvitað skrautmunur og stofustáss í hvaða samhengi sem er en hér hefur einnig dregið mjög fyrir sólu þegar að manngildissjónarmiðum kemur og mannréttindum.
Í sjálfu sér og með hliðsjón af sögufléttunni er framgangur Redford í forseta og hústakan í Washington hálfgert aukaatriði í þáttunum, en þessi tiltekna breyting á lýðræðisumgjörðinni fangar þó hvernig söguheimurinn sem við áhorfendum blasir er í senn kunnuglegur og undarlega bjagaður. Auk þess má segja að hugmyndin um tímabil og tíma, það sem undirbyggir kjörtímabilshugtakið, sé einnig táknræn fyrir frásagnarlega rökvísi þáttaraðarinnar, sögusýn og þematískar áherslur. Það eru ávallt endalokin sem áskapa fyrirbærum og atburðum merkingu og á það við í lífinu og listinni jafnt og pólitíkinni. Í Watchmen er tíminn sjálfur í lykilhlutverki, líkt og titillinn gefur til kynna, og er það dregið fram strax í upphafi þegar ljóst verður að sögutími þáttanna er annar en upphaflegrar myndasögubókar Alan Moore og Dave Gibbons, sem hér er í orði löguð að litla skjánum en á borði lögð til hliðar og svigrúm skapað fyrir nýtt, heildstætt og aðskilið verk. Óhætt er jafnframt að segja að þáttastjórnandinn Damon Lindelof takist keikur á við flókið verkefni og farist það eindæma vel úr hendi.
Trámatískar menningarminningar
Tímahnikið inn í framtíðina kallar með öðrum orðum á frumsamda sögu, ryður veginn fyrir nýjar persónur og leyfir slátrun á flestum þeim upprunalegu, og gefur auk þess aðstandendum miklum mun meira svigrúm til að umbreyta þematískum áherslum og viðfangsefnum. Allt er breytingum undirorpið, ekkert varir að eilífu, ekki einu sinni klassísk myndasaga eftir Moore & Gibbons, og þetta er einmitt ríkjandi tilfinning í þáttunum; svo framarlega sem klukkan tifar þá erum við öll ávallt stödd í miðju feigðarflaninu í átt að eigin endalokum.
Mikil feigð vofir með öðrum orðum yfir þáttaröðinni, ekki aðeins ókennilega tilfinningin sem fylgir því að persónur upprunalegu myndasögunnar birtast hér eins og reimleikar eða draugagangur; þeirra dagar voru taldir, endalokin komu þegar lestri bókar Moore lauk, en hér eru þeir snúnir aftur, og söguheimurinn allur. En að sama skapi er dálítið eins og yfir sögusviðinu sé myrkur og forgengileiki, öllu átti þessu að vera lokið, menn hljóta að vera staddir þarna í erindaleysu, líkt og ósýnilegi draugurinn sem ekki getur yfirgefið eigin húsakynni þótt öll ummerki um hann séu löngu horfin. Eins og til að hnykkja á þessu mynda fyrstu tveir þættirnir eins konar samtengdan dauðadans, þeim fyrsta lýkur á sjálfsvígi, í þeim næsta er byrjað að fjalla um nýafstaðið fjöldamorð á lögregluliði heillar borgar.
Að baki frásagnarinnar sveimar svo trámatísk og bæld menningarminning um aðra tíma, öðruvísi tíma, þegar rasismi og blökkumannahatur voru samfélagslega samþykkt viðhorf (eða geðbrigði) og fyrir hvíta var óhætt að sleppa fram af sér beislinu öðru hvoru. Eins og þegar „Blökku-Wall Street“ í Tulsa í Oklóhóma-fylki var lagt í eyði árið 1921. Um var að ræða hagsælasta samfélag blökkumanna í Bandaríkjunum og eitt af velmegandi samfélögum þjóðarinnar. En svo gerðist það að hvítir létu ekki bjóða sér þetta; klæddir í mörgum tilvikum hvítum sjölum og hettum KKK brenndu þeir þennan hluta bæjarins til kaldra kola og myrtu hátt í fjögurhundruð manns. Þessi glæpur endurómar í gegnum þáttaröðina alla.
