„Heimurinn kaldur eins og mjólk úr ísskápnum“

Fimmtudaginn 8. febrúar „droppaði“ rapparinn GKR (listamannsnafn Gauks Grétusonar) nýjustu smáskífunni sinni „NEI TAKK“ en hann hefur vakið athygli fyrir litrík myndbönd og öðruvísi texta sem fjalla um lífið og tilveruna. Í þessu nýja lagi lítur GKR yfir farinn veg og segir: „Ég er ekki tilbúinn í þennan díl/ GKR er nafnið, fáir sem rokka þennan stíl“. Þessi díll gæti vísað til sérstöðu hans sem listamanns sem er óhræddur við að rappa um það sem aðrir íslenskir karlkyns rapparar forðast: tilfinningar og viðkvæmni í lífinu.

Við fyrstu sýn virðast textar GKR einfaldir en ef rýnt er í þá er ekki allt sem sýnist, enda hafa þeir alltaf fjallað um eitthvað sem skiptir skáldið miklu máli. Fyrsti smellur hans „Morgunmatur“ fjallar á einlægan hátt um erfiðleikana sem fylgja því að rísa á fætur og koma í einhverju í verk. Þar segir meðal annars: „Hef sofið yfir mig og nenni varla neinu/ langar helst að sofa og aldrei vakna aftur“. Síðan fær hann sér morgunkorn og er tilbúinn að eltast við drauma sína.

Morgunmatur. Mynd: Nutiminn.is

Af nýjum bílum, efnum og bitches sem followa

Hinn dæmigerði karllægi rapptexti fjallar aðallega um kvenhylli, ríkidæmi og flotta bíla, eins og lag Joey Christ, Geisha Cartel og Floni „Nýjum bíl“ sýnir: „úh púlla upp´á fokking nýjum bíl/ … þú mátt eiga þennan gamla, mér er alveg sama/ ég nota hann í kortér, fæ mér svo annan“. Svipaðan tón er að finna í lagi Jóa P. og Króla „B.O.B.A.“ þar sem segir: „Fyrsta deiti, púlla upp í I30 Houndai“ og síðan minnist Króli á að hann fíli slæmar stelpur sem strauja kortið hans. Það síðarnefnda brýtur þó gegn því algenga minni í rappi að karlar eignist stelpur líkt og verðlaun.

Gísli Pálmi rappar um sterk ópíóðalyf í laginu „Efnið“ en eiturlyf eru líka algengt umfjöllunarefni í rappi. Lagið fjallar um misnotkun þessara verkjalyfja og annarra ávanabindandi efna: „Poka fulla af úrvali/ rúlla í gegn, rústa sér/ oxycontin, subutex“. Birnir og Hr. Hnetusmjör rappa hins vegar um velgengni sína í laginu „Já, ég veit“. Hr. Hnetusmjör hefur þetta að segja um kvenhylli sína: „Nokkrar bitches er’að horfa á mig/ mér gæt’ekki verið meira sama/ nokkrar bitches voru að followa mig/ ég followa engar bitches til baka“. Myndbandið við lagið var valið Myndband ársins á Hlustendaverðlaununum 2018.

Nauðsynlegt er að minnast líka á Reykjavíkurdætur en textasmíðar þeirra og framkoma hafa bæði vakið hneykslan og umtal. Sérstaða þeirra felst þó einkum í því að eingöngu konur eru í sveitinni, en samkvæmt vefsíðu þeirra eru nítján meðlimir í hljómsveitinni sem stendur. Þær koma ekki alltaf fram allar saman og taka ekki alltaf allar þátt í lagasmíðum sveitarinnar. Textasmíðar Reykjavíkurdætra eru áhugaverðar og skera sig frá meginstraumi íslensks rapps, en þeir eru einnig æði misjafnir. Þar kveður við annan tón en hjá strákunum því femínismi og raunveruleiki kvenna er aðalatriðið. Sumir textarnir eru í raun andhverfur texta karlrappara, þar sem hinum hefðbundnu hlutverkum er snúið á hvolf: „þarf ekk’að monta mig/ þarf ekki flottan bíl/ þarf ekki demanta og peninga og gotterí/ ég veit ég er heit/ ég þarf ekk’að state’aða“, kveður Katrín Helga Andrésdóttir um í laginu „Ógeðsleg“.

GKR. Birt með leyfi listamannins.

Heimurinn kaldur eins og mjólk úr ísskápnum

Textar GKR eru allir hversdagslegir og jarðbundnir, eins og dæmið úr laginu „Morgunmatur“ sýndi. Erfiðleikar og fallvaltleiki lífsins er rapparanum líka hugleikinn en sérstaka athygli vekur að hann er óhræddur við að viðurkenna að hann sé ekki fullkominn. Dæmi um þetta er textinn í „Slæmar fréttir“: „Finnst enginn þekkja mig nógu vel/ finnst ég ekki standa mig nógu vel/ finnst ég alltaf standa hérna einn“. Í laginu „Velkomin“ tekur hann síðan fram: „Ég hef svo mörg vandamál/ sem enginn má vita af/ ég reyni að leyna þeim/ líður eins og hálfvita.“

Textar GKR eru líka ríkir af áhugaverðum líkingum. Í laginu „Elskan af því bara“ líkir hann til dæmis heiminum við mjólk úr ísskápnum og vatn úr krananum. Mjólk er honum líka hugleikin í laginu „Morgunmatur“, þar sem hann „reyni[r] að finna mjólk sem er ei útrunnin/ hata súra bragðið en þannig getur lífið orðið“. Þannig sækir hann innblástur í hversdagslega hluti og nær nokkuð vel utan um það.

Lífið er erfitt

Í öðrum lögum svarar hann þeim sem finnst list hans auðveld og einföld. Þetta er meginþema lagsins „Tala um“: „Hvað ertu að tala um/ heldurð’að þú getir gert það sem við gerum, nei/ ég verð að segja það efast ég um, já“. Svo heldur hann áfram: „það á að hafa gaman að þessu/ er alveg hættur að reyna að geðjast öllum“. Þarna má greina örlítinn hroka en það er samt stutt í auðmýktina og efann hjá rapparanum því í sama lagi er þessi lína: „svo stórar hugmyndir að ég fékk næstum kvíðakast“.

Sérkenni GKR koma einna helst fram í laginu „Erfitt“ þar sem hann segir beinum orðum að lífið sé erfitt, en hann hafi komið hingað til þess að lifa því og haldi áfram að reyna, sama hvað. Í heimi þar sem börn og unglingar heyra í sífellu hversu miklu máli það skipti að græða peninga og eignast hluti held ég að það sé mikilvægt að heyra rappara segja að lífið geti líka verið erfitt og það sé eðlilegur hluti af lífinu að mistakast en maður eigi ekki að láta það stoppa sig.

GKR EP. Mynd: Thorir Celin og Sigurður Ýmir.

Hamingja og velgengni

Í laginu „Meira“ er ljóst að GKR vill alltaf meira, nóg er aldrei nóg, án þess að tiltaka hvað þetta „meira“ sé og hann bætir við: „Enginn getur sagt mér hvað ég og hvað ég get ekki/ eina sem ég geri er að berjast fyrir velgengni“. Hér gæti virst sem GKR sé dottinn í sama pakka og aðrir rapparar sem einblína á veraldlegan auð. Raunin er þó sú að hann er líklega ekki að hugsa um efnislega velgengni, því eins og segir í laginu „Velkomin“: „Finn ekki hamingjuna/ ég þarf að finna hana/ leita og leita en finn bara ekki neitt“, þá virðist hann vera að leita að einhverju öðru en bara glænýjum bíl. Síðan heldur hann áfram að rappa undir þungum takti frá Marteini „Bangerboy“ Hjartarsyni og segir að hann gefist aldrei upp þótt hann sé uppgefinn og þótt sumir reyni að draga hann niður, eins og gardínur. Ég vona innilega að það sé rétt því að Gaukur „GKR“ Grétuson kemur með kærkominn ferskleika inn í íslensku rappsenuna.

Hér má streyma plötunni GKR EP þar sem hægt er að hlusta á flest laga GKR.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Vignir Árnason

Vignir Árnason

Vignir Árnason er meistaranemi í ritlist.

[fblike]

Deila