Ritið 2/2019: Íslenskar kvikmyndir

Íslenskar kvikmyndir er þema nýjasta heftis Ritsins  sem nú er komið út. Í því eru birtar fjórar ritrýndar greinar, þrjár sögulegar og ein þar sem fjallað er um ákveðna bíómynd. Kvikmyndafræðingarnir og nafnarnir Björn Ægir Norðfjörð og Björn Þór Vilhjálmsson skrifa sitthvora greinina, þá fyrri um sögu íslenskra kvikmynda frá upphafi sýninga og þá seinni um ritskoðun kvikmynda á Íslandi eða bannlistann. Tvær greinar í heftinu eru eftir doktorsnema, Gunnar Tómas Kristófersson fjallar um upphaf kvikmyndaaldar hér á landi en Sigrún Margrét Guðmundsdóttir um fyrstu íslensku hrollvekjuna í fullri lengd, Húsið. Innan þemans er einnig að finna tvær þýðingar, önnur þeirra er þýðing á grein eftir Tom Gunning um árbíóið en hin er grein Andrews D. Higsons um þjóðarbíó. Þýðendurnir, Björn Þór Vilhjálmsson og Kjartan Már Ómarsson, fjalla um tilurð þýðinganna í inngangi að þeim.

Þrjár greinar birtast utan þema. Fyrst seinni grein Hjalta Hugasonar guðfræðings um áhrif Lúthers og siðbótarinnar á Íslandi en fyrri greinin birtist í Ritinu 1/2019. Bókmenntafræðineminn Xinyu Zhang fjallar í sinni grein um sagnritunarsjálfsögur og skáldsöguna Hundadaga eftir Einar Má Guðmundsson. Að lokum er birt grein Davíðs Kristinssonar heimspekings um fræðamörk eða markalínur milli heimspeki og grannvísinda hennar í rannsóknum á hruninu.

Þemaritstjóri Ritsins að þessu sinni er Björn Þór Vilhjálmsson bókmennta- og kvikmyndafræðingur en aðalritstjóri þess er Rannveig Sverrisdóttir. Forsíðuna prýðir mynd úr fyrstu íslensku hrollvekjunni, Húsinu, með góðfúslegu leyfi Egils Eðvarssonar. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Lúther Jónsson um prófarkarlestur.

Ritið er gefið út í rafrænu formi og það má nálgast hér. Auk þess eru öll tölublöð Ritsins sem eru fimm ára og eldri nú aðgengileg á vefnum timarit.is.

Um höfundinn
Hugrás

Hugrás

[fblike]

Deila