Mikilvægt er að ítreka að ekki sé um beina aðlögun á myndasögunni að ræða. Við það verkefni reyndi Zach Snyder sig árið 2009 og útkoman var alvond kvikmynd. Þáttaröðin nýtir sér upprunalegu myndasöguna frekar sem einskonar stökkpall til að segja nýja sögu með þeim frásagnarlegu og táknrænu vopnum sem Moore og Gibbons reiddu á sínum tíma fram. Í stað þess að vera ádeila á Reagan-isma, forræðishyggju kapítalismans og valdníðslu hægri afla beinir þáttaröðin sjónum að líðandi stund og málefnum sem knýjandi eru í Bandaríkjum samtímans. Kynþáttahatur og djúpstætt ósamlyndi hvítra í garð blökkufólks, og sú valdníðsla og afbökun á samfélagsstofnunum sem þessu fylgir, er miðlægasta viðfangsefni nýju Watchmen þáttanna. Það er því ekki ofsögum sagt að þessir þættir, enda þótt þeir hafi komið út í fyrra, bjóði upp á djúpstæða samræðu við þá atburði sem skekið hafa þjóðina vestanhafs undanfarið.
Í skjóli nafnleysis
Áratugum eftir harmleikinn í Blökku-Wall Street hefst raunveruleg frásögn þáttanna. Robert Redford er eins og áður segir forseti og fyrirskipar hann umfangsmiklar endurgjaldsaðgerðir til þeldökkra íbúa Tulsa vegna fjöldamorðsins 1921. Þær aðgerðir reyndust áorka litlu fyrir samfélag Tulsa öðru en að fleygja bautasteini á þá glerbrú sem hafði myndast á milli hvítra og svartra. Arftakasamtök KKK rísa úr öskustó gömlu samtakanna gegngert vegna þessara aðgerða og hefja stríð gegn minnihlutahópum sem og lögreglunni. Þegar sagan hefst hafa þessi samtök herjað svo illa að lögreglufulltrúum Tulsa að búið er að lagfesta grímuburð lögreglunnar sem og nafnleysi, svo ekki sé hreinlega farið heim til lögreglumanna- og kvenna og þau myrt að næturlagi. Valdir aðilar lögreglunar taka meira segja að sér hliðareinkenni og persónuleika sem svipar allmikið til skapalóns fyrstu ofurhetjanna. Í skjóli nafnleysis og faldir á bakvið grímur eru lögregluþjónarnir nær óaðgreinanlegir frá sjálfskipuðum „verndurum“ hins óbreytta borgara, framtíðarfasistum eins og Leðurblökumanninum.
Þessi sviðsmynd kallar fram meginspurningar þáttaraðarinnar, sem hverfast um traust. Hverjum er hægt að treysta og hverjum er treystandi fyrir valdi? Fyrir öryggi almennra borgara, fyrir fjármunum – og, aftur, fyrir völdum. Er hægt að treysta fólki til þess að gera hið rétta, að fylgja gefnum reglum og stöðlum samfélagsins ef þegnarnir eftirláta þessum sömu aðilum vald og umboð til að deila og drottna? Reynslan sýnir að stofnanir og félagsleg net og hópar hefja gjarnan leika með glæsilegar hugsjónir að leiðarljósi, en ávallt spillist allt. Eina lausnin er hin samtengda krafa lýðræðisskipulagsins, sem gengur út frá því að allir séu hættulegir og sjálfhverfir ruddar, og því þurfi að aðskilja stjórntæki ríkisins og aðrar valdstöðvar samfélagsins með svo afgerandi hætti að enginn einstaklingur eða hópur geti nokkurn tíma náð valdi á þeim öllum í óþökk samfélagsins (aðgreining löggjafa og framkvæmdavalds, sjálfstæði dómstóla, tjáningarfrelsi og önnur slík atriði eru uppistöður þessarar „fávitafælu“).
En ef okkur finnst svona varasamt og erfitt að treysta dagfarslegum samborgurum okkar, og eins og dæmin sýna draga völd og peningar allskyns hyski trekk í trekk í valdastöður; ef með öðrum orðum marglæstri og baktryggðri samfélagsumgörðinni tekst aðeins með naumindum að fjötra mannlegt eðli og forða því að myrkustu miðaldir verði hið eilífa samfélagsnorm, hversu óendanlega vör um okkur verðum við þá ekki að vera þegar þeir sem manna þessar stöður, og sýsla með þessi völd, byrja að fela sig á bak við grímur?
[fblike]
Deila