Frelsi og ábyrgð I — Tjáningarfrelsi

Í almennri umræðu um frelsi nú um stundir vill það gjarnan gleymast að frelsi á sér samsvörun sem það fær ekki þrifist án — ábyrgð. Það er grundvallaratriði í skilgreiningu á frelsi einstaklingsins til athafna að það frelsi einskorðast við.hann sjálfan og að mörk þess frelsis liggja nokkurnveginn þegar það fer að hafa áhrif á aðra. Þar í liggur grundvöllur hugmynda um samfélagslega ábyrgð sem fylgir frelsi og setur því jafnframt nauðsynlegar skorður — hugmyndir um frelsi án ábyrgðar eru hugmyndir um ofbeldi. Það er þessvegna sem það er reyndin að á meðan það er auðvelt að ræða um og krefjast frelsis, hvaða nafni sem það nefnist,  er flóknara að ræða takmarkanir þess — sem snúa að umræðunni um ábyrgð.

Tjáningarfrelsið, frelsi einstaklinga til að tjá hugmyndir sínar og hugsjónir og birta þær í myndum eða orðum, hefur gjarnan verið talið einn af hornsteinum lýðræðis. Þar hafa menn gengið svo langt að segja að þótt þeir hafi „ýmugust á skoðunum annarra, séu þeir tilbúnir til að láta lífið fyrir rétt þeirra til að tjá þær.“ Þetta er auðsótt mál, klippt og skorið — rétturinn til tjáningar. Málið flækist hinsvegar þegar kemur að ábyrgð: Fyrst ábyrgð er grundvallarforsenda í umræðu um frelsi, hvenær er réttlætanlegt að setja fólki mörk um hvernig það tjáir skoðanir sínar? Hvenær brýtur tjáning skoðana í bága við þá ábyrgð sem henni fylgir? Hvaða ráð og reglur höfum við til hliðsjónar þegar við sjáum að það sem okkur þykir sjálfsagður réttur til tjáningar brýtur að sama skapi á rétti annarra til samsvarandi tjáningar? Hvað gerum við þegar tjáning skoðana í mynd eða máli hefur snúist upp í ofbeldi? Þetta eru erfiðar spurningar — og sínu erfiðari en óskoruð krafan um tjáningarfrelsi.

Prentfrelsið er elsta mynd tjáningarfrelsis og þar er auðveldast að greina mörk frelsis og ábyrgðar í samfélagslegu tilliti. Ef höfundur fyrr á öldum ætlaði sér að nýta sér prentfrelsið þurfti hann að yfirstíga eina hindrun; hann þurfti að finna sér útgefanda til þess að fá verk sitt gefið út. Frá upphafi bar höfundurinn ábyrgð á verki sínu, en frá fyrstu tíð þróaðist ákveðið kerfi samábyrgðar — útgefandi tók að sér ritstjórn og bar ábyrgð á útgáfunni. Þannig varð útgáfan að sameiginlegri tjáningu höfundar og útgefanda sem þeir báru báðir ábyrgð á. Hér verður til ritstjórn þar sem útgefandinn er milliliður. Í þessu fólst að hann síaði út það sem hann sjálfur treysti sér ekki til að standa við. Við þá ákvörðun naut hann reynslu sinnar og þekkingar á útgáfu, nokkuð sem höfundurinn hafði trúlega ekki til að bera.

Ef höfundur ætlar sér að fá verk sitt birt þarf hann fyrst að sannfæra einhvern ritstjóra um ágæti þess. Hann þarf að sannfæra ritstjóra um nokkur mikilvæg atriði: gæði verksins, erindi þess til lesanda og að það valdi ekki skaða án þess að ástæða sé til. Ef höfundi tekst ekki að sannfæra ritstjóra um að þessi meginatriði eigi við hafnar hann að öllum líkindum verkinu. Þegar þetta gerist hefur eðlileg ritstýring átt sér stað, ekki ritskoðun. Það að verk fáist ekki útgefið segir meira um gæði þess eða sannfæringarkraft höfundar en um annarlegar ástæður gegn ritfrelsi.

Ef hins vegar þriðji aðili blandar sér í málið eftir að samkomulag hefur náðst á milli höfundar og ritstjóra og hindrar útgáfu verksins, þá erum við að öllum líkindum komin út fyrir mörk eðlilegrar ritstýringar og inn á mörk ritskoðunar. Hér hefur ritstjóri sannfærst um að verkið fullnægi skilyrðum til birtingar en þriðji aðili, stjórnvald eða áhrifamanneskja, hindrar birtinguna. Þetta er dæmi þar sem þriðji aðili hindrar sameiginlega tjáningu höfundar og útgefanda og skerðir þar með tjáningarfrelsi þeirra.

Á seinni tímum höfum við útvíkkað hugmyndina um ritfrelsi þannig að hún nær til almennrar tjáningar, í máli, mynd, kvikmynd eða ávarpi. Það er á þessu útvíkkaða sviði sem tjáningarfrelsið hefur verið skilgreint. Á tímum tölvutækninnar hefur þetta frelsi og ábyrgðin sem því fylgir í auknum mæli flust á einstaklinginn sjálfan — margir netmiðlar hafa enga ritstýringu og gera höfundi kleift að vera eiginn útgefandi og gefa verk sín út beint, án milliliða. Þetta veldur því að fólki hættir til að gleyma því að við hefðbundnar aðstæður er samvinnusamband höfundar og ritstjóra enn meginreglan: blöð, tímarit, kvikmyndahátíðir, sýningarsalir eða gallerí taka á sig hluta af ábyrgðinni við sýningarhaldið í gegnum kerfi stýringar. Í hinu almenna tjáningarrými raunveruleikans gildir ennþá takmarkað aðgengi að sýningarstöðum og skipting ábyrgðar.

Þetta á við í tilviki myndlistar; þegar myndlistarmaður sýnir sýningarstjóra verk sín og falast eftir sýningu þarf hann að sannfæra sýningarstjórann um gildi þeirra og erindi fyrir viðkomandi sýningarvettvang. Ef sýningarstjórninn hafnar verkunum eða hluta þeirra þá er það til marks um ábyrga sýningarstjórn, ekki ritskoðun. Það er ekki fyrr en þriðji aðili kemur að málinu og krefst þess að verk verði hulið eða tekið niður af sýningu sem við getum farið að tala um ritskoðun. Þar til sýningin er endanlega ákveðin, verk hennar og birtingarmynd, er hún á samábyrgð listamanns og sýningarstjóra sem báðir þurfa að sammælast um eðli hennar og útlit — í þessu felst mikilvægt ferli sýningarstýringar í myndlist en ekki ritskoðun.

Um höfundinn
Hlynur Helgason

Hlynur Helgason

Hlynur Helgason er myndlistarmaður og listfræðingur. Hann er lektor í listfræði við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands og stundar m.a. rannsóknir á samhengi íslenskrar samtímalistar, áhrifum hennar og stöðu í fjölþjóðlegu samhengi. Sjá nánar

[fblike]

Deila