Ritið 3/2019: Umhverfishugvísindi og samtími

Umhverfishugvísindi og samtími eru umfjöllunarefni þriðja og síðasta heftis Ritsins á þessu ári. Greinarhöfundar koma úr ólíkum áttum og eru sumar greinarnar þverfaglegar enda viðfangsefnið til þess fallið. Fjallað er um náttúruna og umhverfi á fjölbreyttan hátt; náttúruvernd, náttúruupplifun og gildi náttúrunnar, landslag, eldfjöll og áhrif náttúrunnar á okkur mennina, svo eitthvað sé nefnt.

Shauna Laurel Jones listfræðingur og umhverfis- og auðlindafræðingur og landfræðingarnir Edda R. H. Waage og Karl Benediktsson fjalla í fyrstu greininni um friðun álftar á Íslandi og árekstra hennar og kornbænda. Unnur Birna Karlsdóttir sagnfræðingur ræðir sýn tveggja náttúruunnenda á miðhálendið og hvernig sú sýn birtist í umræðu um stofnun miðhálendisþjóðgarðs á meðan heimspekingurinn Jón Ásgeir Kalmansson fjallar um siðferðilega afstöðu okkar er varðar gildi náttúrunnar og huglægar forsendur sem búa þar að baki. Landfræðingurinn Edda R. H. Waage og heimspekingurinn Guðbjörg R. Jóhannesdóttir fjalla um þverfaglega samvinnu sína við þróun á aðferðafræði í rannsóknum á mati á landslagi. Ein óritrýnd grein er í heftinu en það er ferðasaga Tinnu Gunnarsdóttur prófessors í vöruhönnun af rannsóknarleiðangri til Japan. Tveir bókmenntafræðingar reka lestina í þemahlutanum, Harpa Rún Kristjánsdóttir og Atli Antonsson birta hér bókmenntagreiningar á ólíkum samtímabókum. Nánari umfjöllun um þemagreinarnar má finna í inngangi að þema.

Fyrri greinin utan þema er eftir bókmenntafræðingana Guðrúnu Steinþórsdóttur og Bergljótu Kristjánsdóttur og fjalla þær um minjagripi, ferðamennsku og sjálfsmynd þjóðar, ekki síst um lundann sem birtist víða. Í seinni greininni skoðar Ásdís Rósa Magnúsdóttir bókmenntafræðingur þýðingu Hannesar Finnssonar biskups á frönsku ævintýri en þýðing Hannesar fylgir greininni.

Þemaritstjórar þessa heftis eru þau Guðbjörg R. Jóhannesdóttir heimspekingur og Þorvarður Árnason umhverfis- og náttúrufræðingur en aðalritstjóri þess er Rannveig Sverrisdóttir. Forsíðuna prýðir mynd Þorvarðar Árnasonar af Hoffellsjökli. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Lúther Jónsson um prófarkarlestur.

Ritið er gefið út í rafrænu formi og það má nálgast hér. Auk þess eru öll tölublöð Ritsins sem eru fimm ára og eldri nú aðgengileg á vefnum timarit.is.

Um höfundinn
Hugrás

Hugrás

[fblike]

Deila