Kvenlægur samruni

Dansverkið Crescendo eftir Katrínu Gunnarsdóttur var frumsýnt í Tjarnarbíói 22. mars síðastliðinn. Innblástur að verkinu sótti Katrín í sögu líkamlegrar vinnu kvenna með það að markmiði að skapa nána kvenlæga samveru, samhug og samruna. Í sýningarskránni er tekið fram að í raun sé um sóló að ræða þar sem konurnar þrjár, dansararnir Heba Eir Kjeld, Snædís Lilja Ingadóttir og Védís Kjartansdóttir, vinna að því verða ein og sama konan. Sú hugmynd er skemmtilega þverstæðukennd í ljósi þess að inni í Védísi bærist líf og því má segja að fjórar manneskjur, en ekki þrjár, leitist við að sameinast. Samstillingin er þó nánast alger hjá aðstandendum sýningarinnar því auk Védísar eru höfundurinn Katrín og Viktoría Blöndal, kynningarfulltrúi sýningarinnar, með barni. Af þeim sökum er sýningartíminn í Tjarnarbíói þetta vorið fremur stuttur en stöllurnar stefna að því að flytja verkið í útlöndum á næstu misserum, eftir barneignir og fæðingarorlof.

Samhæfing sem nálgaðist fullkomnun

Verkið hófst í svartamyrkri og þögn. Þegar tók að birta mátti greina þrjár konur sitja saman í hring og sveifla höndum í takt, eins og stelpur í leik. Allar voru þær með eina fasta fléttu í hárinu og klæddar í vínrauða samfestinga úr flaueli með vaffhálsmáli að framan og aftan. Samfestingarnir voru kvarterma en buxnaskálmarnar síðar og heldur víðar svo athygli dróst ekki að líkamsbyggingu kvennanna eða því sem greindi þær að heldur að hinu samkvennlega.

Hreyfingar dansaranna minntu á gangverk, svo samstilltir voru þeir. Ég hreifst með og mátti vart blikka augum til að missa ekki af neinu. Þróun hreyfinganna var hæg og yfirveguð, svo nálgaðist fullkomnun. Endurtekningarnar voru dáleiðandi og formin sem urðu til líktust stjörnum og blómum í sjónhverfingum kviksjáa.

Smám saman þróaðist dansinn yfir í spor sem greinilega voru innblásin af vinnu formæðra okkar. Það var sem þær þrifu og stússuðust, skúruðu gólf og hnoðuðu deig. Gólfdúkurinn var úr rauðu flaueli sem varð sífellt rauðari eftir því sem bjartara varð á sviðinu. Fallegt var hvernig hendur dansaranna strukust eftir dúknum svo för mynduðust. Þá heyrðist ekkert nema róandi strokuhljóðið og þögnin (en í þögninni heyrðist reyndar loftræstingin í salnum). Þessi kafli var fallegur og ævintýralegur og minnti á Öskubusku sem skúraði húsið í hólf og gólf eftir að systur hennar voru farnar á ballið.

Tilfinning fyrir striti og erfiðleikum kom ekki fram fyrr en athyglin fór að dragast að öndun dansaranna. Hreyfingarnar urðu stærri og konurnar tóku að ferðast um rýmið eins og skuggar hver annarrar. Úr hægra horni sviðsins barst reykur sem að lokum teygði sig yfir þær. Andardrátturinn var taktfastur og barst til áhorfenda líkt og bergmál, örlítið martraðakenndur. Konurnar voru sem fastar í viðjum vanans, gátu ekki hætt, urðu að vinna. Eftir langan flutning án tónlistar, sem skapaði hugrenningatengsl við frammistöðu Katrínar í dansverkinu Shades of History, fór að heyrast eintóna söngur sem þróaðist út í stutta laglínu. Hún var endurtekin aftur og aftur. Saman við andardrátt og raul kvennanna tók að blandast hljóðmynd saman sett úr eintóna tónum, líkum þeim sem vindurinn skapar þegar hann leikur um plaströr. Bylgjuhreyfingar urðu áberandi hjá dönsurunum.

Þegar líða fór á seinni hlutann tók verkið óvænta stefnu. Danssporin og stemningin urðu kunnugleg, án þess að verða beint klisjukennd, en það var sem maður hafði séð það sem fyrir augu bar áður. Snerting jókst og dansararnir fléttuðu sig saman, fóru í kollhnísflækjur og rúlluðu ofan á hver öðrum. Eyður urðu algengari og það var sem þær tækju pásur með því að leggjast hver ofan á aðra á gólfinu, búa til stellingar faðmlags og sitja kyrrar og haldast í hendur. Meiri áhersla var lögð á tónlistina sem hafði tekið á sig form keðjusöngs. Heyra mátti að söngur dansaranna blandaðist við upptöku sömu radda í bakgrunninum en tónarnir voru þýðir og stríðir á víxl. Undir lokin var teygt of mikið á framvindu verksins; hún varð hæg og þreytuleg svo augljóst virtist að endirinn var í vændum. Verkinu lauk eins og það hófst. Konurnar þrjár sátu í hring en nú voru þær framar á sviðinu, sungu og náðu augnsambandi hver við aðra. Um varir þeirra lék stelpulegt bros áður en allt varð svart.

Crescendo og lífið

Þar sem Crescendo hefst og endar á sömu hreyfingunni með blæbrigðum má túlka verkið sem þroskasögu. Líf kvennanna hófst með leik en við tóku skylduverk, framvinda sem þær höfðu ekki endilega stjórn á en með samskiptum, samstöðu og söng tókst þeim að taka lífið í sínar eigin hendur. Vinnan varð léttari. Þó að verkið sæki í fortíðina talar það inn í samtímann því samstaða kvenna hefur verið sérstaklega áberandi á síðustu misserum með tilkomu Me-too-byltingarinnar og Höfum hátt. Þá má velta fyrir sér hvort rauði liturinn sem er ráðandi í verkinu sé vísun í tíðarblæðingar kvenna en barátta fyrir opinskárri umræðu um tíðahvörf hefur einnig verið áberandi í samfélagsumræðunni. Rauða litinn mætti þó einnig túlka sem blóð, svita og tár kvenna sem strituðu og strita enn við að fæða og klæða afkomendur sína. Rauður er auk þess litur kommúnista og byltingarfólks.

Ekki er auðvelt að sjá hvernig titillinn Crescendo tengist innihaldi verksins. Orðið kemur úr ítölsku og er mikið notað í tónlist í merkingunni vaxandi styrkur, það er að spila eigi af stigvaxandi krafti. Þá er orðið einnig stundum notað um hápunkt en um verkið segir í sýningarskrá: „Crescendo birtist okkur ekki sem hápunktur, heldur sem þögul alda. Hún líður hljóðlega hjá gegnum þrjá líkama, samofna í flæði síbreytilegra hreyfinga, söngva og hlustunar.“ Nærtækast virðist að sjá tengingu milli titilsins og tónlistarinnar í verkinu en þagnir í bland við laglínur hafa áhrif á framvindu þess. Einnig mætti líta á nafngjöfina sem þversögn. Hinn kvenlægi reynsluheimur á sér ekki hápunkt, hefur ekki náð hámarki, líður bara áfram og þróast eins og hreyfingarnar í dansverkinu Crescendo.

  • Danshöfundur: Katrín Gunnarsdóttir í samvinnu við dansarana
  • Dansarar: Heba Eir Kjeld, Snædís Lilja Ingadóttir og Védís Kjartansdóttir
  • Sviðsmynd og búningar: Eva Signý Berger
  • Búningagerð: Alexía Rós Gylfadóttir
  • Hljóðmynd: Baldvin Þór Magnússon
  • Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson
  • Dramatúrgía: Alexander Roberts og Ásgerður G. Gunnarsdóttir
  • Markaðsmál: Heba Eir Kjeld
  • Kynningarfulltrúi: Viktoría Blöndal
  • Útlit leikskrár: Geir Ólafsson
  • Ljósmyndir: Hörður Sveinsson
Um höfundinn
Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir er með meistarapróf í ritlist frá Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila