Lífið er flókið, um það er engum blöðum að fletta. Tilgangur okkar, eins margslunginn og okkur kann að finnast hann vera, er í raun aðeins að halda í okkur lífinu og koma næstu kynslóð á legg. Samfélagið hefur sett okkur ákveðnar reglur og siðferðishefðir sem okkur er gert að fara eftir en þó eru alltaf einstaklingar sem kjósa að lifa á jaðrinum, lifa lífi sem ekki er siðferðislega samþykkt. Slíkir einstaklingar, eins og fjölskyldan í forgrunni kvikmyndarinnar Búðarþjófar (Manbiki Kasoku, Hirokazu Kore-eda, 2018), láta lítið fyrir sér fara og umfaðma nafnleysi fjölmennra stórborga. Búðarþjófar er áleitin og persónuleg kvikmynd þrátt fyrir stórborgaralegan brag sinn og spilar kvikmyndatakan þar stórt hlutverk í hliðsetningu góðs og ills.
Faðir, móðir, sonur, frænka, amma og yfirgefin smástelpa deila öll vistarverum í niðurníddum og íburðarlitlum húsakynnum sem þó eru drekkhlaðnar glingri, drasli og rusli. Persónurnar týnast ekki aðeins í stórfelldu mannhafi Tokyo heldur eru nánast færðar í kaf af eigin hamstri. Í slíku kraðaki gæti reynst erfitt að mynda raunveruleg tengsl, bæði milli persónanna sjálfra og áhorfendanna utan söguheimsins, en Búðarþjófum tekst að draga upp hlýlega sneiðmynd af flóknu lífi bláfátækrar fjölskyldu sem lifir í samfélagslegum útnára, utan lagalegra skilgreininga á fjölskyldueiningunni og réttlæta búðarhnupl og stuld til að halda í sér lífinu.
Taktur Búðarþjófanna er ákaflega hæglátur. Kvikmyndatakan, sem er í höndum Ryuto Kondo, verður þannig að sjöundu aðalpersónunni; hæglát, hljóð og íbyggin en aldrei ágeng, hagnýtin eða truflandi. Skotin líða áfram eins og áhorfendur séu sjálfir þátttakendur í daglegu lífi fjölskyldunnar eða eins og saklausir sjónarvottar sem um stundarsakir fá að virða líf annarra fyrir sér.
Senum Búðarþjófa er stillt upp líkt og um röð látlausra smásagna sé að ræða, nokkurs konar raunsæisleg málverk eða ljósmyndir, útpældar stillimyndir af hversdagsleikanum. Hver einasti krókur og kimi er áreynslulaus en skreyttur flóknum smáatriðum sem fanga augað ekki með fegurð sinni heldur óreiðu og óræðum tilgangi. Áhorfandinn verður þátttakandi í merkingarsköpun myndarinnar og fyllstu athygli er krafist; nauðsynlegt reynist að leita svara í víðum skotum og breiðu samhengi myndmálsins. Áhorfandinn er ekki mataður með samtölum heldur gert að veita lífinu sjálfu athygli og nema minnstu hreyfingar og svipbrigði, auk lykilupplýsinga er fram geta komið í samræðum líkt og í framhjáhlaupi.
Kvikmyndatökuvélin hreyfist varla, aðeins í örfáum atriðum verður hún táknræn fyrir hasar eða uppgang, en lengst af fá rammarnir að standa, kyrrir og óáreittir, eins og ljósmyndir á safni. Þótt skotin séu úthugsuð virka þau öll áreynslulaus, jafnvel stundum samhengislaus, rétt eins og lífið sjálft. Kvikmyndatakan skapar afslappaða stemmningu, heimilislegt andrúmsloft sem virkar sem ferskur andvari á furðulega heillandi frásögnina og söguflétturnar sem hnýta hana saman í lokin. Það er jafnframt í uppgjöri sögunnar sem sjónarhorn kvikmyndatökuvélarinnar kúvendist og þar með sjónarhorn áhorfandans, sem fer úr samúðarfullum fjölskylduvini yfir í tortrygginn gluggagægi.
Þessi annars hægláta og sérkennilega uppstilling skota og ramma eiga sér langa og ríka forsögu í japanskri kvikmyndagerð. Búðarþjófar kallast ekki aðeins á við fyrri verk Kore-eda, í bæði stílfæringu og stefum, heldur minnir myndin einnig óneitanlega á auðþekkjanlega kvikmyndagerð nafntogaðra landa Kore-eda á borð við Yasurijo Ozu og Kenji Mizoguchi. Þá kallast sú fíngerða innsýn í japönsku heimili sem hér er borin á borð fyrir áhorfendur, falleg og truflandi í senn, sérstaklega á við þekktustu kvikmynd Ozu, Tokyo Story (1953). Báðar fjalla þær um flókin fjölskyldutengsl og á meðan kvikmyndavélin slæðist um eins og fluga á vegg, kraumar pólitískt landslag Japans í bakgrunninum. Búðarþjófar sver sig með þessum hætti í ætt sígildrar japanskrar kvikmyndagerðar um leið og hún skipar sér í raðir nútímaklassíkur.
Búðarþjófar er prýðileg æfing í núvitund. Henni vindur fram fyrir augum áhorfanda eins og hugleiðsla, með ruslaralegri fegurð sinni og djúpstæðum og flóknum siðferðislegum spurningum sem aldrei verður svarað með fullnægjandi hætti. Kvikmyndin skapar svigrúm fyrir atriði sem þjóna engum öðrum tilgangi en þeim að fá að vera. Þau eru ekki undirseld kröfum atburðarrásarinnar eða sögufléttulögmálum, heldur aðeins enn ein sneiðmyndin af lífi fjölskyldunnar, sem er jafn ótrúlegt og það er venjulegt.
[fblike]
Deila