Sterk, viðkvæm og krefjandi sýning

„They tried to make me go to rehab but I said no no no“ söng Amy Winehouse og undir þetta gæti Emma tekið í leikritinu Fólk, staðir og hlutir eftir Duncan Macmillan tekið ef henni væri söngur í hug.

Lyfjahylki

Salnum hefur verið skipt í tvennt, áhorfendur sitja sitthvorumegin við sviðið sem er langur pallur, fremur mjór og bogamyndaður til endanna eins og lyfjahylki eða klefi.  Það er Börkur Jónsson sem gerir leikmyndina. Leikararnir sjö verða að athafna sig á þessu þrönga sviði, leikmunir eru fáir og senuskipti hröð. Sýningin er afar líkamleg, krefst mikillar fimi  eins og allar sýningar Vesturports og þetta er eins konar vörumerki Gísla Arnar Garðarssonar og Vesturports.

Svið af þessu tagi rjúfa hið hefðbundna samband sviðs og áhorfenda sem fá ekki aðeins að horfa á leikarana leika fyrir sig heldur neyðast til að horfa samtímis á hina áhorfendurna bak við leikarana og eru sjálfir til sýnis um leið. Leikrýmið undirstrikar jafnframt að heimurinn sem við horfum á er lokaður, við horfum á hann en hann ekki á okkur.  Þetta er bara byrjunin á þessari útpældu, nærgöngula sýningu.

Leikkvennaleikrit

Upphafssenan er stutt. Leikkonan Emma og svartklæddur herramaður eru að leika í Nínu og Konstantin í Mávinum eftir Anton Chekhov þegar leikkonan hættir að muna rulluna, ruglar bara og verður að fjarlægja hana af sviðinu. Hún birtist aftur á meðferðarstofnuninni og að spurð segist hún vera með gras, spítt,  beta-bokkera, gin, ibufen, valíum, ativan og benzos í mallakútnum. Hún segist heita Nína og vera mávur. Nína Dögg Filippusdóttir leikur þessa fallegu, greindu og fyndnu en mjög svo illa stöddu leikkonu af krafti og öryggi. Neikvætt orkusvið hennar er þvílíkt að hún dregur alla athygli að sér eins og segul. Öll yfirvöld á meðferðarheimilinu slást við hana, allir sjúklingarnir velja hana sem mótleikara í hlutverkaleikum þó að þeim líki ekki við hana  en sjálf gefur hún ekkert af sér. Hún deilir engu heldur rennur upp úr henni lygin svo að enginn veit hver hún er eða heitir eða hvaða sögu hún kýs að segja hverju sinni. Hún er hrokafull,  hæðist að öllu og öllum kringum sig, hún vill halda í allar sínar goðsagnir en hafnar goðsögnum annarra, hún vill ekki breytast af því að hún er frábær að eigin mati. Allir hinir fíklarnir sjá meira og minna í gegnum sjálfsblekkingar hennar og innihaldslaust stærilæti. Hún heitir ekki Nína heldur Emma.

Nína Dögg sýnir þær helvítiskvalir sem Emma gengur í gegnum í afeitrunininni – á valdi líkamans, á valdi eitursins og í lokin standandi frammi fyrir lífinu eftir meðferð. Áhorfandinn margstendur Emmu að lygum og svikum. Hún er óáreiðanlegur sögumaður og enda leikkona sem vill helst fara með góð hlutverk sem aðrir hafa skrifað.  Nína Dögg náði fantavel að endurskapa margfeldni persónunnar sem er í raun og veru að leika sjálfa sig án þess að taka ábyrgð á því að hafa skrifað það hlutverk. Og hún getur það  ekki á meðan hún afneitar tilfinningum sínum og neitar að horfast í augu við trámað sem hún flýr stöðgut undan. Nína Dögg líkamnaði þessi átök og makalaust að sjá umskiptin milli sena úr hrjáðu, sljóu og gömlu andliti fíkilsins yfir í hraustlega og fallega konu ogþar var list Þórðar Orra Péturssonar sem sá um lýsinguna líka að verki. Gísli Örn Garðarsson sýnir leikritið samtímis í Noregi og Íslandi og tónlistin var í höndum Noregsáhafnarinnar, Gaute Tönder og Frode Jacobesen. Hún var verulega flott og keyrð upp öðru hvoru  í áköfum blikkljósa -dansatriðum, örstuttum, meðan senuskipti fara fram.

Sigrún Edda Björnsdóttir leikur lækninn sem skoðar Emmu,  skýrir ferlið og tólf sproa kerfið út fyrir henni og þarf að skylmast við þennan orðhák, árásargjarnan og óþolandi en líka mjög brothættan. Það er tvíræð virðing fólgin í því að Emma skuli líkja henni við móður sína. Sigrún Edda leikur líka tvö önnur hlutverk, meðferðarfulltrúann Lindu sem felur sterkan vilja undir blíðu og víkjandi yfirborði og loks móður Emmu. Sem sagt allar þrjár birtingarmyndir valdsins sem stefnt er gegn Emmu að hennar mati. Titill leikritsins vísar til þrennunnar sem fólk þarf að varast eftir meðferðina: fólks – staða og hluta sem tengjast og kalla á vímuefnin sem eru þeim lífshættuleg.

Leikur Sigrúnar Edda í öllum hlutverkunum var aðdáunarverður og í lokaatriðinu sendi hún ískaldan hroll gegnum mann en hvers vegna má ekki segja, til að eyðileggja ekkert fyrir þeim sem eiga eftir að sjá sýninguna.

Fá orð – mikilvæg hlutverk

Maríanna Clara Lúthersdóttir og Edda Björg Eyjólfsdóttir leika fíkla í hópmeðferðinni og ég hefði alveg þegið að fá meiri innsýn í þeirra líf í leikritinu og hefði þá þess í stað mátt skera eitthvað niður af vitsmunalegum (þó fyndnar séu) skylmingum Emmu . Maríanna Clara og Edda Björg léku handfljóta og hæfa hjúkrunarfræðinga á meðferðarstofnuninni, hæfa um að tækla hratt og örugglega hvaða hryllingsástandi sem var.  Maríanna lék líka fíkilinn Láru, viðkvæma, þögla og brotna konu. Hlutverkið er að mestu þögult en hún náði samt að skapa sterkan karakter og hið sama gerði Edda Björg. Hún lék Margréti, frekar þungbúna, með örlítið órætt glott  þegar leikkonan lék sérstöðu sína meðal fíkla. Báðar fengu þær stutta mónólóga sem gáfu innsýn í tráma hvorrar um sig og þær voru ekki að hika við að deila þeim með félögum sínum.

Hannes Óli Ágústsson lék Steinar, fyrrum fíkil, nú meðferðarfulltrúa. Hans hlutverk var mest í upphafi en hann var líka þögull hluti af fíklahópnum og maður sá árin hrynja af honum og umkomuleysi barns stíga fram þegar átök í hópnum hörðnuðu.  Jóhann Sigurðsson lék þrjú hlutverk, fíklana Svein og Pál, annan ofsóknarbrjálaðan, hinn yfirstéttaralka og loks lék hann vanmetinn föður Emmu sem  kom bæði henni og áhorfendum hressilega á óvart í lokin.

Og þá er ótalinn Markús sem Björn Thors leikur, sá sem ögrar Nínu og sér í gegnum hana en ánetjast henni líka. Þau eru bæði orkustöðvar en á sama hátt og fólkinu í hópmeðferðinni er ekki gefinn bakgrunnur, fáum við of litlar og brotakenndar upplýsingar um Markús. Hann er gáfaði alkinn sem getur greint vandann en ekki notað þá þekkingu til neins, ekkert byggt upp á rústunum af eigin lífi. Eins og Steinar verður hann meðferðarfulltrúi og í seinni innlögn Emmu er hann í öðru hlutverki. Björn Thors bjó til sömu tvöfeldni og Nína Dög í hlutverkinu og því meira sem maður hugsar og talar um þessa sýningu því betur sér maður hve vel hún var unnin af leikurunum, leikstjóranum Gísla Arnari Garðarssyni og hans færu áhöfn.

Tólf spor

Leikrit Duncan Macmillan  Fólk, staðir og hlutir er um vímuefnavandann sem fer ekki í manngreinaálit, drepur fleira fólk árlega á heimsvísu en heilu styrjaldirnar og rústar jafn mörgum fjölskyldum og samböndum eða hinum svokölluðu innviðum samfélagsins. Í leikritinu berjast allir fyrir lífi sínu af mismiklum mætti. Heilbrigðisstarfsmennirnir eru fólk sem hefur séð nánast allar útgáfur af mannlegri lægingu.

Örvænting og harmur aðstandenda fárveikra fíkla beinist oft gegn stofnunum og fólki sem er að reyna að hjálpa fíklunum aftur til lífsins. Fjölmiðlar magna þetta upp. Þjónustan er ekki nógu góð er sagt. Meðferðarstofnanirnar eru gerðar að sökudólgum og fólkið sem þar vinnur. Af hverju beina ekki allir spjótum sínum að þeim sem fjármagna og græða á eiturlyfjum, gegn forgangsröðun lögreglunnar, gegn þeim stjórnmálamönnum sem vilja frekar lækka skatta en styrkja úrræði fyrir börn og ungmenni sem farast? Skyndilausnir eru ekki nógu góðar því að meðferðin verður að fylgja sjúklingum alla leið að rót vandans og kenna þeim að forðast sjúk tengsl, hættulega staði og hluti sem eru þeim ekki til góðs.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila