Svanasöngur Sam Shepards

Rithöfundurinn og Pulitzer-verðlaunahafinn Sam Shepard lést í fyrra en hann skilur eftir sig fjöldann allan af skáldsögum, ljóðum, leikritum, handritum og tónlist. Hann er þó þekktastur fyrir leik sinn í kvikmyndum og fyrir það fékk hann eina Óskarstilnefningu. Síðustu ævidagana nýtti Shepard til að skrifa bókina Spy of the First Person sem hann kláraði rétt fyrir andlátið og kom út að honum látnum. Verkið er því svanasöngur listamannsins.

Sam Shepard veiktist af hreyfitaugahrörnunarsjúkdómnum ALS, afbrigði af MND, óhugnanlegri og miskunnarlausri meinsemd sem að endingu dró hann til dauða. Engin lækning er til við ALS, sem herjar á frumur og taugar og verður til þess að líkaminn missir hægt og rólega allan mátt. Eins og kemur fram í eftirmála Spy of the First Person handskrifaði Shepard verkið þar sem geta hans til að nota ritvél var ekki lengur til staðar. Þegar mátturinn hvarf úr höndunum var hluti sögunar hljóðritaður og síðan skrifaður niður af aðstandendum skáldins. Þegar hljóðritun var einnig orðin honum ofviða var frásögnin skrifuð niður beint eftir honum. Shepard ráðstafaði  síðustu blaðsíðunum, las yfir verkið, valdi mynd á forsíðu og gekk frá handritinu með hjálp vinkonu sinnar Patti Smith fáeinum dögum áður en hann lést.

Spy of the First Person er ekki mikil vexti, 80 blaðsíðna nóvella sem reikar á milli þess að vera sjálfsævisöguleg og hreinn skáldskapur. Bókin skiptist í 37 stutta kafla en þeir stystu eru ekki lengri en fimm málsgreinar og minna á ljóðrænan prósa. Sögumenn eru tveir nafnlausir menn, aðalpersónan og annar maður sem virðist fylgjast með henni. Síðarnefnda röddin er ekki fyrirferðarmikil en gefur sögunni meiri dýpt þar sem hún lýsir úr hæfilegri fjarlægð hnignun aðalpersónunnar og baráttu hennar við eigin líkama. Ekki er þó alltaf fullkomlega ljóst hver er að deila með okkur sögum sínum og minningum hverju sinni. Frásögnin er brotakennd, textinn torræður og jafnvel án samhengis þar sem raddir sögumannanna virðast oftar en ekki fléttast saman. Sögurnar sem eru sagðar innan frásagnarinnar birtast oft sem leiftur minninga sem bregður snöggt fyrir augu lesandans en hverfa jafnharðan aftur.

Verkið er rammafrásögn og greinir frá eldri manni sem situr í hjólastól á verönd byggingar sem virðist vera einhvers konar einkarekin sjúkrastofnun. Maðurinn er langt leiddur af sjúkdómi og lýsir því hvernig hann hefur gengist undir mænustungu, verið settur í segulómun og slöngur þræddar um allan líkamann. Þar sem maðurinn situr á veröndinni í umönnun ættingja og vina veltir hann fyrir sér nærumhverfi sínu og hverfulu landslagi en fer jafnframt fram og til baka í tíma og gefur lesendum og þeim sem annast hann brotakennda frásögn sem virðist vera samansafn af sagnfræði, persónulegum minningum úr fortíðinni og þáttum sem eru kannski lítið annað en hreinræktaðar fabúlur. Sögurnar og minningar sögumannsins eru fjölbreyttar og að mestu án samhengis við hver aðra. Þær segja frá ættfeðrum sögumannsins, ævintýrum Pancho Villa frá Durengo, tilefnislausu ofbeldi af hendi karlmanns gagnvart konu, flótta frá Alcatraz og fjölskylduferð á mexíkanskan veitingastað svo eitthvað sé nefnt. Á sama tíma og maðurinn deilir sögum sínum  situr yngri maður á verönd í húsinu á móti honum, einnig með takmarkaða hreyfigetu. Þeir vekja forvitni hvors annars og fylgjast grannt með atferli hins án þess þó að eiga í nokkrum samskiptum. Þeir hafa í raun enga hugmynd um hvað það nákvæmlega er sem vekur þessa forvitni. Eru það þeirra sameiginlegu örlög eða einsemdin? Eins og yngri maðurinn segir: „Það er ekki bara minn fábreytileiki hvort sem er, heldur hans líka, okkar beggja.“  

Sam Shepard. Mynd: SamShepard.com

Það er erfitt að henda reiður á sögunni og segja má að hún sé opin til túlkunar. Eru þetta hugsanir, hugarórar eða jafnvel fleipur deyjandi manns? Hverjir eru mennirnir tveir sem sitja og velta fyrir sér tilvist hvors annars? Eru þeir einn og sami maðurinn, faðir og sonur, fortíðin andspænis nýjum tíma eða er þetta vísun í ofsóknarkennd eða gægjuhneigð sem virðist vera ákveðið stef innan verksins? Mennirnir sitja á sitthvorri veröndinni líkt og þeir séu að bíða eftir einhverju, en hverju? Dauðanum, sáluhjálp, Godot? Shepard hefur meiri áhuga á að vekja spurningar hjá lesandanum en veita svör.

Það er erfitt, ef ekki ómögulegt, að lesa verkið og túlka án þess að taka tillit til örlaga höfundarins og í raun stendur verkið höllum fæti ef vitneskja um þau er ekki til staðar. ,,Ekkert virðist virka lengur. Hendur. Handleggir. Fætur. Ekkert. Ég bara ligg hér og bíð eftir að einhver vitji mín. Ég horfi upp í himininn,“ segir á einum stað. Hvers kyns texti sem greinir frá tilurð verksins hefur þannig gífurleg áhrif á upplifun lesandans, stækkar og víkkar frásögnina til muna og fyllir út í síðurnar. Sagan á bak við verkið er, ef eitthvað er, stærri en verkið sjálft. Ólíkt því sem vant er tileinkar höfundurinn ekki bókina einhverjum heldur er hún tileinkuð honum og sú kveðja kemur frá börnum hans. Textinn hverfist þannig líka að miklu leyti um einmanaleikann og hversu hverfult allt í lífinu er. Þetta er uppgjör deyjandi manns við lífið og líkama sem er að bregðast honum. Verkið spyr jafnframt tilvistarlegra spurninga um hver við erum og hvaðan við komum. Þetta er fallegt lítið kver, svanasöngur og hinsta kveðja Sam Shepards.

Aðalmynd: Graciela Iturbide, „Señor de Los Pájaros (Lord of the Birds), Nayarit“, 1985.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Jens Pétur Kjærnested

Jens Pétur Kjærnested

Jens Pétur Kjærnested er meistaranemi í íslenskum bókmenntum.

[fblike]

Deila