Listin að lifa listina af

Mynd: Sara Líf Magnúsdóttir

Leikfélagið Rokkur Friggjar stendur fyrir nýrri leiksýningu: Forget me nots, sem verður frumsýnd á Íslandi í júní og á Englandi í júlí. Leikstjóri og höfundur verksins er Anna Íris Pétursdóttir. Anna útskrifaðist frá Rose Bruford College á Englandi og stundaði þar á undan nám við Menntaskólann í Hamrahlíð, MH. Að auki hefur hún lært við Lavakunstikool, sviðslistaskóla í Eistlandi, sem og við Baltic Film Acadamy, einnig í Eistlandi. Þótt hún sé aðeins 24 ára gömul hefur Anna því komið víða við og Forget me nots er ekki fyrsta verk hennar. „Ég hef sett upp nokkrar sýningar, ein stór fór á Fringe í fyrra og var þar í 10 daga,“ segir hún en Edinburgh Fringe Festival er ein stærsta listahátíð heims. „Sú sýning, Hetjan, eða á ensku, Hero, fjallaði um áróður og hvernig hann hefur áhrif á börn.“

Pólitík og mannréttindi í leikverkum

Forget me nots er ekki ósvipað Hetjunni hvað varðar þema en mörg verk Önnu eru unnin með alvörugefin málefni í huga. „Ég dreg mikinn innblástur frá Bertolt Brecht en hann sagði að leikhús ætti að fá þig til að hugsa, sem er það sem ég reyni að gera. Ég vil að sýningin sitji áfram með áhorfendum í allavega nokkra klukkutíma, helst lengur.“ En ekki eru allir ánægðir með pólitísk verk ungra listamanna. „Ég hef oft fengið athugasemdir á borð við: af hverju skrifarðu bara svona verk? og: þú ert 24 ára, hvað veist þú um þetta?

Tilvonandi listamönnum er oft tilkynnt að það þurfi harðan skráp til að lifa af heim listarinnar og erfitt sé að fóta sig innan hans. Hvernig tókst Önnu að brjóta sér leið inn í hann sem starfandi leikstjóri og höfundur? „Ég myndi ekki segja að ég væri búin að því,“ segir hún og hlær. „Hvatvísi getur verið mjög hjálpleg. Ef þú hugsar of mikið um áhættuna þá gerirðu aldrei neitt. Því vissulega er ákveðin áhætta fólgin í listnámi.“ Anna segir að þrátt fyrir að námið geti verið mjög dýrt, sérstaklega erlendis, sé hún mjög ánægð með þá ákvörðun að fara í nám. „Ég er núna að setja upp sýningu í fyrsta sinn þar sem ég fer af stað með það í huga að geta borgað leikurunum mínum og sjálfri mér. Hingað til hef ég sett upp verk þar sem ég hef komið út á núlli og jafnvel í mínus.“ Hún játar því að það geti verið svolítið sárt en bætir við að auðveldara sé að kyngja því ef maður einblíni á að byggja „brandið“ sitt upp sem fjárfestingu til frambúðar.

Mynd: Sara Líf Magnúsdóttir

Stíll leikstjórans

Sem leikstjóri segir Anna að henni finnist mikilvægt að leikararnir skapi verkið jafn mikið og hún sjálf: „Handritið er aldrei heilagt hjá mér.“ Hún segir að það sé æðislegt að vinna með fólki sem komi með sínar eigin hugmyndir og túlkun og að hún leitist við að vinna með þess háttar fólki aftur og aftur. Að vera bæði handritshöfundur og leikstjóri ímynda ég mér að geti verið erfitt en Anna segir að það komi með tímanum. „Fyrst þegar ég byrjaði, þegar ég var í kringum átján ára, var þetta mikið erfiðara. Ég var ennþá föst í þessu: en textinn minn þarf að vera réttur! Síðan þá hef ég bara lært að sleppa tökunum aðeins.“ Í framhaldi af vangaveltum um áhrif leikaranna minnist hún þess að hafa þurft að skipta út leikara á Fringe og að sýningin hafi orðið allt öðruvísi í kjölfarið. „Eftir að hafa farið í skóla hef ég áttað mig á því að þú getur sýnt sama leikritið tvisvar og ef einum leikara er skipt út færðu allt annað verk, og það á líka við um handritið. Einhver sena sem ég hugsaði mjög dapra getur orðið fyndin ef leikararnir vinna hana þannig.“

Forget me nots

Anna segir að í Forget me nots séu líkamlega sterkir leikarar með menntun í dansi og reynslu úr íþróttum og þau vinni með það. Sýningin byggist á kontakt-spuna og þau reyni að vinna út frá hreyfingu karakteranna. „Að utan og inn, frekar en í hina áttina,“ útskýrir Anna. Að auki fannst henni mikilvægt að ráða hinsegin fólk í verkið þar sem sagan snertir mjög á hinsegin málefnum. Forget me nots gerist á Íslandi í kringum 1940 og fjallar um samkynhneigðan mann, Sigga, sem verður ástfanginn af breskum hermanni, Thomasi. Þriðja persónan, Gréta, er besta vinkona Sigga og ástfangin af honum en hann notar hana til að hylma yfir eigin kynhneigð.

Mynd: Sara Líf Magnúsdóttir

Anna segir að hana hafi langað að skrifa ástarsögu sem væri ekki tragísk eða melódramatísk. Slíkar sögur séu oft klisjukenndar og ofnotaðar þar sem hinsegin fólk sé notað meira sem leikmunir en persónur. Anna bendir á leiðinlegt stílbragð sem kallast bury your gays sem einkennist akkúrat af þess háttar hugsun þar sem hinsegin karakterar eru látnir deyja, oft algjörlega að óþörfu. „Það er auðvelt að detta inn í svoleiðis. Það sem við viljum gera er að sýna ljúfsára sögu sem fjallar um erfið málefni. Ástarsaga fyrst, gay second,“ bætir hún við og hlær.

Ráð og víti til varnaðar

Hugarfar Önnu finnst mér einkennast af raunsæi og ró og hún hefur þróað þá eiginleika með sér með árunum. Hvaða ráð vill hún gefa byrjendum í sviðslist, hvort sem um ræðir leikstjórn eða leiklist? „Taktu sénsinn. Þú þarft að henda þér út í þetta til að fá eitthvað til baka. Ekki vera hrædd þó að þú hendir þúsund hlutum í vegginn og bara einn komi til baka.“ Hennar helsta ráð til nýliðanna er þó að líta ekki á aðra listamenn sem samkeppni því það sé úrelt mýta: „Ef þú hjálpar þeim þá hjálpa þau þér. Að mynda tengsl er svo stór partur af þessu.“

Anna bætir við að sum mistök þurfi maður að gera sjálfur til að geta lært af þeim en annað sé vel hægt að forðast, eins og að vera óáreiðanlegur, mæta seint og hegða sér eins og díva. Hún ítrekar líka mikilvægi þess að vera kurteis við tækniliðið. „Ég segi stundum við leikarana mína að það séu hlutir á settinu sem sé erfiðara að skipta út en þeim.“ Hún segir þó helst skipta sköpum að leggja sig fram: „Gerðu það sem þú getur til að það sé gott að vinna með þér. Það getur skipt meira máli en hæfileikar þínir. Ef það er ömurlegt að hafa þig á setti þá vill enginn vinna með þér aftur og þú gerir ekkert ein. Með hinum fleygu orðum kennara minna, og þetta er það sem þau báðu okkur að taka með okkur út í heiminn: Don‘t be a dick.“

Úr Rose Bruford College. Mynd: Michael O‘Reilly.

Aðalmynd: Matthew Kaltenborn

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Rut Guðnadóttir

Rut Guðnadóttir

Rut Guðnadóttir hefur lokið BS-námi í sálfræði og er nú meistaranemi í ritlist.

[fblike]

Deila