Albúm keypt á flóamarkaði

Friðgeir Einarsson, sviðslistamaður og rithöfundur, keypti þrjú myndaalbúm á flóamarkaði í Belgíu árið 2008. Tíu árum seinna lagði hann í ferðalag til Mallorca á Spáni og Belgíu til að reyna að hafa upp á konunni á myndunum með það að markmiði að skila albúmunum. Þessa óvenjulegu sögu hefði Friðgeir getað sagt vinum sínum í góðu tómi á barnum. Sagan hefði einnig getað orðið að pistli í útvarpinu eða smásögu, en Friðgeir kaus að láta söguna lifna við á sviði. Úr varð sviðslistaverkið Club Romantica sem sýnt er um þessar mundir á Nýja sviði Borgarleikhússins. Flytjandi verksins er Friðgeir sjálfur en með honum á sviðinu er Snorri Helgason tónlistarmaður. Leikstjóri er Pétur Ármannsson.

Ferð á sólarströnd

Á sviðinu var lítill upphækkaður pallur, lagður kremuðu teppi sem minnir í ákveðinni birtu á sandströnd. Þar voru fáir leikmunir: hljóðfæri, hljóðnemar, pottaplöntur, strandbolti, borð og bekkur. Sýningin hófst á hljóðupptöku af samtölum Friðgeirs við ókunnuga Belga þar sem hann spurði þá hvort þeir gætu gefið sér upplýsingar um konuna á myndinni sem hann hafði í fórum sínum. Samtölin voru á ensku og þýðing þeirra birtist á skjánum fyrir aftan sviðið.

Fyrstur á svið var Snorri. Búningur hans samanstóð af grænni Hawaii-skyrtu og stuttbuxum í stíl, auk þess sem hann var í töflum og með sólhatt á höfði. Hann söng og spilaði á gítar og munnhörpu. Lagið var um standir Mallorca og því viðeigandi að það endaði með sjávarniði. Inn á sviðið kom þá Friðgeir klæddur eins múnderingu og Snorri, nema rauðri, með myndaalbúmin þrjú undir höndinni. Sandalarnir sem hann klæddist vöktu athygli þar sem þeir voru þröngir og úr gagnsæju plasti. Hann var einnig með sólhatt. Raunar höfðu hattarnir hlutverki að gegna í sýningunni. Á Mallorca var Friðgeir með umræddan sólhatt en í Belgíu var hann með rauða derhúfu. Snorri skipti einnig oft um höfuðföt en þá brá hann sér í gervi aukapersóna og tók þátt í samtölum. Um leikmynd og búninga sá Brynja Björnsdóttir.

„Hver kaupir svona?“

Söguþráður sýningarinnar var einfaldur. Áhorfendur höfðu frá upphafi hugmynd um hvert atburðarásin myndi leiða. Sagan var sögð í fyrstu persónu eins og sannsaga þó velta megi fyrir sér mörkum sannleika og lygi, alvöru og uppspuna. Frásögnin var línuleg. Friðgeir rakti, út frá sínu sjónarhorni, sögu myndaalbúmanna allt frá því hann keypti þau á flóamarkaði í Belgíu þar til hann deilir þeim með Íslendingum á sviði Borgarleikhússins.

Friðgeir lék sér að þversögnum. Í sýningunni spurði hann: „Hver hendir svona? Af hverju er þetta til sölu? Hver kaupir svona?“ Og svarið er: Hann keypti svona. Verkið fjallar að vissu leyti um gægjuþörf fólks, þörfina fyrir að gera hluti sem maður ætti ekki að gera en getur gert. Þeir sem hafa gaman að ættfræði, lestri ævisagna og uppflettingum á samfélagsmiðlum ættu að geta tengt við þessa þörf. Það getur verið freistandi að fá innsýn inn í líf annarra en stundum getur það gengið svo langt að jaðra við njósnir. Og þannig var því stillt upp í sýningunni. Hlutverk Friðgeirs í atburðarásinni var allt í senn sagnfræðingsins, einkaspæjarans, njósnarans, elltihrellisins og pervertsins. Verkið vekur upp margar spurningar hvað varðar minningar, persónuvernd og siðferðisleg mörk.

