Andstæða við dásemdarheim Disney

The Florida Project (2017, Sean Baker) gerist í og umhverfis Töfrakastalann (e. The Magic Castle) í Flórída, fagur-bleikt mótel sem minnir við fyrstu sýn á lítið ævintýraríki undir verndarfaldi hins mikilfenglega Disney World skemmtigarðs, sem einmitt er í næsta nágrenni – og skýrir nafngift mótelsins. Verndarfaldurinn nær þó ekki út fyrir girðingar skemmtigarðsins heimsfræga og fátækleg ásýnd mótelsins fer ekki fram hjá áhorfendum. Framvindan bregður enn fremur birtu á harðgert líf íbúanna sem flestir skrimta með naumindum, ýmist í láglaunavinnu eða á félagslegum bótum, og vikuleg leigugreiðslan reynist þeim flestum þungur baggi.

Bobby (Willem Dafoe) er umsjónarmaður Töfrakastalans og auðsjáanlega gamall í hettunni. Hann er reiðubúinn að beita leigjendur hörku þegar þess þarf en getur einnig sýnt á sér blíðari hliðar og er honum sérstaklega umhugað um þá sem eiga erfiðast uppdráttar. Halley (Bria Vinaite), einstæð móðir sem býr á mótelinu með dóttur sinni, Moonee (Brooklynn Prince), er ein þeirra. Halley hefur nýlega misst vinnu sína sem nektardansmey og í stuttu máli fjallar myndin annars vegar um hana og viðleitni hennar til að sjá fyrir sér og dóttur sinni og hins vegar um útsjónarsemi Bobby í rekstri mótelsins og samskipti hans við leigjendur.

Ásýnd myndarinnar, í allri sinni litadýrð, kann að skírskota til einfaldleika og ævintýraljóma bernskunnar, en líf Halley er fjarri gætt þeirri hamingju og kæruleysi sem hefðbundnar Disney-myndir ljá veruleikanum. Halley er einnig ósympatísk persóna að mörgu leyti, einkum ef frá er skilið samband hennar við Moonee. Umfram allt annað er Halley knúin áfram af sjálfsbjargarviðleitni í hörðum heimi og siðferðismörkin eru þannig á reiki hjá henni. Moonee sjálf er þó ekki sú auðveldasta í umgengni og hefur ýmislegt upp eftir móður sinni. Hún er ögrandi, fylgir ekki fyrirmælum, brýtur reglur og er orðaforði hennar á við fúllyndan langferðabílstjóra sem blótar öllum vegfarendum út í kantinn. Hún er engu að síður barn og eins mikið og hún og vinir hennar ögra og ergja Bobby getur hann ekki annað en sýnt þeim skilning og þolinmæði á milli þess sem hann reynir að siða þau til þegar þau fara yfir strikið.

Ekkert er skyggnst inn í persónulegt líf Bobbys utan vinnunnar, sem virðist þar af leiðandi vera allt hans líf, en innræti hans bregður þó reglulega fyrir. Þegar hann er að mála mótelið tekur hann til dæmis eftir einkennilegum eldri manni sem sýnir Moonee og hinum börnunum ákafan áhuga þar sem þau eru að leik. Bobby er ekki lengi að kvarða manninn. Hann fer með hann afsíðis, hellir sér yfir hann og segir honum síðan að hunskast í burtu. Það fer því ekki á milli mála hver kyns afbrigðilegheitum eldri maðurinn er að leitast eftir; afbrigðilegheitum sem eiga sér enga samsömun í heimi Disney.

Andstæðuparið Disney og raunveruleikinn er ekki úr lausu lofti gripið. Hvort tveggja er áberandi stef í gegnum myndina með bæði beinum og óbeinum hætti. Túristar á leið í Disney World koma sögunni beint við og hverfist meðal annars ein sögufléttan beint um aðgangsmiða í skemmtigarðinn sem Halley stal af manni einum undir mjög svo vafasömum kringumstæðum, en miðana seldi hún öðrum ferðamanni.

The Florida Project er hrá og átakanleg, bæði hvað varðar útlit og frammistöðu leikara. Nýstirnin Bria Vinaite, Brooklynn Prince og Mela Murder (sem leikur Ashley, fráhverfa vinkonu Halley) ljá myndinni raunverulegan blæ sem einkennir gjarnan tilraunamyndir. Ef ekki væri fyrir Willem Dafoe, eina þekkta og reynda leikarann í myndinni, gæti hún jafnvel litið út fyrir að vera heimildarmynd, svo raunsæ er hún. The Florida Project er þó hvorki heimildarmynd né tilraunamynd, þvert á móti er hún útpæld úttekt á raunveruleikanum og jaðarsettu utangarðsfólki og stillir sér meðvitað og viljandi upp sem andstæðu við ofurhetjumyndir Hollywood og dásemdarheim Disney.

Um höfundinn
Sigurður Arnar Guðmundsson

Sigurður Arnar Guðmundsson

Facebook

Sigurður er nemandi í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og meðlimur Engra stjarna.

[fblike]

Deila