Katrín Gunnarsdóttir frumsýndi sitt nýjasta verk, Crescendo í Tjarnarbíói fimmtudaginn 22. mars. Verkið er tríó þriggja ólíkra kvendansara sem í gegnum hreyfingu og söng tjá hvernig konur hafa notað sönginn til að létta sér erfiða líkamlega vinnu. Innblástur fyrir efni verksins sækir Katrín „í sögu líkamlegrar vinnu kvenna og sérstaklega til endurtekinna hreyfinga og söngva, með það að markmiði að skapa aðstæður fyrir nána kvenlæga samveru, samhug og samruna.“
Umgjörð verksins er einföld og hlý, rauðir kvenlegir samfestingar og mjúkt rautt teppi á gólfinu. Lýsingin var látlaus og hrein nema hvað örlítill reykur liðaðist inn á sviðið þegar líða tók á sýninguna. Hreyfingarnar voru smáar og endurtekningasamar og fóru að mestu fram á gólfinu. Í fyrstu sátu dansararnir saman og gerðu sömu hreyfinguna allar samtaka en þegar leið á byrjuðu þær að tengjast og vefjast saman þannig að einstaklingurinn hvarf í heildina. Þær færðust á milli samtaka formsins og samrunans þar til upphafið var endurtekið og ljósin féllu. Það var engin tónlist í verkinu. Í fyrstu var þögn, síðan mátti heyra andadrátt dansaranna og að lokum söngl eða raul. Hljóðmyndin var þannig afar viðkvæm en einstaklega falleg.
Dansverkið Crescendo hafði einstaklega sefandi áhrif á áhorfandann. Það var eins og það næði inn í taugakerfið og hægði á öllum gangi þess. Þögnin og hljóðlátur söngurinn, liturinn á búningunum og teppinu og hreyfingarnar, síendurteknar en samt í sífelldri þróun, smugu inn í undirvitundina og leistu upp þreytu og spennu sem hlaðist hafa upp í dagsins önn. Það var freistandi að gefa eftir inn í hið róandi og milda andrúmsloft sem einkenndi verkið, loka augunum og láta þreytuna líða alveg úr sér en þeirri freistingu var samt ekki hægt að falla fyrir því að þá væri farið á mis við fegurðina sem birtist á sviðinu.
Konur hafa í gegnum tíðina unnið mikla verklega vinnu, sama hvort það var á heimilinu í formi þrifa, þvotta, baksturs, sauma, prjóna og umönnun barna eða út á við að skúra, salta síld, mjólka kýr, raka hey og svo framvegis. Mikið af þessum störfum byggjast á endurtekningum og sterkri hrynjandi og krefjast nákvæmni, þolgæði og andlegs jafnvægis. Katrín segist sækja í þennan verklega veruleika kvenna í verki sínu og tekst mjög vel upp. Hrynjandin í verkinu var sterk, allar hreyfingar voru hárnákvæmar og að því virtist áreynslulausar en slíkt krafðist mikils þolgæðis og andlegs jafnvægis af dönsurunum. Áferð verksins átti þó ekkert skylt við það strit sem þessi verklega vinna oft á tíðum var. Það var frekar að maður tengdi við ímyndina af hinni iðnu konu sem aldrei féll verk úr hendi en vann í ró og raulaði við vinnu sína. Ímyndina af ömmunni sem sat við prjóna eða stóð í kleinubakstri með börnin að rjátla í kringum sig.
Crescendo var fallegt verk sem náði vel því markmiði sínu að gefa áhorfendum tækifæri til að hægja á tímanum eins og höfundur þess ætlaði sér. Það hafði sömu áhrif á undirritaða eins og góð slökunartónlist eða jógískur svefn (yoga nidra). Hin hljóða og hæga áferð skapar þó þá hættu að þreyttir hugar missi athyglina. Verkið tekst á við kvenleika á áhugaverðan hátt. Líf kvenna er skoðað út frá líkamlegum veruleika þeirra en þó ekki útliti eða líffræðilegum eiginleikum heldur notkun líkamans í daglegu lífi og atvinnu. Ímyndin um mildileika mæðra, kvenna og meyja sem hefur verið gagnrýndur um nokkurt skeið vegna þess að hún ýti undir valdaleysi þeirra birtist hér á jákvæðan hátt. Líkamleg beiting dansaranna skapar sefandi andrúmsloft og tilfinningu fyrir nánd, samhug og sameiningu.
Danshöfundur: Katrín Gunnarsdóttir
Dansarar: Heba Eir Kjeld, Snædís Lilja Ingadóttir, Védís Kjartansdóttir
Sviðsmynd og búningar: Eva Signý Berger
Búningagerð. Alexía Rós Gylfadóttir
Hljóðmynd: Baldvin Þór Magnússon
Lýsing: Jóhanna Friðrik Ágústsson
Dramatúrgía: Alexander Roberts og Ásgerður G. Gunnarsdóttir
[fblike]
Deila