Trúðslegur: klaufalegur en einlægur

Verkið var kaldhæðið og sjáfsmeðvitað. Þar sem frásögnin var persónuleg og í fyrstu persónu hafði Friðgeir leyfi til að mismæla sig og hika. Mikið var um nákvæmar lýsingar og beinar myndir sem gerði verkið bókmenntalegt; stílbrögðin eru lýsandi fyrir frásagnarmáta Friðgeirs sem rithöfundar. Framsetningin minnti jafnframt stundum á uppistand. Friðgeir virtist reyna eftir fremsta megni að vera ekki væminn. Hann var oft kómískur og þversagnakenndur í framsögn; orð og svipbrigði stönguðust stundum á.

Friðgeir var trúðslegur, það er klaufalegur en einnig barnslega einlægur. Hann gerði aldrei tilraun til að hagræða sannleikanum og sagði því oftar en einu sinni beint út að hann ætti myndir af konu sem hann þekkti ekki neitt og væri nú að leita að henni. Einlægnin kom honum stundum í klípu. Hún skapaði vandræðaleika og hugrenningatengsl við aðalpersónuna í dönsku sjónvarpsþáttunum Klovn. Það er skondið þar sem sýningin var á köflum eins og kaldhæðnislegt og húmorískt „twist“ á heimildaþætti og raunveruleikasjónvarp. Hreyfingar Friðgeirs ýttu undir trúðsupplifunina. Þær voru stífar, vandræðalegar og barnalegar, eins og þegar hann fékk sér sæti á gólfinu og fæturnir þvældust fyrir honum svo hann endaði á því að sitja í keng. Sviðshreyfingarnar samdi Ásrún Magnúsdóttir. Friðgeir var einnig ósjálfbjarga í leit sinni og fór ekki einföldustu leiðirnar. Það voru því utanaðkomandi aðilar sem bentu honum á að nota tækni Internetsins; sjálfur virtist hann ekki finna út úr því, ekki ósvipað sögupersónunni í smásögunni hans „Að horfa á menn“ í Ég hef séð svona (2018).

Eftir því sem leið á sýninguna fóru að vakna hjá mér spurningar um hversu mikið höfundur hafi fært í stílinn fyrir skáldskaparlegt gildi frásagnarinnar. Hver svo sem sannleikurinn er gekk Friðgeir nærri sjálfum sér. Hann sagði brandara á eigin kostnað og er því greinilega með húmor fyrir sjálfum sér. Það er góður eiginleiki.

Tilraunin gekk upp

Club Romantica var öðruvísi og hressandi sviðslistaverk. Það var oft absúrd og vandræðalegt en vegna fjarlægðarinnar við upprunalegan eiganda myndaalbúmanna var hægt að hlæja að fáránleikanum. Sagan var grípandi og áhugaverð þrátt fyrir að hafa verið einföld að forminu til. Framvindan var langdregin á köflum en byggingin var úthugsuð, með stíganda og risi undir lokin. Sviðsmyndin var í aukahlutverki en studdi við flutning Friðgeirs og bætti víddum við verkið. Tónlistin var ómissandi stemningsgjafi og myndbönd og myndir sem birtust á skjánum sömuleiðis. Brynja Björnsdóttir og Pálmi Jónsson eiga heiðurinn að myndböndunum. Eftirminnilegt er hversu góð samhæfing var á milli hreyfinga Friðgeirs og myndbandsins á skjánum þegar hann sýndi áhorfendum myndaalbúmin í fyrsta sinn. Það leit út fyrir að myndbandið væri tekið í rauntíma. Þökk sé tónlistinni og myndböndunum sómdi verkið sér vel á sviði.

Um höfundinn
Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir er með meistarapróf í ritlist frá Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila