„Það bjargaði einhver sögunni …“

Í pistlum mínum að undanförnu hef ég beint sjónum að sögu, samtíma og stjórnmálum Rómönsku Ameríku. Nú er komið að menningu og listum og af nógu er að taka. Byrjum á safnaflórunni!

Úr Guayasamin safninu í Quíto, Ekvador.

Í höfuðborgum, og öllum stærri borgum, þeirra rúmlega 20 landa sem mynda mið- og suður- Ameríku er að finna allar gerðir safna.  Bókasöfn trjóna efst því argentíska ljóðskáldið Jorge Luis Borges tjáði sig um það að Paradís hlyti að vera einhvers konar bókasafn.[2] Í kjölfarið koma svo þjóðminjasöfn, listasögusöfn og nýlistasöfn upp í hugann, auk sérsafna ýmiskonar. Sérsöfnin eru gjarnan tileinkuð tilteknum listamanni – eins og Pablo Neruda söfnin þrjú í Síle, Evitu safnið í Buenos Aires, Fridu Kahlo safnið í Mexíkó eða Guayasamin safnið í Quito í Ekvador. Söfnin geta einnig verið tileinkuð tilteknu tímabili, eins og byltingarsafnið í Havana á Kúbu, eða minningarsöfnin svokölluðu, “Museos de la memoria”. Þeim er ætlað að halda fjarri glatkistunni minningum þeirra fjölmörgu sem drepnir voru eða hurfu á tímum borgarastyrjalda eða alræðisstjórna eins og í mið-Ameríkuríkjunum El Salvador og Gvatemala. Þótt eitt áhrifamesta safnið sé að finna í Rósario-borg í Argentínu, en þar hélt herinn úti pyntinga- og útrýmingarbúðum á lítilli lögreglustöð sem staðsett var á götuhorni gegnt lagadeild háskóla borgarinnar. Niður úr loftinu hanga afrit af skilríkjum þúsunda karla og kvenna sem enginn veit hvar eru niðurkomin og eyðurnar á fjölskyldumyndunum sem fylla hvert herbergið á fætur öðru, segja meira en mörg orð.

Frá Gullsafninu í Bógóta.

Í umfjöllun um söfn mætti einnig geta minja eins og píramídana í Mexíkó, Gvatemala og Hondúras og rústa Macchú Picchú í Perú, því þær teljast til gimsteina veraldarsögunnar. Enn fremur söfn um atvinnuhætti fyrr og nú, eins og um kakórækt og kaffivinnslu, söfn um líffræðilegan fjölbreytileika, auk náttúruminjasafna af öllum stærðum og gerðum sem votta að álfan nær yfir einar 70 breiddargráður og er bæði frjósöm og gjöful auðlynd fyrir veröldina alla. Enn fremur er víða að finna söfn sem tileinkuð eru íbúaþróun álfunnar og enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Þrælasögusöfnin í Brasilíu tjá tiltekinn tíma og aðstæður. Sama má segja um söfn sem varpa ljósi á samfélög frumbyggja og listmuni fyrri tíma. Af þeim bera þó gullsöfnin í Bógóta í Kólumbíu og Líma í Perú höfuð og herðar yfir önnur álíka. En í báðum söfnum er að finna ótrúlega gnótt muna úr skýra gulli – ekki hvað síst skrautmuni – en unnið er að því um þessar mundir að gera söfnin aðgengileg á veraldarvefnum, svo við sem búum fjarri getum notið þeirra. Sérlega eftirminnilegt er einnig örlítið sérútbúið safn í borginni Salta í nyrsta hluta Argentínu þar sem varðveittar eru þrjár mörg hundruð ára gamlar múmínur af frumbyggja-börnum sem talið er að hafi verið fórnað til guða Inkanna og þau síðan jarðsett í sértilhöggin grjótkeröld, hátt uppi í Andesfjöllunum.

En samtíminn er ekki síður spennandi en fortíðin, því blómleg bókaútgáfa einkennir menningarlíf álfunnar allrar. Ljóða- og ljóðskáldaþing eru víða haldin, jafnvel í fátækum smáríkjum eins og Níkaragva og í borginni Medellin í Kólumbíu, – en þar hafa 6 íslensk ljóðskáld lesið upp úr verkum sínum frá aldamótum og þar munu 100 skáld frá 45 þjóðlöndum koma saman í júní á þessu ári.[3] Bókamessur og hátíðir tilheyra svo hversdagslífi enn annarra og eru bókamessurnar í Porto Alegre í Brasilíu, Mexíkó, Síle og Bógota í Kólumbíu, auk Buenos Aires hvað mest áberandi. Í ár munu Íslensdingar taka þátt í bókamessunni í Bógóta og er mikið gert úr því á heimasíðu hátíðarinnar.[4] Rétt eins og við þekkjum hér á landi mæta bæði vel þekktir og minna þekktir rithöfundar auk þess sem almenningur fjölmennir á upplestra, viðtöl við höfunda eða einfaldlega til að ráfa á milli kynningarbása útgáfufyrirtækja sem eru – að því er virðist – óteljandi. Á bókamessu síðasta árs í Buenos Aires voru þýðingar á verkum Sjón að finna í bás Nórdica Libros útgáfunnar og bókina Voces de Islandia, safn þýðinga á íslenskum ör- og smásögum eftir ýmsa höfunda, var að finna á litlum bás Milena Caserola útgáfunnar, sem hefur það að markmiði að víkka sjóndeildarhring lesenda og gefa út ódýrar bækur, í litlu broti, sem hafa má í vasanum eða veskinu og lesa í strætó.

Hér mætti halda áfram og fjalla um blómlegt leikhúslíf, bæði starfsemi glæsilegra þjóðleikhúsa og óperuhalla stærri landanna sem og starfssemi frjálsra róttækra leikhópa eða gjörningaklúbba í kjallarakytrum sem eru í senn vettvangur gagnrýninnar samfélagsskoðunar og uppfærslu sígildra verka bókmenntasögunnar. En ég ætla heldur að huga að kvikmyndagerð og tónlist.

Þegar horft er til kvikmyndagerðar tekur nefnilega steininn úr. Vöggur kvikmyndaframleiðslu í álfunni hafa frá upphafi verið í Mexíkó, Argentínu og Brasilíu, en með ódýrari leiðum til myndsetningar og auknu alþjóðlegu samstarfi gefst sífellt fleirum tækifæri til að láta til sín taka. Þannig voru 553 kvikmyndir í fullri lengd framleiddar í álfunni allri árið 2014. Í Argentínu var hlutfall innlendra mynda sem sýndar voru í kvikmyndahúsum hæst eða tæp 40%, um 30% í Brasilíu og 20% í Mexíkó, á meðan það var lægst í smáríkjum Mið-Ameríku og Paragvæ, eða milli 2 og 3% þeirra mynda sem sýndar voru.[5] Og þótt kvikmyndaframleiðsla álfunnar sé best þekkt utan álfunnar fyrir pólitískan undirtón og samfélagsrýni, þá eru þar einnig framleiddar gamanmyndir, spennumyndir, skemmtiefni og léttmeti ýmiskonar. Að ógleymdum öllum sápuóperunum sem rúlla í gegn á vel flestum heimilum álfunnar alla eftirmiðdaga.

Og talandi um samtímann og það að bjarga sögunni þá er ekki hægt að ljúka spjalli um menningu og listir án þess að fjalla um tónlist. Því þótt flestir kannist við mexíkóst mariachi, argentínskan tangó, kólúmbískt salsa, taktfasta raggie tónlist frá Jamaíku og fjörugt raggetón úr ýmsum áttum eða pólitíska tónlist söngvaskálda álfunnar þá hafa rokk, rapp og pönk öðlast nýjan sess sem tjáningarmáti yngri kynslóðarinnar og undirtónninn er þungur. Athyglisverðar rappsveitir frá Kúbu senda stjórnvöldum tóninn og snúa uppá tungumálið til eldri kynslóðin skilji sem minnst. Kyrjandi baráttuhópar ungra kvenna hafa sett svip sinn á fjöldasamkomur síðustu missera. Árásir þeirra á karlveldið eru ákallandi og beinskeyttar. Samnefnari textanna snýr að því að fá að fara frjálsar ferða sinna, óttalausar um að verða fyrir kynferðislegu áreiti og ofbeldi. Og þær kalla ekki allt ömmu sína. Pönk-sveitir skipaðar ungum konum taka háalvarlega það hlutverk sitt að skrásetja söguna, ofbeldissöguna.

Jorge Panesi, fyrrum forseti Hugvísindasviðs Buenos Aires háskóla (UBA) þreytist ekki á að ítreka að bókmenntir og listir séu „el otro archivo de la historia“ – eða hin skjalasöfn sögunnar og stelpurnar vinna nú hörðum höndum að því að skrásetja veruleikann sem þær upplifa aftur og aftur og hljóta fyrir það bæði hrós og skammir. Og við skulum leyfa þeim að eiga síðasta orðið.

[1] Fyrirsögnin er úr ljóði Jorge Luis Borges „Einar Þambaskelfir“ í þýðingu Sigrúnar Ástríðar Eiríksdóttur. Yfir saltan mar, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfan, 2012, bls. 139.
[2] Jorge Luis Borges. “Siempre imaginé que el Paraíso sería algún tipo de biblioteca.” Sótt 25. febrúar 2020, á https://www.goodreads.com/quotes/36283-siempre-imagin-que-el-para-so-ser-a-alg-n-tipo-de-biblioteca
[3] Til frekari upplýsinga sjá: https://www.festivaldepoesiademedellin.org/(Sótt 25. febrúar 2020).
[4] Sótt 25. febrúar, 2020 á:  https://feriadellibro.com/es/noticia/4134/—islandia-se-suma-a-los-n%C3%B3rdicos-para-la-filbo-2020
[5] Sótt 25. febrúar 2020 á: http://dafo.cultura.pe/wp-content/uploads/2017/03/Bolet%C3%ADn-Infoartes-Sector-audiovisual.pdf

Um höfundinn
Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir er prófessor í spænsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún lagt áherslu á bókmenntir Rómönsku Ameríku og um þessar mundir vinnur hún að nýrri bók um málefni minnihlutahópa við Karíbahafsströnd Mið-­Ameríkuríkja. Sjá nánar

[fblike]

Deila