Fyrsta leikverk haustsins í Tjarnarbíói var sýningin Die schöne müllerin við tónlist eftir Schubert og texta Wilhelm Müller. Það var Sveinn Dúa Hjörleifsson, tenór sem söng ljóðaflokkinn og Tómas Guðni Eggertsson sem lék undir. Kristrún Hrafnsdóttir lék aðstoðarmann píanistans og sminku malarastúlkunnar. Leikstjóri var Gréta Kristín Ómarsdóttir. Sýningin er atriði í Gleðigöngu ársins 2020 sem ekki verður með hefðbundnu sniði fremur en nokkuð annað á þessu herrans ári. Það var súrrealistísk upplifun útaf fyrir sig að sitja í hálftómum salnum (það var uppselt!) með grímuklæddu fólki.
Ljóðsaga Wilhelms Müller var 25 erindi og hafði undirtitilinn: “Sjötíu og sjö síðbúin ljóð eftir handriti fransks hornleikara”, sem bendir til þess að honum hafi verið írónísk alvara með skáldskapnum. Franz Schubert var hins vegar ekki hlátur í hug þegar hann valdi 20 af ljóðunum til að skrifa hið fræga verk: Die schöne Müllerin (1823). Það er ástríðufullt og órólegt verk, miklar hraða- og hljómbreytingar, endurspeglar gleði, sakleysi, lífsþorsta, afbrýðisemi, hatur, ótta og melankólíu förusveinsins sem verður ástfanginn af malarastúlkunni fögru, fær hennar og missir í faðminn á veiðimönnunum. Ef menn vilja geta þeir rakið tilfinningarótið í tónlistinni til þess að Schubert var sýktur af syfilis, hann lifði í fimm ár eftir Malarastúlkuna.
En hver er hún? Augljóslega tálsýn og ekki þess virði að gera sig sætan fyrir hana en förusveinninn er kominn á bragðið og tekur smám saman hamskiptum á sviðinu með hjálp og samþykki vina sinna, sminkunnar og undirleikarans.
Hann jarðar sem sagt hinn saklausa förusvein í söng sínum en stígur sjálfur fram sem hin fagra (malara) stúlka. Á meðan á síðasta hluta umbreytingarinnar stóð baksviðs hélt hinn flinki Tómas Guðni uppi stemningunni og lét salinn syngja “Að lífið sé skjálfandi lítið gras” sem raunar er eftir Schubert og endaði syrpuna á “ég er það sem ég er…”
Sveinn Dúa túlkaði þetta óvenjulega ferli glæsilega og er ekki aðeins með undurfallega rödd og mikið raddsvið heldur er líka góður leikari og góður “drag-listamaður”. Ég efast ekki um að sérfræðingar í ljóðasöng hafi getað fundið að leikritið hafi á stöku stað bitnað á nákvæmni (það er ekki hlaupið að því að syngja um leið og litaðar eru varirnar) og tilfinningu tónverksins sem kallað hefur verið “óbærilega fagurt og harmrænt”.
Mér fannst þessi hinsegin útgáfa Grétu Kristínar og Sveins Dúu líka býsna fögur og harmræn.
[fblike]
Deila